Jökull Hjaltason 23/06/05

mánudagur, janúar 30, 2006

Hiti, eyrnabólga og útbrot.

Það er ekki að spyrja að því, það hefur gengið á ýmsu hér hjá okkur í Vegghömrum. Jökull vaknaði með hita á miðvikudagsmorguninn og þeir feðgarnir voru barasta heima miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Þegar hitinn var ennþá yfir 39° á laugardeginum þá fórum við með hann til læknis. Þar kom í ljós að Jökull var með hálsbólgu og eyrnabólgu. Hann var því settur á sex daga pennsilínkúr. Við höfðum nú alls ekki tekið eftir því að hann væri með eyrnabólgu, hann kvartaði ekkert ef hann lá út af og var bara voðalega glaður og góður. En hann var reyndar farinn að væla pínu þegar hann var að borða, greinilega eitthvað vont að kyngja. Svo á sunnudeginum var hann bara alveg hitalaus og allt leit voðalega vel út. En þá dúkkuðu allt í einu upp einhver útbrot. Okkur grunaði nú að þetta væri mislinga-bróðir sem kemur oft í kjölfar hita í nokkra daga. En þegar við hringdum á læknavaktina þá var okkur nú ráðlagt að láta lækni kíkja á þetta þar sem að þetta gæti verið viðbrögð við pensilíninu. Læknirinn var sammála okkur og við eigum alveg að halda áfram að gefa honum lyfið. Í dag er svo Jökull voðalega pirraður, svaf mjög illa í nótt greyið og er greinilega eitthvað illt í maganum út af lyfjunum og sjálfsagt bara orðinn pirraður á því að fá ekki að hitta krakkana hjá dagmömmunni. En þetta er nú allt í rétta átt hjá okkur. Jökull er nú samt heima í dag, við Hjalti skiptum deginum á milli okkar. Ég var komin í vinnuna rúmlega sjö og var til níu og svo fór Hjalti í tíma klukkan tíu og kemur aftur heim um tvö, þá fer ég í vinnuna og verð eitthvað fram eftir.

Svo gerðist það á miðvikudaginn að við fundum tvær tennur. Svéi mér þá, þvílík gleði og hamingja. Samstundis hætti Jökull að troða öllu tiltæku beint í munninn og er nánast hættur að ráðast á kinnarnar á manni og naga þar til að stór sér á manni. Það virðist sem sagt hafa slegið eitthvað á kláðann sem hefur verið að hrjá piltinn seinustu fjóra og hálfan mánuðinn. Þetta eru tvö stykki framtennur í neðri góm, takk fyrir og erum við öll að springa úr stolti.

Hjalti er að fara að kenna valáfanga í sögu í Salaskóla þessa önnina, sagan sögð í gegnum kvikmyndir. Þeir í Salaskóla báðu hann um að kenna þetta fag þar sem að Hjalti stakk upp á því að þetta yrði kennt. Svo þegar hann komst að því að hann getur fengið þetta metið í masternum þá var þetta bara engin spurning. Ég er hægt og rólega að komast á skrið í vinnunni og finnst þetta bara skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem ég kemst betur inn í þetta.

Svo er það nýjasta að frétta af Skodajeppanum okkar að þegar við hringdum til að spyrja að því hvað viðgerðin myndi kosta þá sagði bifvélavirkinn að hann ætlaði að láta líða nokkrar vikur áður en hann myndi rukka okkur. Hann vill vera búinn að gleyma því hvað þetta var mikil vinna því annars myndi hann sjálfsagt bara fara að gráta þegar hann setti verð á þetta. Við svitnum alveg við tilhugsunina og þorum ekki að hringja í hann til að segja honum að alternatorljósið í mælaborðinu er farið að loga. Við keyrum bara bílinn og reynum að útiloka þetta skærrauða ljós. Eigum kannski stundum í smá erfiðleikum með að koma honum í gang, en það tekst að lokum.

laugardagur, janúar 21, 2006

Elsku langamma Jóna, amma hans Hjalta, er látin. Hún hafði alla tíð verið mjög heilsuhraust (enda reykti hún ekki!!) en fékk hjartaáfall rétt fyrir jól sem hún virtist vera að ná sér af. Hún fékk svo annað áfall miðvikudaginn 11. janúar snemma morguns og lést í svefni.

