Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hvaða vitleysa er í gangi hjá okkur?!!?

Þetta sagði Katla á laugardagskvöldið þegar mikið hafði gengið á hjá okkur þann daginn. Hér kemur sagan af þessari vitleysu:

Við byrjuðum daginn uppi í Stoð þar sem að ég ætlaði að yfirdekkja nýju-notuðu borðstofustólana okkar. Þegar við vorum komin upp í Stoð föttuðum við að við höfðum gleymt sjálfum stólunum. Ekkert við því að gera en að ná bara í þá. Svo fórum við heim og Jökull svaf smá lúr. Þá fórum við í heimsókn til Bryndísar frænku hans Hjalta. Þar voru að sjálfsögðu börnin hennar Freyja og Ísak Þorri. Svo voru Hrafnhildur og Maggi með Ísak þarna líka. Freyja er fimm dögum yngri en Jökull en miklu þyngri. Ég ákvað að lyfta þessari snúllu og átti svo innilega ekki von á öllum þessum þyngslum að ég hreinlega prumpaði af áreynslunni. Við fórum svo beint til Eirnýjar, Gæja og Kötlu og elduðum með þeim pizzu. Jökli tókst að detta fram fyrir sig á hillu og fékk eina rönd af marblett þvert yfir ennið. Rosa smart en þetta var nú alls ekkert alvarlegt. Okkur tókst að gefa honum smá graut að borða en hann var búinn að vera lystarlaus og með niðurgang síðan á fimmtudaginn. Svo þegar pizzan var loksins tilbúin og við öll búin að koma okkur fyrir upp í nýja fína sófanum hennar Eirnýjar þá tók Jökull sig til og ældi eins og hann væri að leika í hryllingsmynd. Það stóð bara strókurinn út úr honum. Greyið litla sem sagt kominn með ælupesti. En þar sem að hann hafði skollið á höfuðið stuttu áður þá hringdum við á 1770, bara svona til að láta sannfæra okkur að þetta væri nú ekkert tengt. En þar var okkur nú reyndar ráðlagt að fara með hann á slysó. Við hlýddum því þó við værum nú ekkert áhyggjufull um að þetta væri heilahristingur. Læknirinn sem hitti okkur var alveg sammála því og gat tjáð okkur það að hann væri bara með veirusýkingu í maganum sem gæti varað mjög lengi hjá ungabörnum. En svona til að vera alveg örugg þá áttum við ekki að leyfa honum að fara alveg strax að sofa. Við ákváðum því bara að drífa okkur aðeins aftur til Eirnýjar og borða e-ð af þessari pizzu sem við svo skyndilega mistum lystina á fyrr um kvöldið. Þegar við komum þangað fór ég að hita vatn í blísturstekatlinum þeirra, þá að sjálfsögðu kúkaði pilturinn. Í miðri bleyjuskiptingu fór svo þessi blessaði blístursketill að blístra, ég vissi ekki hvað var að gerast og hélt að það væri skollið á óveður. Ég stökk því á fætur til að kíkja út um gluggan og tókst ekki betur en svo að ég hoppaði beint í kúkableyjuna. Ég var því öll í ælu á buxunum og með kúk á sokkunum. Við veltumst öll um af hlátri og Katla hrópaði upp yfir sig í hláturskasti ,,hvaða vitleysa er í gangi hjá okkur!". Við kláruðum svo pizzuna og Jökull steinsofnaði yfir myndinni Herbie.

En nú er tæp vika síðan Jökull fékk niðurganginn og þetta virðist vera á réttri leið. Hann ældi reyndar í gærkvöldi en hefur verið mun duglegri að borða í dag en hina dagana. Við búumst nú við því að senda hann til dagmömmunar á morgun. Reyndar er ég e-ð hálf slöpp í dag, óglatt og kalt. En ég er búin að ákveða að það líði hjá eftir sirka klukkutíma eða svo.

Nýjar myndir í albúmið ,,10. mánuðurinn", fyrir áhugasama.

fimmtudagur, mars 16, 2006

AKUREYRARFERÐ

Við fórum að heimsækja langaafa Munda seinustu helgi. Við keyrðum (á nýja-gamla-vinnu-bílnum) strax eftir vinnu á föstudeginum. Við vorum nú samt ekki lögð af stað fyrr en sex og komum til Akureyrar klukkan ellefu. Það gekk mjög vel að keyra þetta með Jökul. Hann var reyndar mjög pirraður frá sex til sjö en þá stoppuðum við í Borgarnesi og gáfum honum að borða og skiptum á honum og þá svaf hann bara restina af leiðinni. Afi tók náttúrulega vel á móti okkur og Jökull fór bara beint í fangið á honum og kúrði hjá honum. Við vorum svo pínu stressuð um að Jökull myndi svo bara vaka alla nóttina eftir allan þennan svefn í bílnum. En við bara lögðum hann í rúmið, slöktum ljósið og fórum sjálf að sofa og hann lét sér bara segjast og svaf til hálf átta morguninn eftir. Við nutum þess í botn að vera á Akureyri. Heimsóktum ættingja og fórum að sjálfsögðu í Nettó, ég finn mér alltaf e-ð til að kaupa þar sem bara fæst ekki í Reykjavíkinni fyrir sunnan. Á laugardagskvöldið skelltum við okkur svo í leikhús og sáum hann Góa í Maríbjöllunni. Þetta var mjög gott leikrit og frábærir leikarar. Við svæfðum bara Jökul áður en við fórum og hann Arnar frændi minn var svo almennilegur að sitja hjá honum á meðan. Reyndar segist afi hafa setið yfir þeim báðum steinsofandi. Við keyrðum svo aftur til Reykjavíkur seinnipartinn á sunnudaginn, Jökull svaf mestanpart leiðarinnar og var bara ánægður með lífið. Við vorum líka mjög ánægð með að hafa drifið okkur og förum örugglega fljótlega aftur.

