Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

KLUKKAÐUR

Jökull var víst klukkaður af Daníel Mána. Fyrir þá sem ekki vita hvað það þýðir þá á ég að lista upp 5 atriði um piltinn.

1. Hann lét móður sína hafa mikið fyrir sér á meðgöngunni og þar með þurfti faðir hans að ganga í gegnum ýmislegt. En hann launaði okkur svo með því að gráta ekki fyrstu tvo mánuðina, fá ekkert í magann og vera bara alltaf eins og hugur manns.

2. Hann er mikill rútínu maður og vill hafa allt eins og það var í gær. Hann getur til dæmis varla sofið á daginn ef hann fær ekki að fara í vagninn sinn.

3. Hann lætur ekki bjóða sér hvað sem er og vill ekki sjá graut sem ekki inniheldur brjóstamjólk. Frussar bara og kúgast og spýtir honum út úr sér svo það fari nú ekki á milli mála hvað honum finnst.

4. Hann er selskapssjúkur. Hann vill helst vera í fanginu á okkur og finnst fúlt ef hann er skilinn eftir niðri á gólfi.

5. Hann er mjög hávær. Hann getur öskrað hástöfum bara svona í staðinn fyrir að hjala, ekkert óánægður, bara að tjá sig. Svo reynir hann að fanga athyggli manns með því að hósta þurrum hósta.

Það er barasta búið að klukka flest alla í kringum okkur og við getum ekkert annað gert en að vonast til að þeir Nói Pétur og Kolbeinn Hrafn hafi ekki enn verið klukkaðir. Þá eru þeir klukkaðir hér með.

Jökull er annars úti í vagni annan daginn í röð og er búinn að sofa í um þrjá tíma. Hann fór ekkert út í heila viku og svaf þá voðalega slitrótt á daginn. Klukkutíma hér og hálftíma þar. En um leið og hann fór aftur í vagninn þá steinsvaf hann alveg hreint. Ég held að það sé vegna þess að hann er svo dúðaður hjá mér að hann hreinlega getur sig hvergi hreift og þá er bara eins gott að sofa. En þegar hann svaf svona lítið á daginn þá svaf hann alltaf í tíu til tólf tíma á nóttunni og rétt rumskaði tvisvar til að drekka. En í nótt varð strax breyting á, hann sofnaði hálf tíu og vaknaði klukkan tvö og svo aftur klukkan sjö og vildi þá vaka í klukkutíma og svaf svo til tíu. Það er ekki bæði sleppt og haldið en þetta er alls ekki slæm rútína svo ég kvarta nú ekkert.

Ég er annars eiginlega komin með hnút í magann því það er farið að líða að því að ég fari að vinna. Við erum komin með frábæra dagmömmu svo ég kvíði því ekki að setja hann frá mér og ég hlakka bara til að byrja að vinna. En það sem er að fara með mig er að ég veit ekki hvernig ég á að undirbúa okkur undir þetta svona brjóstamjólkurlega séð. Málið er að hann verður að venja sig á að fá eitthvað annað en brjóstamjólk á meðan hann er hjá dagmömmunni. En þetta verður að gerast eitthvað hægt og rólega og ég bara veit ekki hvernig, svei mér þá. Þegar hann fer til dagmömmunnar þá verður hann sex mánaða og má borða nánast hvað sem er. En þangað til ætti hann helst bara að fá brjóstamjólk ef það er mögulegt og ég mjólka bar mjög vel og finnst synd að venja hann af brjóstinu og yfir á pela eða eitthvað. Hvernig gerðuð þið þetta margrabarnamömmurnar Guðrún Elísabet og Bryndís?

Við töluðum við nýbökuðu móðurina í gær. Hún var að sjálfsögðu í sjöunda himni yfir þessum fallega dreng. En hún lenti samt í því að fara illa í grindinni rétt eftir fæðinguna og er frekar kvalin út af því. En hún staulast nú um spítalann með göngugrind og verkjalyf, greyið. Maggi sendi okkur videó af drengnum og hann var algjört æði, opnaði meira að segja örlítið augun.

mánudagur, nóvember 28, 2005


Elsku Hrafnhildur og Maggi. Hjartanlega til hamingju með drenginn.

