Jökull Hjaltason 23/06/05

sunnudagur, október 01, 2006

Sunnudagur

Alltof langt síðan við höfum skrifað síðast. Á maður ekki alltaf að byrja blogg svona? Við sitjum inni í skjóli frá sólinni núna og bíðum eftir að Jökull vakni. Hann er greinilega eftir sig eftir húsdýragarðsferðina í morgun því hann er búinn að sofa í tvo tíma sem er óvenju langt. Við fórum semsagt í húsdýragarðinn í morgun og það er skemmtilegasta ferðin þangað hingað til. Jökull sýndi dýrum og mönnum mikinn áhuga og sérstaklega hænsfuglunum, föður sínum til mikils ama. Hann skríkti á þær og gaggaði og að lokum gerði ein hænan sig líklega til að hlaupa hann niður en Jökull bara hló að henni. Hann hefur semsagt ekki erft fuglahræðslu mína sem er gott. Við sáum líka þegar selunum var gefið, klöppuðum svínunum og lékum við hreindýrin og Jökli fannst þetta allt jafn gaman.

Í gær eyddum við deginum í Fiskakvísl, fórum í gönguferð um Elliðaárdalinn og Jökull lék við ömmu sína. Hann er alltaf að verða meiri og meiri dundari, getur gleymt sér í einhverjum spennandi leikjum sem hann finnur upp. Það gerist samt reglulega að hann lítur upp úr leiknum og kallar "Kat-la?" Í gær var þetta búið að gerast svo oft að við neyddumst til þess að bjóða Kötlu og Gæa, ásamt Eydísi, í mat. Eirný er í London og var því ekki boðið. Jökull var að sjálfsögðu mjög ánægður með það og var eiginlega í stanslausu hláturskasti frá því Katla kom og þar til hún fór. Þau fóru m.a. í bað saman og leiddist það ekki.

Jökli leiðist heldur ekki að vera með Ísak þessa dagana enda enginn sem hlær jafn innilega að stórkostlegum bröndurum hans. Vala var með þá báða hérna heima á föstudagskvöldið og það er nú eiginlega léttara en að vera með annan þeirra því þeir eru farnir að leika sér svo mikið saman. Þarf bara að passa að Jökull setjist ekki á Ísak í einu af væntumþykjuköstunum. Ísak skemmti sér konunglega í pössuninni, stóð og stóð og stóð og sýndi hvað hann var stór á meðan hann stóð, Völu til mikillar armæðu þar sem hún vildi að hann héldi sér í.

Þetta var nú helgin afturábak hjá okkur. Þangað til næst, veriði bless.