Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, desember 28, 2005

Jæja þá erum við nánast búin að borða á okkur gat, en þannig er það nú alltaf um jólin. Við höfum aldeilis haft það gott fjölskyldan þessi fyrstu jól okkar. Við byrjuðum á því að fara í skötuboð í Fannafoldina á Þorláksmessu. Um kvöldið lögðum við svo lokahönd á að þrífa íbúðina. Ef Jökull hefði verið eldri þá hefðum við haldið að hann hefði verið spenntur fyrir jólunum því hann átti mjög erfitt með svefn. Hann vaknaði um tólf og var vakandi til hálf þrjú, úff. Það var svo frekar erfitt að vekja hann klukkan hálf tólf á aðfangadag. Við erum núna að reyna að vekja hann fyrr á morgnanna til að hagræða svefninum eitthvað.

Á aðfangadag fórum við í Langholtskirkju klukkan sex og svo í Fiskakvísl. Þar vorum við, Halldór, Dísa, Daði, Hrafnhildur, Maggi og Ísak. Þar var boðið upp á rjúpur og hamborgarhrygg og ís og ávexti í eftirrétt. Strákarnir stóðu sig nú bara vel um kvöldið. Jökull var rosa glaður og ánægður og fylgdist grannt með því þegar pakkarnir voru teknir upp og þess á milli japplaði hann á bindinu hans Halldórs. Ísak fékk pínu í magann til að byrja með en var annars bara vær og góður. Pakkaflóðið var gífurlegt og við þurftum að hafa okkur öll við að ná að opna alla pakkana fyrir klukkan ellefu, því þá þurfti Maggi að fara að spila í miðnæturmessu. Við fengum að sjálfsögðu öll fullt af góðum gjöfum og þurftum barasta að endurskipuleggja hérna heima til að koma öllu fyrir. Jökull lagði sig í um hálftíma um kvöldið og sofnaði svo klukkan hálftvö þegar við vorum komin heim og svaf til hálf tólf. Á jóladag fórum við svo í morgunmat/hádegismat í Fiskakvísl og svo í hangikjöt og uppstúf í Fannafoldina. Á annan í jólum var amma mín svo með jólaboð í Fannafoldinni og bauð að sjálfsögðu upp á hangikjöt og uppstúf. Þriðja í jólum fórum við svo í afganga hjá Eirnýju og Gæja í hádeginu og þar var að sjálfsögðu hangikjöt og uppstúfur. Þaðan fórum við svo í Fannafoldina og þar átum við enn meiri afganga sem voru náttúrulega hangikjöt og uppstúfur. Þannig að við erum komin með hangikjöts-og-uppstúfs-eitrun. Liggjum afvelta upp í sófa og stynjum, enda erum við bara í jólafríi og njótum lífsins. Við verðum svo með mömmu, pabba, Eirnýju, Garðari og Kötlu á gamlárskvöld og borðum á okkur enn stærra gat.

fimmtudagur, desember 22, 2005


Ísak er yndislegur. Hrafnhildur, Maggi og Ísak mættu dauðþreytt í fiskisúpuna í gærkvöldi. Ferðin gekk víst voðalega vel fyrir sig en þau voru bara orðin voðalega þreytt. Systir hans Magga kom líka með sinn tveggja mánaða strák, hann Ragnar Stein og allt í einu var Jökull orðinn risi. Við Hjalti þorðum ekki að halda á Ísaki fyrr en í dag þegar allt var aðeins rólegra.

Jæja við erum búin að fá fleiri jólakort í dag, hjúkk! Já Bryndís og Guðrún hér opnum við sko jólakortin um leið og við fáum þau. Hjalti er nú ekki vanur því heiman frá sér en ég er vön því, þá sjáið þið hvort okkar er frekara. Mér finnst svo gaman að opna þau og skreyta með þeim.

Við erum núna komin í þann gírinn að vilja láta Jökul hætta að drekka á nóttunni. Ég og Hjalti skiptum því um pláss í rúminu. Jökull drakk klukkan hálf tólf og sofnaði klukkan tólf. Um fjögur leytið reyndi hann að vakna til að drekka en fékk bara snuð frá Hjalta. Ég lá á meðan alveg grafkyrr og reyndi að hafa brjóstin vel pökkuð inn í sængina svo að það væri ekki möguleiki að hann myndi finna einhverja sæta mjólkurlykt í loftinu. Það virkaði og Jökull svaf til sjö og drakk þá og svaf svo áfram til tíu. Vonandi verður þetta líka málið í nótt og næstu nætur.

Karen og Daníel Máni komu til okkar í dag og fengu einu smákökusortina sem við bökuðum (ótrúleg stolt). Jökull var ekki lengi að klípa Daníel Mána og græta hann. Greyið er svo spenntur fyrir þessum vini sínum og vill bara vera góður við hann, honum tekst það bara ekki betur en þetta. Við fórum svo í svakalega tvítugsafmælisveislu hjá Ernu Sif, frænku hans Hjalta. Þar var rosalegur kjúklingaréttur og ekki síðri kaka í eftirrétt. Við förum svo í skötu til mömmu og pabba í hádeginu á morgun. Það verður gaman að sjá hvort ég borði skötuna í ár. Ég var nefnilega með svo brenglaða bragðlauka í fyrra þegar ég var ólétt og fannst þá skatan ótrúlega góð og borðaði fullt af henni. Ég ældi svo eins og múkki daginn eftir.