Já Jökull er sko stoltur frændi, Hjalti er stoltur móðurbróðir og ég er bara einfaldlega stolt. Þessi ótrúlega fallegi piltur reyndist vera 3510 gr (14 merkur) og 50 cm. Þeim líður víst bara öllum mjög vel enda er ekki annað hægt þegar svona fallegur drengur kemur í heiminn. Þar sem að drengurinn ákvað að vera ekkert að láta bíða eftir sér þá eru allar líkur á því að fjölskyldan muni koma heim fyrir jól. Við erum að sjálfsögðu himinlifandi yfir því og hlökkum til að hitta þau. Þau munu vera á spítalanum í nokkra daga. En þegar þau koma heim munum við getað séð hann í gegnum web-cameruna sem við vorum svo klók að gefa Hrafnhildi í afmælisgjöf.

Við vorum hinsvegar að koma úr ungbarnasundi þar sem að Jökull var rosa kúl með sundhettuna. Við vorum reyndar svo miklir klaufar að við urðum að fá aðstoð sundkennarans við ásetningu hennar. Jökull fór á bólakaf ofan í vatnið alveg þrisvar sinnum og líkaði það bara ljómandi vel. Aumingja Karen missti af því þegar Daníel Máni hennar fór á kaf í fyrsta skipti því hún var í prófi. En hún sér hann bara næst.

Spennan í hámarki

Við erum alveg að drepast úr spenningi. Í gærkvöldi fengum við sms frá Hrafnhildi og Magga þar sem þau sögðu að hríðirnar væru byrjaðar. Nokkrum tímum seinna hringdum við í heimasímann í þeirri von að þau myndu ekki svara því þau væru farin upp á spítala. En þau svöruðu og sögðu að hríðirnar væru mjög óreglulegar. Við gátum ekki gefið nein góð ráð eða sagt hvort að það væri eðlilegt því við könnumst ekki við það að vera með hríðir. Ég vaknaði náttúrulega bara með stöðugar hríðir og fór bara beint í fæðingu. Síðan höfum við ekkert frétt. Ég skipaði Hjalta að vera með símann á sér inni í kennslustofunni í dag og að hann ætti að hringja í mig um leið og hann frétti eitthvað. Svo sit ég bara hér og bíð. Vonandi þarf ég ekki að bíða í marga daga. Ég gleymi því nefninlega ekki þegar systir mín fékk hríðir sem stóðu yfir í þrjá daga. Hún gekk bara í hringi á meðan ég sorteraði barnaföt.

Jökull er annars hundkvefaður ennþá greyið litla. Hóstar og er með hor. Við höfum því ekkert viljað setja hann út í vagn yfir daginn. Hann sefur mun styttri lúra svona inni og hefur því sofið lítið seinustu daga og það er sko ekkert sem heitir rútína. En lítill svefn um daginn þýðir bara meiri svefn á nóttunni. Hann hefur verið að fara að sofa svona um ellefu og sefur til níu, rétt rumskar einu sinni til að drekka. Aðfaranótt laugardagsins sló hann nú öll met. Hann sofnaði klukkan ellefu og drakk klukkan fimm drakk svo aftur klukkan níu og svaf til hálf ellefu. Hjalti hreinlega gafst upp klukkan hálf tíu og fór fram að lesa blaðið. Ég er hinsvegar í aðeins betri þjálfun og svaf til tíu. Við ætlum nú að skella okkur í ungbarnasundið þrátt fyrir kvefið, erum búin að kaupa sundhettu á piltinn. Veit nú ekki hvort að það geri eitthvað gagn en það gerir örugglega ekki ógagn.

Þá var Halldór að hringja. Það kom stákur núna fyrir tæpum klukkutíma. Frábært, ég var svo glöð að ég gleymdi alveg að spyrja heilan helling. En Hjalti hringir örugglega í þau seinna í dag. Við skrifum þá kannski bara meira í kvöld.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

UNGBARNASUND

Við fórum í okkar annan tíma í ungbarnasundi á mánudaginn. Mamma, pabbi og Katla komu að fylgjast með og þau tóku með sér myndavélar. Þau tóku ekkert svo margar myndir, bara 116. Ég setti nokkrar af þeim í sér ungbarnasundsmöppu. Í þessum tíma var mest verið að blása framan í þau og hella á þau vatni, svo í næsta tíma eiga þau að fara í kaf. Þá er nú eins gott að mamma mín verði fjarri góðu gamni. Hún tók nefninlega nokkrum sinnum andköf þegar hún var að horfa á.

