Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Ýmislegt gerst síðan síðast.

Við erum nýbúin með sumarfríið. Við höfðum það rosalega gott. Vorum heima í eina viku að slappa af. Svo fórum við á mánudegi á Djúpavog þar sem að Eirný og co voru búin að leigja íbúð í viku. Við upplifðum ýmislegt skemmtilegt þar. Þetta var náttúrulega rosalega löng keyrsla, sjö tímar í bílnum og stoppuðum í eina klst. Jökull hefur oft verið ánægðari með foreldra sína en akkúrat þennan dag. Við stoppuðum við Jökulsárlón sem var alveg magnað. Á þriðjudeginum fórum við svo öll út í Papey. Það var fyrsta sjóferð Jökuls og mér fannst það ekkert voðalega skemmtilegt. Hjalti sagði að við yrðum að vera úti á bátnum á leiðinni. Mér leist vel á það alveg þar til ég sá þennan pínu litla bát sem mér fannst að ekki yrði erfitt að detta út fyrir. Við fórum niður í bátinn og fórum í björgunarvesti og Jökull fékk líka björgunarvesti. Þá var orðið frekar erfitt að halda á honum og maður varð eiginlega að halda utan um hann með hendurnar útréttar. Mér fór þá að finnast það bara betri hugmynd að vera inni í bátnum. En Hjalti hikaði ekki, klöngraðist upp brattan og þröngan stigann haldandi á Jökli í útréttum höndunum. Þarna var ég orðin reið og reyndi að afstýra þessum skrípaleik og kallaði á Hjalta en hann heyrði ekkert í mér. Leiðsögumaðurinn rak upp stór augu þegar hann sá til Hjalta og ruddist fram fyrir mig (þar sem ég var að reyna að ná athyggli Hjalta án þess að láta honum bregða svo að hann myndi nú hreinlega ekki missa barnið útfyrir), hann skipaði Hjalta að setjast bara á gólfið með Jökul. Ég klöngraðist svo upp á eftir þeim og sat hjá þeim á gólfinu og þorði varla að hreyfa legg né lið. Tók nánast engar myndir á leiðinni sem þýðir að ég hafi bara verið nokkuð smeyk. Ekki bætti það á líðan mína að Katla hræðist ekki neitt og sat ekki grafkjurr alla leiðina eins og ég reyndi mikið að telja hana á að gera. En auðvitað fór þetta allt voða vel og Papey var æðisleg. Ég heimtaði nú reyndar að ég og Jökull sætum bara niðri í bátnum á bakaleiðinni, enda komin þoka og ekkert að sjá. Á miðvikudeginum keyrðum við svo upp að Kárahnjúkum, sóluðum okkur í Atlavík og enduðum í sundi á Egilsstöðum. Á fimmtudeginum fóru Eirný og þau í Lónsöræfi og við skoðuðum hinn mikla bæ Djúpavog og gengum í fjörunni á meðan. Svo komu mamma og pabbi um kvöldið og gistu hjá okkur. Á föstudeginum ætluðum við svo að keyra heim en fréttum af Dísu og Halldóri í bongóblíðu á Mývatni og skelltum okkur bara þangað í staðinn. Þar gerðum við margt á met tíma, Fórum í Lónið, löbbuðum á Hverfell, löbbuðum úti í Höfða og fórum á fjósakaffið. Á laugardeginum keyrðum við svo á Akureyri og gistum eina nótt hjá afa og keyrðum svo heim á sunnudeginum. Þannig að við endum í raun á því að fara bara hringinn. Svo erum við bara komin aftur í hið daglega líf, ég í vinnunni, Jökull hjá dagmömmu og Hjalti að lesa fyrir próf.

Jökull hefur tekið miklum framförum upp á síðkastið. Er rosa duglegur að ganga um allt, dettur nú samt stundum á rassinn ennþá. Hann er algjör prakkari og kann alveg að segja nei. Þykist ekki vilja kyssa mann, segir bara nei og hlær. Hann tók svo allt í einu upp á því að telja upp að þremur. Hann tekur bolta og heldur honum á meðan hann segir eeeiihh, teeeii, og svo kemur einhver stuna sem á vera þrír og þá kastar hann boltanum eins fast og hann getur. Honum finnst alveg rosalega gaman að dansa við tónlist og hristir hausinn í takt.

Annars er ég alveg að fara að yfirgefa þá feðga og skrepp til New York, eða reyndar New Jersey. Ég er að fara á spelku námskeið og fer fimmtudaginn 24. ágúst og kem aftur á mánudagsmorguninn. Ég mun þá vera tvo daga á námskeiðinu og fæ einn dag þar sem ég ætla að reyna að skoða e-ð smá.

Ég tók náttúrulega fult, fullt, fullt af myndum í ferðalaginu okkar og mun sjá hvort ég komi þeim ekki í albúm á myndasíðunni.