Fullt af nýjum myndum í 6. mánuðnum.

miðvikudagur, desember 21, 2005

DAGURINN SEM ÍSAK KEMUR HEIM

Maggi, Hrafnhildur og Ísak eiga að lenda í dag klukkan hálf fjögur og spenningurinn er í hámarki. Við ætlum að bíða heima og hræra í fiskisúpunni á meðan Halldór og Dísa fara að sækja þau.

Hjalti er kominn í jólafrí og við fórum því öll fjölskyldan saman í 6 mánaða skoðun. Þar kom Jökull bara mjög vel út. Hann er orðinn 8,3 kg og er 71,5 cm og höfuðmálið 44 cm. Sem sagt allt bara eins og það á að vera.

Svefnrútínan hjá Jökli er ennþá í unglingafasanum. Hann fer núna að sofa um hálf ellefu og hefur seinustu morgna sofið til hálf tólf, ekkert til að kvarta yfir finnst okkur. Hjúkkan okkar sagði að við ættum bara að njóta þess yfir jólin að sofa út. Nýjasta nýtt er að segja mamamama og babababa og svo náttúrulega ava-amma. Við höldum því að sjálfsögðu fram að þetta sé mjög meðvitað en ekki bara einhver hljóð sem hann sé búinn að læra.

Við erum búin að öllu fyrir jólin, skrifuðum yfir 50 jólakort og erum búin að fá sirka 5. Gaman að því við viljum þakka þessum fimm kærlega fyrir og sendum ykkur hinum sko ekkert um næstu jól.

fimmtudagur, desember 15, 2005

SVEFNVENJUR

Jökull er orðinn unglingur. Hann vakir frameftir og sefur svo út. Hann hefur verið í því seinustu kvöld að sofna um níu leytið, vakna svo aftur um tíu og vaka þá til eitt. Svo hefur hann sofið til ellefu á morgnanna þangað til ég fæ nóg og enda á því að vekja hann. En í gær ákváðum við að reyna að hagræðu þessu eitthvað aðeins. Hann fékk því að sofa til ellefu eins og vanalega og svo fékk hann bara rétt að hvíla augun á meðan við vorum í Smáralindinni með Freyju og Ragnheiði Völu. Svo þegar hann var sem þreyttastur um kvöldið þá fékk hann, greyið, ekki að fara að sofa. En þessar pyntingar báru árangur. Hann drakk klukkan hálf ellefu og sofnaði ellefu, svaf alveg til sex, drakk og svaf svo áfram til tíu. Svo sjáum við bara hvernig hann verður í dag, við ætlum í Kringluna með mömmu eftir hádegi og ég ætla að reyna að halda honum vakandi þangað til.

Aumingja langamma Jóna er komin suður til þess að fara í hjartaþræðingu. Við fórum því með Dísu og Halldóri í gær að heimsækja hana á spítalann. Þar var að sjálfsögðu fullt af fólki og Jóna var hin hressasta.

Jökull er voða duglegur í setþjálfuninni, hann getur setið einn og óstuddur í nokkrar sekúndur í senn. Hann er líka nánast hættur að sofna á brjóstinu. Hann er kominn með uppáhalds tuskudýr sem er blá og hvít röndótt kanína og hann getur bara legið endalaust lengi og knúsað hana og skoðað þar til hann á endanum svæfir sjálfan sig. En kanínuna vill hann helst bara leika með þegar hann er þreyttur. Þegar hann er í góðu stuði þá finnst honum leikfangasíminn sinn alveg frábær. Það er nefnilega einhverskonar spotti á honum sem er svo voða gott að sjúga. Honum finnst líka týndur-bö leikurinn voðalega fyndinn og getur falið sig sjálfur á bakvið taubleiu.

Við fórum svo í sund á laugardaginn var með Einari, Karen og Daníel Mána. Við vildum fara öll saman svona í fyrsta skiptið til þess að átta okkur á því hvernig aðstaðan er í laugunum. Við fórum í Grafarvogslaugina sem var reyndar aðeins of köld. Ég var reyndar bara á bakkanum þar sem að ég hélt að ég væri komin með ofnæmi fyrir klór. En það reyndist sem betur fer ekki vera svo alvarlegt. Þannig að ég verð sko með ofaní næst.