Annars er Jökull búinn að vera frekar kvefaður upp á síðkastið, stíflaður í nefinu og hóstandi.Ég pantaði því tíma hjá lækni um leið og við fórum í 5 mánaðaskoðun (hann varð 5 mánaða í gær). Tíminn hjá lækninum var klukkan hálf tíu og það þykir okkur Jökli heldur snemmt því við vöknum vanalega ekki fyrr en hálf tíu. En okkur tókst að vakna við vekjaraklukkuna en stilltum hana á korter í níu sem var kannski aðeins of seint. Þá settum við bara allt í gang. Drifum okkur í fötin, Jökull drakk og ég skellti í mig jógúrt. Svo þegar við komum út þá sá ég mér til mikils hryllings að það þurfti að skafa. En mér fannst það nú lítið mál þegar ég uppgötvaði að ég gat ekki opnað bílinn með lyklinum. En eftir að ég var búin að hamast í smá stund þá tókst þetta. Þegar ég svo loksins lagði af stað þá sá ég ekkert út um framrúðuna fyrir móðu, en ég setti bara miðstöðina á fullt og keyrði fyrstu metrana á 20 km hraða og þá rétt mörðum við það að mæta á réttum tíma. Læknirinn hlustaði Jökul og kíkti í eyrun og gat fullvissað mig um að þar væri ekkert óeðlilegt í gangi. Í 5 mánaðaskoðuninni kom hann bara vel út, sýndi á sér sínar bestu hliðar, brosti framan í hjúkkuna, hló og spjallaði allan tíman. Hann mældist 7,9 kg og 70,5 cm langur. Það þýðir að hann er alveg að halda sinni þyngdarkúrfu en tók stökk upp á við í lengdarkúrfunni. Svo var hann sprautaður en tók barasta ekkert eftir því, hann var of upptekinn við að naga eitthvað dót. Við hittum svo Hildi Rakel sem er í verknámi í hjúkruninni og er um þessar mundir á heilsugæslunni.

Við Jökull fórum að hitta vinkonur mínar á þriðjudaginn var. Þar tilkynnti Bára okkur að hún er ólétt og á að eiga í lok maí. Gaman að þessu þá verðum við fjórar vinkonurnar sem eigum barn á einu ári, ég, Sigrún, Guðbjörg og Bára. Annars bíðum við öll með öndina í hálsinum eftir því að litla frænkan eða frændinn í Svíþjóð fæðist. Hrafnhildur systir hans Hjalta er sett í byrjun desember en við erum að vona að það komi fyrr en síðar svo þau sjái sér fært að koma heim fyrir jól.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Engar rútínur. Jes við erum þvílíkt kærulaus og fylgjum bara engum rútínum þessa dagana. Jökull sofnar bara á kvöldin þegar honum hentar (allt frá 21-24) og vaknar þegar hann vill. Á daginn eru heldur engar fastar rútínur en hann sefur nú vanalega í sirka 3 tíma eftir hádegi. Með þessu móti gengur lífið mjög vel fyrir sig, Jökull er alltaf sæll og glaður og við foreldrarnir sofum vel á nóttunni.

Við erum öll þrjú búin að fá skemmtilegt kvef. Fyrst fékk Hjalti kvef sem stóð yfir í tvo sólarhringa. Svo talaði ég svo mikið um það að ég fengi aldrei kvef og hvað Hjalti væri mikil hornös að ég fékk að sjálfsögðu heilmikið kvef og hefur það nú staðið yfir í viku. Að lokum fékk svo Jökull að sjálfsögðu kvefið og hefur verið hóstandi seinustu tvo daga. Hann stendur vanalega vel undir nafni og er sí kalt. En seinustu tvo daga hefur hann verið óvenju heitur og þegar við höfum mælt hann þá hefur hann verið alveg heilar 36,9°, sem er alveg heilli gráðu meira en venjulega.

