Jökull Hjaltason 23/06/05

fimmtudagur, september 28, 2006

Myrkvun

Við sitjum nú í myrkrinu. Við sjáum nú ekki alveg yfir borgina en nóg samt til að sjá myrkrið. Mér tókst meira að segja að slökkva útiljósin í stigaganginum til að hafa þetta nú sem rómantískast. Jökull bara steinsefur inni í rúmi og fattar ekkert.

Við fórum með Jökul til læknis um daginn því hann hefur alltaf verið með smá vökva í eyrunum sem búið er verið að fylgjast með. Hann er enn með vökvann þrátt fyrir að við verðum lítið vör við það. Hann á því að fara til háls-, nef- og eyrnalæknis. Heimilislæknirinn heldur að hann sé kannski með of stóra nefkirtla. Það gæti nú alveg passað því hann hefur hrotið alveg frá fyrsta degi.

Jökull er að taka út mikinn þroska þessa dagna. Hann hermir mikið eftir manni og er búinn að læra að syngja með. Ef maður syngur ,,afi minn og...." þá segir hann ,,ammana" . Svo segir hann ,,gó" fyrir ,,skó" og ef maður spyr hvort við eigum að fara út þá hleypur hann inn í forstofu og sækir skóna sína. Hann og Ísak eru líka á fullu að uppgötva hvorn annann. Þeir eiga það til að skríða báðir undir borð og sitja þar og hlægja til skiptist. Annars er öskurleikurinn uppáhalds leikurinn þeirra. Þá sitja þeir á gólfinu og öskra eins hátt og þeir geta til skiptist. Strákapörin eru bara rétt að byrja.

Annars er hún Katla alltaf í uppáhaldi og ef Jökull bara vissi og skildi að hann fer alveg að fara í pössun í Barmahlíðina þá væri hann ekkert ósáttur við það. Nánast á hverjum morgni vaknar hann og kúldrast svolítið á milli okkar, svo er eins og hann muni allt í einu eftir Kötlu og byrjar að segja nafnið hennar. Hann prófar stundum jafnvel að kalla á hana, bara svona til að athuga hvort hún hafi nokkuð komið á meðan hann svaf.

sunnudagur, september 17, 2006

Við höfum sko verið dugleg í fjölskyldusamveru þessa helgina. Við byrjuðum föstudaginn á vikulegu matarboði í Fiskakvísl. Þangað buðum við Kötlu með okkur því hún gisti hjá okkur um nóttina. Við vorum komin í Fiskakvísl á undan Kötlu og það var mjög fyndið að fylgjast með Jökli bíða eftir henni. Í hvert sinn sem dyrabjallan hringdi þá öskraði hann af spenningi og hljóp til dyra kallandi nafnið hennar. Svo þegar þetta var ekki hún þá varð hann fyrir smá vonbrigðum.

Klukkan hálf sjö á laugardagsmorguninn skreið svo Katla upp í til okkar frekar spennt yfir því hvort Jökull færi ekki að vakna. Hann rumskaði svo klukkan sjö og þegar hann rak augun í hana þá var ekki aftur snúið og alveg eins gott að drattast bara öll á fætur. Við vorum því búin að borða morgunmat, klæða okkur og komin út klukkan 08:15. Við fórum því í grasagarðinn að gefa öndunum brauð og svo líka niður á tjörn. Jökull var pínu smeykur við ágenga fuglana en ekkert í líkingu við það hvað Hjalti og Katla voru hrædd. Ég var búin að bjóðast til þess að fara bara með Kötlu í fiðlutíma á laugardagsmorguninn svo Eirný og Gæi gætu aldeilis sofið út. En ég var búin að gleyma því að þetta er body pump tíminn minn og Hrafnhildar og Hjalti þarf að passa Ísak svo að Hrafnhildur komist. Þetta endaði því á því að Eirný og Gæi mættu frekar mygluð klukkan tíu og fóru með Kötlu í fiðlutíma og tóku Jökul með sér. Hjalti passaði svo Ísak og ég og Hrafnhildur þorðum að lyfta aðeins meira en síðast, samt miklu minna en allir aðrir.