Nú styttist óðum í það að við fáum að sjá hann litla yndislega Ísak okkar. Maggi er að pakka á fullu og þau koma svo til landsins á miðvikudaginn. Við verðum svo öll saman í Fiskakvísl á aðfangadagskvöld.

föstudagur, desember 09, 2005

Perumaukið blívar

Ég hef mikið verið að spá í því hvernig ég eigi að fá Jökul til að borða graut þar sem hann fer bráðum til dagmömmu og þarf þá að vilja eitthvað annað en brjóstamjólk. Daníel Mána finnst voða gott að fá graut með þurrmjólk og stöppuðum banana útí. Við reyndum því að gefa Jökli að smakka það, en hann kúgaðist af því líka. Þá prófuðum við að gefa honum bara perumauk og honum fannst það algjört æði. Þá loks prófuðum við perumaukið útí grautinn í gærkvöldi og honum fannst það voðalega gott. Þá vitum við það að hann er eins og mamma sín, vill bara hafa matinn nógu sætan.

Við fórum í heimsókn í Fannafold í gær því pabbi átti afmæli. Þar fengum við ógeðslega góðan hráan steinbít í sítrónusafa og að sjálfsögðu afmælisköku. Eirný, Katla og Tómas komu líka. En Tómas er nú eitthvað orðinn þreyttur greyið á því að vera svona lengi í pössun (2 vikur). Hann er reyndar voðalega ljúfur og góður og þetta gengur alveg ótrúlega vel og hann er alls ekkert að væla yfir foreldraleysinu. En maður bara sér það á honum að það verður gott fyrir hann að fá mömmu sína á mánudaginn.

Seinustu þrjú kvöld hafa verið dálítið skrýtin. Jökull hefur nefnilega verið alveg hreint ótrúlega æstur. Hann byrjar kvöldið bara eins og áður og svo þegar hann er orðinn frekar þreyttur þá gef ég honum í þeirri von að það sé síðasta gjöf fyrir svefninn. Þá er klukkan kannski tíu, en um leið og hann er búinn að drekka þá fer minn í stuð. Hann byrjar að babla mjög hávært, hann er ekki óánægður bara rosalega æstur. Við setjum hann þá upp í rúm á milli okkar og þar liggur hann og spriklar og hrópar í svona tvo tíma. Hann róast nú samt örlítið ef við tökum hann í fangið. Svo dettur hann út á milli tólf og hálf eitt. Þetta er mjög skondið og við sjáum ekki hvað þetta getur verið. Þetta hefur bæði verið þegar hann hefur vaknað snemma um morguninn og þegar hann hefur vaknað seint. Eins svaf hann úti einn daginn en inni hinn. Einn daginn svaf hann mikið um daginn og einn daginn svaf hann lítið. En þetta hættir sjálfsagt jafn snögglega og þetta byrjaði.

Hjalti er búinn að skila öllum sínum ritgerðum í háskólanum af sér en er þá að fara yfir trilljón enskuritgerðir hjá níunda og tíunda bekk. En hann ætlar að líta upp úr ritgerðunum á eftir og við ætlum að kaupa eins og tvær jólagjafir. Svo ætlum við í heimsókn í Fiskakvísl og kíkjum á Idolið þar.

sunnudagur, desember 04, 2005

Húsafell og Ísak

Á föstudaginn fórum við í sumarbústað í Húsafelli. Við vorum sko ekki ein á ferð því við fórum með fullt, fullt af krökkum. Við fórum með Eirnýju, Gæja og Kötlu ásamt Viktoríu, Klöru og Tómasi sem eru börn systur Gæja. Þetta var rosalega gaman, við fórum í heita pottinn, spiluðum, fórum í göngutúr, bökuðum piparkökur, borðuðum góðan mat og fullt, fullt af nammi. Jökull var mjög sáttur í sveitinni og þá aðallega ánægður með alla athygglina sem hann fékk. Á sunnudagsmorguninn vöknuðum við svo við það að Katla hljóp á klósettið til að æla. Við héldum lengi í vonina um að hún hefði bara borðað of mikið af nammi en það reyndist ekki vera raunin þegar hún hélt áfram að æla út daginn. Tómas fékk líka eitthvað í magann en við reiknum bara með að það hafi verið nammiátið. Enginn annar hefur ælt eða er illt í maganum þannig að við vonum að við séum sloppin.

Ísak finnst okkur vera mjög fallegt nafn. Því þótti okkur það ekki verra þegar Hrafnhildur og Maggi hringdu í okkur og tilkynntu að sonur þeirra hefði hlotið nafnið Ísak. Þeir verða sko einhverntíman flottir saman þeir Jökull og Ísak.

Á föstudaginn tókst okkur loksins að fara og heimsækja litla fallega Nóa Pétur. Við erum nú búin að vera lengi á leiðinni til hans en þar sem við vorum öll svo kvefuð og vildum ekki smita svona lítinn strák þá biðum við með það. En hann var náttúrulega jafnvel flottari í raunveruleikanum en á myndum.

Ég og Jökull kíktum í heimsókn í Stoð á fimmtudaginn. Bara smá sýningarferð og rétt til að fá nasaþefinn af vinnandi fólki. Sá þefur var alls ekkert svo slæmur og það leggst bara ágætlega í mig að fara að vinna 2. janúar.

Nýjar myndir komnar inn.