Nýjasta nýtt hjá Jökli er að frussa eins og hann fái borgað fyrir það. Mjög skemmtilegt þegar hann tekur upp á því með munninn fullan af graut! Hann er líka sífellt að fínpússa öskrin sín og tekur stundum "þrennuna," frussar, öskrar og rekur svo við. Þessu fylgir svo hláturskast í kaupbæti.

Við höfum tekið því rólega um helgina. Fórum með Kötlu á skíðaæfingu á laugardaginn þar sem foreldrar hennar eru á Kúbu, buðum okkur í mat í Fannafoldina um kvöldið og svo í Fiskakvísl í kvöld. Þessir uppáhalds veitingastaðir okkar brugðust ekki frekar en fyrri daginn. Setjum inn nýjar myndir í fimmta mánuðinn.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Við héldum að það yrði auðvelt að stýra honum Jökli inn á rétta rútínu en það var nú aldeilis ekki svo. Við erum búin að vera að reyna að fá hann til að sofna svona um 8-9 á kvöldin sem hann og gerir, nema hann vaknar aftur eftir svona korter og er þá sprækur og til í að vera vakandi til miðnættis. Við höfum reynt að þreyta hann þvílíkt á daginn, stytt lúrinn hans í vagninum, vakið hann fyrr á morgnana og hvaðeina, en hann lætur bara ekki að stjórn drengurinn. Ekki það að hann sé eitthvað erfiður, hann er bara glaður og hress og þess vegna vill hann ekki fara að sofa. Því höfum við ákveðið að vera ekkert að æsa okkur neitt í neinum rútínum og bara spila þetta eftir eyranu.

Annars lagðist húsbóndinn (Hjalti) í kvef um helgina og var eins og útspýtt hundsskinn á laugardaginn. Húsmóðirin hlustaði þó ekki á neitt væl og dreif hann í smáralindina að versla nokkrar jólagjafir á meðan amma Dísa passaði Jökul. Hann svaf reyndar allan tímann úti í vagni. Við fórum svo í Fannafoldina og amma Jóna gaf okkur að borða. Dýrindis mat að sögn Völu, ég því miður fann ekkert bragð.

Sem betur fór hafði ég endurheimt bragðskynið á sunnudaginn því þá var haldið upp á afmælið hans Gæja. Eirný kom til okkar um daginn og þær systur bökuðu 60 pönnukökur á þremur pönnum á skotstundu. Geri aðrið betur. Við fórum síðan í afmælið kl. 8 og Jökull lagði sig bara í bílstólnum á leiðinni. Hann var svo í hinu mesta stuði í afmælinu, hló og skríkti og hafið hátt.
Hann sofnaði svo ekki fyrr en hálf tólf, drakk kl. hálf fimm og svaf til átta. Þá ákvað Vala að það væri kominn dagur og þau fóru á fætur en héldu reyndar ekki út nema til kl. 9, steinrotuðust þá bæði til kl. 11! Þá þurfti Vala að hafa mikið fyrir því að vekja Jökul sem vakti til hálf eitt og svaf þá út í vagni til hálf fjögur. Alveg búinn á því eftir öll þessi læti í sjálfum sér frá því kvöldið áður.

