Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, september 13, 2006

ÁTAK Í BLOGGSKRIFUM

Mamma og pabbi eru farin til Canberra í Ástralíu og ætla að vera þar í þrjá mánuði. Þess vegna ætlum við að gera átak í bloggskrifum svo þau missi nú örugglega ekki af neinu. Annars eigum við webcam og getum talað við þau í gegnum msn og þau geta fylgst með Jökli skoppa um stofuna. Tæknin er alveg ótrúleg.

Ég fór frá þeim feðgum og skrapp til New Jersey á námskeið. Ég fór út á fimmtudegi og kom á mánudagsmorgni. Námskeiðið var mjög áhugavert og skemmtilegt. En það myndaðist nú engin stemmning þar sem allir á námskeiðinu voru bara heimafólk og dreif sig bara heim á daginn. Enginn annar útlendingur. En það kom nú ekki að sök því ég var búin að finna mér verslunarmiðstöð. Annars var staðsetning hótelsins afleit, var við hliðiná hraðbrautinni, engin lest og enginn strætó nema í hálftíma göngufæri. Verslunarmiðstöðin var nú bara 3 mínútna bílferð í burtu en það var alls ekki hægt að labba þangað út af hraðbrautinni. Ég þurfti því að fara um allt í leigubíl sem hefði nú verið allt í lagi ef að það hefði verið hægt að panta leigubíl í New Jersy. Það var bara hægt að panta limmósínur (sem voru sko ekki einu sinni langar og flottar, bara venjulegir bílar) þannig að fara í búðir kostaði 50 dollara fram og til baka. En ég lét mig nú hafa það og fór í búðir á föstudeginum og laugardeginum eftir námskeiðið og verslaði heilan helling. Á sunnudeginum var ekkert námskeið og ég flaug ekki fyrr en um kvöldið. Þá varð ég bara að fara aðeins inn í New York í smá stund. Það var ekki auðvelt að komast þangað en mér tókst að fara að Ground Zero, sjá Times Square úr fjarlægð, horfði upp Empire State Building og labbað um kínahverfið. Þetta var nóg til að ég veit að ég verð að fara aftur einhverntíman. Ég talaði náttúrulega við Jökul og Hjalta á hverjum degi og Jökull þurfti að segja mér margt og mikið. Þegar ég svo kom heim þá ákvað hann að refsa mér svolítið. Eirný kom í heimsókn og við fórum öll í sund saman. Jökull vildi bara vera hjá Eirnýju og var á fullu að knúsa hana en fór bara að grenja ef ég reyndi að taka hann. Svo þegar Eirný fór heim um kvöldið þá grét hann mjög sárt. Þetta kom mér nú samt ekki á óvart því ég mundi eftir að Katla gerði það sama við Eirnýju einhverntíman, þannig að ég var ekkert mjög miður mín, bara smá.

á sunnudaginn var áttum við voða góðan dag með Eirnýju, Gæja, Kötlu og ömmu og afa. Málið var að afi varð áttræður um daginn og amma er alveg að verða áttræð. Þau héldu svo veislu sem ég komst því miður ekki í þar sem ég var úti. En við systurnar gáfum þeim dag með okkur og fjölskyldum okkar. Hljómar kannski ekkert voða spennandi en þetta var mjög gaman. Við byrjuðum í smá morgunkaffi hjá okkur. Fórum svo á Landnámssýninguna sem er skemmtileg sýning. Fórum svo í roki og rigningu út í Viðey sem var nú allt í lagi því við fengum að borða nestið okkar inni. Síðan var farið í þriggja rétta máltíð í Barmahlíð. Þetta var mjög skemmtilegur dagur og amma og afi voru mjög ánægð.

Jökull er rosalegur prakkari og algjör strákur þessa dagana. Honum finnst ekkert gaman að leika sér að böngsum og vill bara leika með bolta og reynir að drippla þeim og sparka þeim. Svo tók hann upp á því að prófa að skyrpa á gólfið. Mjög skemmtilegt eða hitt þó heldur. En verst þótti mér þegar við sátum við morgunverðarborðið og hann benti með puttanum á mig og gerði svo byssuhljóð. Ég var nú frekar hissa og dettur nú helst í hug að hann sé að apa eitthvað upp eftir strák dagmömmunnar sem er fjögra ára. Ég ákvað að gefa bara engin viðbrögð við þessu því hann er bara allt of lítill til að skilja hvað hann er að gera. Enda hefur hann ekki gert þetta aftur. En það er eitt sem við Hjalti erum sko alveg með á hreinu og það er að Jökull mun aldrei fá byssur sem leikföng. En annars er orðaforðinn orðinn nokkuð góður hjá honum. Hann reynir að herma eftir manni og hann lærði að segja ,,Katla" alveg fullkomlega um helgina. Hann hafði alltaf sagt ,,Katta" hingað til. Svo kann hann ,,bebbi" fyrir nebbi og ,,au" fyrir augu en samt bara stundum. Svo segir hann ,,sitja" því við erum alltaf að banna honum að klifra upp á stólum og upp á borð og segjum honum að sitja. Svo segir hann ,,a bú" þegar maturinn er búinn og ,,bó" fyrir bók.

Nú er nóg komið í bili. Við sendum kærar kveðjur til Ástralíu.

ég ætla að setja inn myndir núna, fyrir 14. mánuðinn og frá ömmu og afa deginum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home