Á þriðjudaginn vorum við boðin í japansmatarboð til Sólveigar. Við fengum enga barnapíu og ákváðum því bara að taka Jökul með okkur og vera bara stutt. Okkur tókst nú ekki að vera stutt því Jökull er svo þægt barn og Sólveig ætlaði aldrei að hætta að bera fram réttina. Þetta var rosalegt matarboð, það var margréttað og sushi og allskonar flottheit, þetta var eins og á ekta veitingahúsi. Svo var leikur í lokin þar sem að þau voru búin að setja fram smádót sem þau höfðu keypt í Japan og svo áttum við að giska á hvaða hlutverki hluturinn gegnir. Þetta voru 16 hlutir og þau sem giskuðu flest rétt voru með 7 rétt svör. Þarna voru allskonar furðuhlutir; klósettsetuvermari, tannpússunarhanski, eyrnasköfur með dúski, svitainnlegg undir hendur og margt fleira. Þegar þarna var komið sögu þá var klukkan orðin ellefu og Jökull að leka niður úr þreytu. En hann var samt rólegur allan tíman, lék sér á gólfinu meðan við borðuðum og var alveg sama hjá hverjum hann var. Við vorum með frekar mikið samviskubit yfir því að fara svona illa með góðan dreng. Hann var svo sofnaður áður en við keyrðum út úr botnlanganum.

Í dag var Katla hjá okkur eftir leikskólann því Eirný er í New York og Gæi var á námskeiði eftir vinnu. Jökli fannst nú ekki leiðinlegt að hafa þessa skemmtilegu frænku sína hjá sér. Við fórum með þau á leikfangaútsölu í Perlunni. Þar var ég alltaf að spyrja Kötlu hvort ég ætti ekki að kaupa þetta eða hitt handa henni. Ég skildi ekkert í því afhverju ég fékk svona dræm svör frá henni. Mér tókst að lokum að toga upp úr henni að henni finndist svo óþægilegt að ég ætlaði bara að gefa henni eitthvað. En mér tókst loks að sannfæra hana um að mig langaði virkilega til að gefa henni eitthvað og að ég skildi bara segja henni ef hluturinn væri of dýr. Þá gengum við um alla búðina og svo fann hún sér eitthvað ógurlegt drasl sem hún sagðist vilja. Hún hefur sjálfsagt pikkað það upp einhverntíman að við höfum ekki alveg efni á öllu sem við viljum. Svona er hún nú yndisleg.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Útskrift og öskudagsafmæli.

Við héldum upp á útskriftina hans Hjalta á laugardaginn var. Það var rosalega gaman þrátt fyrir að við vorum óvart 6 mánuðum of sein með veisluna. Við fengum um 30 gesti milli fimm og sjö og fór bara ágætlega um alla í stofunni okkar. Um kvöldið komu svo vinir í partý sem dreifðist yfir allt kvöldið því flestir voru boðnir í tvö eða þrjú partý samtímis. Þannig þegar að einn fór þá tók annar við sem hentaði bara ljómandi vel. Jökull gisti hjá ömmu sinni og afa í Fannafold og var það fyrsta næturpössunin. Það gekk bara rosalega vel. Hann vaknaði nú reyndar eitthvað aðeins um fjögurleytið eins og hann gerir nánast alltaf en fékk þá bara að koma upp í til ömmu og afa. Ég var svo stressuð um að hann hefði haldið fyrir mömmu og pabba vöku alla nóttina þannig að ég var mætt klukkan hálf átta til að leysa þau af. En ég varð bara að leggja mig í gamla herberginu mínu því Jökull svaf til að verða átta. En þá veit ég það að ég get verið rólegri næst og ætla mér að sofa fram á hádegi þá. Hver vill passa næst???

Á sunnudaginn steyptist Jökull greyið allur út í einhverjum útbrotum í andliti og hnakka sem hann klæjaði all rosalega í. Hann var alveg viðþolslaus og við fórum með hann á læknavaktina þar sem við fengum fenergan til að gefa honum. Það er svæfandi og við vorum frekar rög við að gefa honum þetta en gerðum það nú samt á endanum. Kláðinn leið svo hjá fljótlega en hann er enn allur í útbrotum og við förum með hann til húðsjúkdómalæknis næsta mánudag og sjáum hvað hann segir.

Í dag átti ég svo afmæli, á sjálfan öskudaginn. Nokkur börn samstarfólks míns mættu og sungu fyrir mig afmælissönginn í Stoð og fengu að sjálfsögðu nammi fyrir. Ég fór svo með 120 súkkulaðibitakökur og mjólk fyrir starfsfólkið og okkur tókst öllum í sameiningu að klára hverja einustu köku (við erum rúmlega tuttugu sem vinnum þarna!). Í kvöld var svo öskudagsafmæli og þá mættu mamma geisja, pabbi fuglaflensu-sóttvarnarmaður, Eirný langsokkur, Katla solla stirða, Dísa prestur, Halldór furðufugl, Hrafnhildur kisa og Ísak álfur. Ég var svo læknir, Hjalti sjóræningi og Jökull kínastrákur. Hægt að skoða myndir af þessu og útskriftinni.