Við fórum svo í fyrsta ungbarnasundstímann í dag. Það var alveg ótrúlega gaman, Jökull kunni bara vel við sig í vatninu. Einar og Karen voru þarna líka með Daníel Mána og fyrir utan þau þá tókum við nánast ekkert eftir hinum börnunum. Við vorum svo rosalega upptekin af því að missa ekki af neinu hjá Jökli. Í byrjun tímans sátu allir á bakkanum á meðan kennarinn fór yfir nokkur atriði með okkur. Jökull greip tækifærið meðan hann var svona bleiulaus í fanginu á pabba sínum og pissaði á hann, tvisvar. Þar sem þetta var fyrsti tíminn þá var bara verið að kenna nokkur handtök og hvernig maður á að bera sig að. Við vorum bæði ofaní og tókum því engar myndir, en Katla ætlar að horfa á í næsta tíma og þá verða kannski teknar myndir. Amma Jóna kom færandi hendi rétt fyrir sundtímann með hlýjan snjógalla handa Jökli sem kom sér vel eftir sundið því það var svo kalt úti. Hann steinrotaðist svo um hálf níu í kvöld og hefur rembst við að vakna síðan, en ekkert gengur því hann er allt of þreyttur litla greyið. Hann á örugglega eftir að glaðvakna um leið og við sofnum.
Góða nótt.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Til hamingju Guðni og Ásdís, þau eignuðust lítinn strák í morgun þann 9. nóvember. Allt gekk þetta víst vel fyrir sig og strákurinn var 16 merkur og 53 cm. Við hlökkum mikið til að heilsa upp á þau bráðlega.

Hér í Vegghömrur gengur lífið bara vel fyrir sig. Við Hjalti rembumst nú við að koma Jökli í góða kvöldrútínu. Hann var með mjög góða rútínu en svo náði hann að sofna í hálftíma í bílnum einn daginn og þá fauk hún út um gluggan. En nú gengur þetta þannig fyrir sig að ég gef honum brjóst um hálf átta og svo klukkan átta fær hann graut og svo aftur brjóst og þá steinsofnar hann. Svo reynir hann nú eitthvað að vakna aftur stuttu síðar en við bara svæfum hann aftur. Þá sefur hann til svona eitt drekkur þá, sefur svo til ca. fimm og drekkur aftur og fær svo aftur að drekka um sjö og svo sofum við til svona níu-tíu. Við erum mjög sátt við þessa rútínu og erum sérstaklega ánægð með það að getað slappað aðeins af á kvöldin meðan hann sefur.

Við vorum með matarboð síðasta laugardag. Birgir, Sigga Dóra, Bjarki, Guðrún, Sólveig og Rikki (öll gamlir og núverandi starfsmenn í Reykjadal) komu í mat. Jökli fannst það ekkert sérstaklega leiðinlegt, öll athygglin sem hann fékk fór vel í hann. Hann sofnaði nú um átta en vaknaði stuttu seinna og vildi vera með í fjörinu. Svo um tíu var hann svo þreyttur að ég reyndi að svæfa hann. Ég lá við hliðiná honum og klessti andlitinu mínu alveg upp við hans og gaf honum snuð og strauk honum um ennið. Þessi aðferð klikkar nánast aldrei og Jökull virkilega reyndi að sofna, en ekkert gekk. Að lokum gafst hann bara upp og lá þarna og starði bara þögull út í loftið. Hann leit svo við og við á mig eins og til að segja ,,mamma því miður, þetta er bara ekki að ganga". Þá fórum við bara aftur fram í fjörið og Jökull var rosalega sáttur. Enda nenntu allir að leika við hann og þá sérstaklega Sólveig. jökull brosti og skríkti til hennar og reyndi af öllum mætti að sannfæra hana um að barneignir væru ekki svo klikkuð hugmynd. Gestirnir fóru svo klukkan tólf og það tók Hjalta alveg hálftíma að ná Jökli niður eftir allt þetta fjör. Hann var ekkert pirraður, hann var bara í svo miklu stuði. Svo á sunnudaginn átti Þyrí vinkona afmæli. Jökull var sofnaður áður en ég fór en hann vaknaði nú víst korteri seinna og ætlaðist til að það væri sama fjörið og daginn áður. Hann grenjaði þvílíkt á Hjalta sem að lokum tók hann upp og fór með hann fram. Þá steinþagnaði drengurinn og varð bara sáttur. Þá ákvað Hjalti að svona frekja gengi nú ekki og fór með hann aftur inn í rúm. Jökull grenjaði nú eitthvað meira í mótmælaskyni en gafst að lokum upp og sofnaði. Þetta kallast tough love og hefur meiri áhrif á föður en barn, miðað við hvað Hjalti var miður sín eftir þetta grenjukast.