Ég og Eirný kláruðum svo að gera rifsberjahlaup úr berjunum frá ömmu. 14 stórar krukkur takk fyrir, við erum mjög ánægðar með okkur, jafnvel þó að hlaupið hafi ekki alveg hlaupið. Þetta verður þá bara þykkur rifsberjasafi. Eftir allt rifsberjaerfiðið tókum við lítinn göngutúr um Hamrahverfið. Við rákumst á lítinn kjölturakka sem hafði greinilega verið hleypt einum út til að gera þarfir sínar. Ég var ekki lengi á mér, var akkúrat með poka með mér sem ég notaði til að veiða upp kúkinn. Við eltum svo hundinn heim til sín og ég tók kúkinn úr pokanum og setti hann pent á útidyratröppurnar. Ég er mjög ánægð með þetta framtak mitt. Við enduðum svo daginn á því að fara út að borða. Eða mér og Hjalta leið allavegana eins og að við værum alveg úti að borða þó að þetta hafi bara verið skyndibitastaðurinn Culliacan.

Í dag áttum við svo von á Bryndísi og fjölskyldu og Hrafnhildi og fjölskyldu í heimsókn. Við fórum að því tilefni í bakaríið Bakarameistarinn í Húsgagnahöllinni. Við ætluðum að kaupa brauð en urðum auðvitað að biðja um innihaldslýsingu út af bráðaofnæminu hans Jökuls. Hann má ekki fá brauð sem innihalda egg eða jurtaolíu/fitu. Við fengum ekki fallegar móttökur. Ein afgreiðslustúlkan hvæsti á okkur að það væri mjólk í öllum brauðunum þeirra. Ég sagði að mér væri alveg sama um mjólk, ég væri að spyrja um egg og jurtaolíu. Þá fletti hún möppunni með innhaldslýsingunni mjög fúl á svipinn. Við fundum loks eitt brauð sem við gátum keypt. En okkur fannst það ekki nóg svo við voguðum okkur að spyrja aðra stelpu um rúnnstykkin. Sú var alveg til í að hjálpa okkur en þegar hin sá að hún var að fletta möppunni fyrir okkur þá hvæsti hún á okkur að það væru egg í öllum rúnnstykkjunum. Þá fengum við nóg og sögðum bara að við færum eitthvað annað. En það var ekki svo auðvelt. Bakaríin í Hverafold og Miðgarði voru bæði lokuð vegna manneklu. Bakaríið Kornið í Spönginni var svo loks opið en við fengum engin brauð sem Jökull mátti borða en við keyptum þau samt. Heimsóknin tókst svo ljómandi vel. Jökull var alveg dolfallinn yfir Ísaki Þorra frænda sínum sem er alveg fjögra ára gamall.

Við drifum okkur svo beint í heimsókn til Rannveigar seinnipartinn þar sem Eirný, Katla, Gæi og Eydís voru líka. Það var nú eins og fermingarveisla. Kökur, vöfflur og ég veit ekki hvað og hvað. Við erum sem sagt ekki mjög svöng eftir helgina.

Jökull lærði í gær að segja Eirný, eða honum finnst hann allavegana vera að segja Eirný þegar hann segir ,,Annei". Svo í dag sagði hann nokkrum sinnum ,,Gæ" fyrir Gæi.

miðvikudagur, september 13, 2006

ÁTAK Í BLOGGSKRIFUM

Mamma og pabbi eru farin til Canberra í Ástralíu og ætla að vera þar í þrjá mánuði. Þess vegna ætlum við að gera átak í bloggskrifum svo þau missi nú örugglega ekki af neinu. Annars eigum við webcam og getum talað við þau í gegnum msn og þau geta fylgst með Jökli skoppa um stofuna. Tæknin er alveg ótrúleg.