Kistulagningin og minningarathöfnin voru haldnar hér fyrir sunnan á fimmtudaginn var. Við Hjalti fórum í hana en Jökull var bara hjá dagmömmunni á meðan. Á fimmtudeginum keyrðu svo flestir úr fjölskyldunni norður á Mývatn þar sem jarðað var á föstudeginum. Ég og Jökull vorum hinsvegar bara eftir hér í Reykjavík. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég og Jökull vorum alein og Hjalta/pabba laus. Þetta gekk nú bara furðuvel hjá okkur svei mér þá, en þetta er nú samt tvöfalt meiri vinna og ég er stórhneyksluð á því að einstæðar mæður fái ekki lengra fæðingarorlof. Jökull svaf alveg ljómandi vel aðfaranótt föstudagsins en svaf þeim mun verr í nótt. Hann vaknaði um þrjú leytið kominn með hita og var hálf lítill í sér og gat ekki sofnað aftur fyrr en klukkan sex um morguninn eftir að hafa fengið stíl og brjóst. En þá sváfum við til tíu. Hann er svo ennþá með hita en er samt bara rosa glaður og kátur. Hann var mjög glaður að sjá Hjalta aftur, sem kom fljúgandi í hádeginu í dag, og er nú að hlusta á pabba sinn spila á gítar.

Við erum annars bara komin á fullt í hinu daglega lífi. Við förum með Jökul til Kristjönu dagmömmu klukkan átta á morgnanna, hann er alltaf jafn glaður að koma þangað. Svo keyrir Hjalti mig í vinnuna og ég er mætt þangað hálf níu, þá fer Hjalti í Háskólann. Hjalti fer svo að sækja Jökul klukkan þrjú og þeir koma svo og sækja mig klukkan hálf fjögur. Þetta er dálítill rúntur og greinilegt að við verðum að eiga tvo bíla í framtíðinni. Það er mjög gaman að vera komin aftur að vinna þó það sé dálítið skrítið að vita ekki nákvæmlega allt sem Jökull hefur gert yfir daginn. En við erum svo búin á því á kvöldin að við förum bara oft að sofa rétt á eftir Jökli.

16. janúar varð mamma 50 ára. Hún bauð okkur samt ekki í veislu því hún og pabbi voru í skemmtiferð í Boston. Þau komu svo heim aftur á miðvikudagsmorguninn. Við, Eirný, Gæi og Katla vorum því mætt í Fannafold klukkan átta og vorum búin að taka til morgunmat, hengja út bleikar blöðrur og búa til ratleik fyrir mömmu. Við gáfum henni lampa hannaðann af Bryndísi Bolladóttur (vinkona Eirnýjar) og vorum búnar að stilla honum upp inni í stofu. Þetta var mjög gaman og var að sjálfsögðu myndað í bak og fyrir. Þær myndir er að finna í albúminu ,,Afmæli ömmu Jónu" svo setti ég nokkrar myndir í albúmið ,,7. mánuðurinn".

Jæja þá kemur ein skemmtilega saga af skodajeppanum okkar:
Við föttuðum að eitthvað væri að þegar við héldum að eldgos væri í nánd því það var svo svakaleg jöklalykt sem umlukti bílinn. Svo þegar að bíllinn tók upp á því að senda reykmerki úr húddinu þá ákváðum við að fara með gimsteininn á verkstæði. Hann var lagður inn og látinn liggja í tæpa viku (lengur en fólk fær að liggja inni eftir hjartaaðgerðir nú til dags). Þegar Hjalti fór svo að sækja djásnið fylgdi með listi yfir hvað amaði að. Lsitinn var mjög langur og þegar komið var neðst á blaðið stóð ,,snú" og þegar blaðinu var snúið við var þar enn lengri listi og efst stóð ,,Sagan endalausa, kafli 2". Heddpakkningunni var skipt út, svo var skipt um vatnslásinn (það höfum við bara gert 2x áður). Vatnsdælan var tekin úr og lagfærð, svo fannst aðskotahlutur í vatnskassanum, partur úr gömlum vatnslás (hvernig komst hann þangað spyrjum við bara). Spennustillir í alternatornum var víst ónýtur og hafði tekist að steikja rafgeyminn, en við keyptum akkúrat nýjan rafgeymi fyrir tveimur mánuðum. Þar að auki var skipt um allskonar síur og smáhluti. Að lokum stóð svo ,,vinnustundir = gjaldþrot". Við áttum svo bara að keyra bílinn í nokkra daga og sjá hvort allt væri komið í lag áður en við borgum aleiguna. Þessi elska gengur nú eins og klukka fyrir utan að það er dálítið erfitt að koma honum í gang og spurning hvort að kertin séu ekki bara ónýt.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Loksins loksins.