Ég og Karen erum svo komnar á fullt í jólaföndrinu og gerðum alveg heil fjögur jólakort í gær. Unnur og Tómas eru á landinu í stuttan tíma og þau komu líka til Karenar. Tómas er náttúrulega miklu stærri en Jökull og Daníel og þeim finnst hann voðalega spennandi. Ég tók að sjálfsögðu myndir af þeim og í matarboðinu og setti þær inn.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Jólasveinninn snemma á ferðinni í ár!

Eirný var í viku-vinnuferð í New York og kom heim í gærmorgunn. Við gáfum henni smá sjéns á að leggja sig yfir daginn en tókst svo að lokka hana í Vegghamrana með pizzu. Hún tilkynnti okkur það að hún hefði nú keypt eitthvað smátterí fyrir Jökul úti, en það hefði nú ekki verið mjög mikið. Okkur leist nú ekki á blikuna þegar hún kom svo berandi og dragandi heilan helling af fötum (boli, síðermasamfellur, stuttermasamfellur, flísgalla, sokka, skyrtu...). Það var engu líkara en að jólasveinninn væri snemma í því í ár, sérstaklega þar sem að það var jólasveinagalli í pakkanum!!! Jökull kærði sig ekkert um þessi föt en var þeim mun glaðari að hitta Eirnýju aftur, þessa uppáhalds frænku sína sem hann er búinn að læra svo vel inn á. Hann þarf bara að öskra einu sinni hátt og snjallt og þá gengur hún með hann um gólf og kyssir hann og knúsar, ekki amalegt.

Hjalti fór svo í bað með Jökul og Katla fylgdist náið með öllum hreyfingum hans (Jökuls sko). Henni fannst alveg óþarfi að hafa Hjalta ofaní hjá honum og var mest hissa á því að við leyfðum henni ekki bara að fara ofaní og sjá um þetta. Jökull fékk svo grautinn sinn blandaðan út í brjóstamjólkina. Hann þyrfti helst að sjúga grautinn upp með röri, hann er ekkert hrifinn af seinaganginum með þetta skeiðavesen. Okkur tókst að plata Kötlu til að smakka grautinn um daginn. Hana klíjaði svo við honum að hún varð að drekka fullt af vatni á eftir. Enda engin furða, þetta bragðast eins og einhver hafi ælt upp í mann.

Eftir að Jökull byrjaði að fá graut á kvöldin hætti öll kúkaframleiðsla. Hann kúkaði ekkert í 9 sólarhringa og ég var farin að örvænta um þetta allt saman. Spurningar eins og ,,hvenær gerist þetta?" ,,hvar verðum við stödd?" ,,hver verður til að hjálpa mér?" o.s.frv. flugu í gegnum hugann. Hjalti var heima fyrir hádegi á fimmtudag og föstudag og allan laugardag og sunnudag. Kúkaði hann þá? ónei, að sjálfsögðu ekki. Hann kúkaði í gærmorgun þegar Hjalti var í vinnunni. Þetta var eitt af verri tilvikum sem ég hef lent í og kalla ég nú ekki allt ömmu mína (vann í Reykjadal í sex ár!). Það var kúkur upp á bak og upp á maga og niður á lærin framanverð og aftanverð og í öllum fötunum. ÚFF. Svo var Jökull með hendurnar út um allt og ég reyndi að kenna 4 mánaða gömlum syni mínum í flýti setninguna ,,NEI, það er bannað að sjúga puttana!". Það gekk ekki. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að hringja í svefndrukkna systur mína, nýlenta frá Ameríku og segja henni að koma og halda í hendurnar á honum (eða bara að halda í hendurnar á mér). En þetta hafðist nú allt að lokum og Jökull skemmti sér konunglega allan tímann.

Þegar drengurinn var orðinn svona léttur á sér þé gerði hann sér lítið fyrir og velti sér af bakinu yfir á magann. Honum hefur nú tekist það svona óvart nokkrum sinnum áður en þá hefur hann alltaf verið fastur með hendina undir sér, en nú tókst honum að losa hendina líka. Ég náði að taka nokkrar myndir af honum og mun setja þær inn í albúmið ,,5. mánuðurinn". Svo er bara að sjá hvort hann muni þetta til lengdar eða bara í nokkra daga.