Ég fór frá þeim feðgum og skrapp til New Jersey á námskeið. Ég fór út á fimmtudegi og kom á mánudagsmorgni. Námskeiðið var mjög áhugavert og skemmtilegt. En það myndaðist nú engin stemmning þar sem allir á námskeiðinu voru bara heimafólk og dreif sig bara heim á daginn. Enginn annar útlendingur. En það kom nú ekki að sök því ég var búin að finna mér verslunarmiðstöð. Annars var staðsetning hótelsins afleit, var við hliðiná hraðbrautinni, engin lest og enginn strætó nema í hálftíma göngufæri. Verslunarmiðstöðin var nú bara 3 mínútna bílferð í burtu en það var alls ekki hægt að labba þangað út af hraðbrautinni. Ég þurfti því að fara um allt í leigubíl sem hefði nú verið allt í lagi ef að það hefði verið hægt að panta leigubíl í New Jersy. Það var bara hægt að panta limmósínur (sem voru sko ekki einu sinni langar og flottar, bara venjulegir bílar) þannig að fara í búðir kostaði 50 dollara fram og til baka. En ég lét mig nú hafa það og fór í búðir á föstudeginum og laugardeginum eftir námskeiðið og verslaði heilan helling. Á sunnudeginum var ekkert námskeið og ég flaug ekki fyrr en um kvöldið. Þá varð ég bara að fara aðeins inn í New York í smá stund. Það var ekki auðvelt að komast þangað en mér tókst að fara að Ground Zero, sjá Times Square úr fjarlægð, horfði upp Empire State Building og labbað um kínahverfið. Þetta var nóg til að ég veit að ég verð að fara aftur einhverntíman. Ég talaði náttúrulega við Jökul og Hjalta á hverjum degi og Jökull þurfti að segja mér margt og mikið. Þegar ég svo kom heim þá ákvað hann að refsa mér svolítið. Eirný kom í heimsókn og við fórum öll í sund saman. Jökull vildi bara vera hjá Eirnýju og var á fullu að knúsa hana en fór bara að grenja ef ég reyndi að taka hann. Svo þegar Eirný fór heim um kvöldið þá grét hann mjög sárt. Þetta kom mér nú samt ekki á óvart því ég mundi eftir að Katla gerði það sama við Eirnýju einhverntíman, þannig að ég var ekkert mjög miður mín, bara smá.

á sunnudaginn var áttum við voða góðan dag með Eirnýju, Gæja, Kötlu og ömmu og afa. Málið var að afi varð áttræður um daginn og amma er alveg að verða áttræð. Þau héldu svo veislu sem ég komst því miður ekki í þar sem ég var úti. En við systurnar gáfum þeim dag með okkur og fjölskyldum okkar. Hljómar kannski ekkert voða spennandi en þetta var mjög gaman. Við byrjuðum í smá morgunkaffi hjá okkur. Fórum svo á Landnámssýninguna sem er skemmtileg sýning. Fórum svo í roki og rigningu út í Viðey sem var nú allt í lagi því við fengum að borða nestið okkar inni. Síðan var farið í þriggja rétta máltíð í Barmahlíð. Þetta var mjög skemmtilegur dagur og amma og afi voru mjög ánægð.

Jökull er rosalegur prakkari og algjör strákur þessa dagana. Honum finnst ekkert gaman að leika sér að böngsum og vill bara leika með bolta og reynir að drippla þeim og sparka þeim. Svo tók hann upp á því að prófa að skyrpa á gólfið. Mjög skemmtilegt eða hitt þó heldur. En verst þótti mér þegar við sátum við morgunverðarborðið og hann benti með puttanum á mig og gerði svo byssuhljóð. Ég var nú frekar hissa og dettur nú helst í hug að hann sé að apa eitthvað upp eftir strák dagmömmunnar sem er fjögra ára. Ég ákvað að gefa bara engin viðbrögð við þessu því hann er bara allt of lítill til að skilja hvað hann er að gera. Enda hefur hann ekki gert þetta aftur. En það er eitt sem við Hjalti erum sko alveg með á hreinu og það er að Jökull mun aldrei fá byssur sem leikföng. En annars er orðaforðinn orðinn nokkuð góður hjá honum. Hann reynir að herma eftir manni og hann lærði að segja ,,Katla" alveg fullkomlega um helgina. Hann hafði alltaf sagt ,,Katta" hingað til. Svo kann hann ,,bebbi" fyrir nebbi og ,,au" fyrir augu en samt bara stundum. Svo segir hann ,,sitja" því við erum alltaf að banna honum að klifra upp á stólum og upp á borð og segjum honum að sitja. Svo segir hann ,,a bú" þegar maturinn er búinn og ,,bó" fyrir bók.

Nú er nóg komið í bili. Við sendum kærar kveðjur til Ástralíu.

ég ætla að setja inn myndir núna, fyrir 14. mánuðinn og frá ömmu og afa deginum.