Tölvan okkar er loksins komin í lag, við höfum ekki bloggað síðan á síðasta ári vegna gríðarlegrar vírussýkingar. En Torfi frændi hans Hjalta kom og sjúkdómsgreindi hana og Garðar mágur minn kom og gerði við hana. Við erum í sæluvímu núna og þökkum þeim kærlega fyrir.

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Það hefur sko heilmargt gerst síðan á síðasta ári. Áramótin hjá okkur voru voðalega góð, haldin í Fannafold með mömmu, pabba, Eirnýju, Garðari og Kötlu. Jökull fór út að horfa á sprengjurnar og var alveg furðu lostinn en ekkert hræddur.

Þann 2. janúar byrjaði ég að vinna en Jökull byrjaði hjá Kristjönu (dagmömmunni). Þetta reyndist ekkert erfitt, hvorki fyrir Jökul eða okkur foreldrana. Fyrstu tvo dagana var Jökull (eða kannski frekar foreldrarnir) í aðlögun. Svo byrjaði hann bara á þriðja degi að vera frá átta til þrjú. Honum finnst þetta rosa gaman og við kveðjum hann alltaf með bros á vör og sækjum hann jafn glaðan og góðan. Við sáum strax þvílíkan mun á honum þegar hann sá alla krakkana leika sér og hreyfa sig. Hann sá að hann yrði bara að læra að sitja og skríða sem fyrst. Hann getur núna setið óstuddur en er nú samt alltaf með púða fyrir aftan sig til öryggis. Hann reynir svo bara að velta sér á hliðina og mjaka sér áfram þegar hann vill skríða. Kristjana greyið fékk það hlutverk að venja Jökul við að borða og drekka úr stútkönnu. Hann var ekkert til í að læra á þessa stútkönnu hjá mömmu sinni sem hafði þessi fínu brjóst framan á sér yfirfull af mjólk. En það virðist nú vera allt að koma. Honum finnst hinsvegar grautur mjööög vondur. Hann bara lokar munninum, stingur tungunni út og slær á skeiðina. Það sama á við ef hann fær grænmeti eða kjöt og hrísgrjón. En ávaxtamaukið finnst honum algjört æði og galopnar munninn og gólar á meira ef skeiðin kemur ekki nógu fljótt.

Við erum að reyna að koma svefninum hjá Jökli í einhverja rútínu og þetta virðist nú allt vera á réttri leið. Við höfum reynt að halda honum vakandi frá þrjú og leggja hann klukkan átta, en þá vaknar hann bara um tvö alveg úthvíldur og fer bara að hjala og leika sér. Núna leggjum við hann því um tíu leytið en þá vaknar hann oft einum eða tveimur tímum síðar og grenjar á okkur. En við tökum hann aldrei aftur upp úr rúminu, kíkjum bara á hann við og við til að sýna honum að við séum þarna ennþá. Hann er svo alveg hættur að drekka á nóttunni. Jökull varð svo hálf lasinn um helgina, fékk hita í fyrsta skiptið á ævinni. En það var nú ekkert alvarlegt og gekk yfir á einni nóttu.

Ég byrjaði að vinna 50% vinnu og þarf þá bara að vinna 4 klukkutíma á dag. En ég ætla að fara í 80% vinnu næsta mánudag og vinn þá frá hálf níu til hálf þrjú. Það var mjög gaman að byrja að vinna aftur og enn skemmtilegra þegar við erum með svona góða dagmömmu og maður er ekkert stressaður og getur einbeitt sér að fullu að vinnunni. Hjalti byrjaði í skólanum á mánudaginn og sér fram á að hafa nóg að gera þessa önnina enda stefnir hann á að taka 20 einingar.

Annars er Jökull bara á fullu við að læra ný hljóð. Á tímabili hljómaði eins og hann segði "ég get ekki, ég get ekki" eða "ég get ég get" mjög hratt, en hann virðist hafa gleymt því. Við erum með hann í stífri þjálfun í að segja "datt" og það fer að "detta" inn, það er ég viss um. Svo er það fyndnasta sem hann veit þessa dagana myndabók á þýsku. Hann skellir upp úr í hvert sinn sem við lesum fyrir hann "lastwagen" og "bleistift" og fleiri góð orð upp úr bókinni. Þetta hættir bara ekki að vera fyndið.

Við reynum að setja inn nýjar myndir sem fyrst.