Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, október 26, 2005

Þvílíkt og annað eins

Í gær ákváðum við Karen að hittast í hádeginu í dag. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar fer mjög stórt batterí í gang. Þetta er ekkert eins og áður fyrr þegar maður bara tannburstaði sig, greiddi sér, stökk í skóna og þeystist út. Ó nei, allt svona þarfnast mikillar skipulagningar. Maður þarf að gera bleyjutöskuna klára, er nóg af bleyjum? Hvað með undirlög? Er ég með einhverjar taubleyjur? Auka alklæðnað ef Jökull skildi kúka upp á bak, o.s.frv. Svo þarf að muna eftir útigallanum og fara með vagninn út í bíl, oft gott að gera það kvöldið áður svo að það gleymist ekki. Það er nefninlega mjög hvim leitt ef að ég þarf bæði að drösla vagninum, Jökli í barnabílstólnum og bleyjutöskunni út í bíl. En þegar ég var sem sagt búin að fara yfir þennan gátlista í gærkvöldi ákvað ég að það væri nú góð hugmynd að baka bananabrauð til að fara með. Þessi hugmynd var nú reyndar sprottin af óslökkvandi löngun minni í súkkulaði, en ég og Hjalti erum hér með komin i nammibindindi. Þetta reyndist vera mjög góð hugmynd. Það tók nefninlega svo langan tíma að baka brauðið að þegar það var loksins tilbúið var klukkan orðin svo margt að ég hafði mestan áhuga á því að fara að sofa, ekki að setjast að snæðingi. Í morgun hélt svo skipulagningin áfram. Planið var að leggja af stað um ellefuleytið og þá má Jökull ekki vera of svangur og alls ekki of þreyttur svo hann sofni ekki á leiðinni og rugli langa lúrnum. Klukkan kortér í ellefu leit allt saman mjög vel út, drengurinn ný búinn að drekka og í góðu stuði, ekkert of þreyttur. Ég pakkaði honum því í bílstólinn, tók bleyjutöskuna og bananabrauðið og fór út í bíl (Hjalti setti vagninn út í bíl í gærkvöldi, hjúkk). Það var ógeðslega kalt og miðstöðin var eitthvað lengi að hitna. Þegar við vorum svo komin að ljósunum þar sem maður beygir inn á Ártúnsbrekkuna þá, mér til mikils hryllings, drap bíllinn á sér og harðneitaði að fara aftur í gang, ohmægod!!! Við vorum föst á ljósunum, ógeðslega kalt og allir í bílunum sem komu á eftir okkur héldu að mér þætti þetta rosalega gaman og að ég væri bara að þessu svo að þau myndu mæta of seint í vinnuna eða hvert sem þau voru að fara. Það var sem sagt flautað þó nokkrum sinnum á mig og mér gefið illt auga. Það sem verra var að bíllinn var svo rafmagnslaus að hann gat ekki einu sinni blikkað viðvörunarljósunum. Ég hringdi strax í pabba sem var sem betur fer á skrifstofunni sinni (en ekki í miðri kennslustund) og hann kom að bjarga okkur. Á meðan við biðum eftir honum klæddi ég Jökul svona 37 sinnum í vettlinginn (honum tókst alltaf að fara aftur úr honum) og þess á milli reyndi ég að senda afsökunarsvipbrigði á bílana fyrir aftan mig. Þá virtist fólk skilja mig betur og sendi mér vorkunnarsvipbrigði tilbaka, en það var samt enginn sem bauðst til að hjálpa mér. Pabbi kom svo og gat gefið mér start. Hann keyrði svo á eftir okkur heim og hjálpaði mér inn með vagninn. Á meðan tókst Jökli að sofna, allur ískaldur greyið. En hann vaknaði þegar við komum heim og hann fékk bara fullt að drekka og ég vafði hann inn í sængina sína á meðan. Ég klæddi hann svo í tvennar samfellur, sokkabuxur, ullarsokka, ullarftottésokkabuxur, -peysu, húfu, vettlinga og flísgallan, setti hann svo í dúnpokann og flísteppi yfir og oní vagninn. Hann virtist alveg vera til í þetta og steinsefur núna úti í vagni, kannski örlítið kalt á kinnunum. Nú er planið að Karen og Daníel Máni komi bara í heimsókn til okkar á morgun eða hinn.

Annars er bara allt rosa gott af okkur að frétta. Jökull er búinn að læra að frussa og er nú eins og versti töffari sem skyrpir á gólfið allan liðlangan daginn. Svo tók hann upp á því fyrir svona mánuði síðan að sjúga á sér þumalputtan ef hann finnur ekki snuðið í svefnrofunum. Eins og ég held að það sé leiðinlegt þegar eldri börn sjúga fingurinn þá er þetta bara sætt hjá ungabörnum. Allavegana voru Hjalti og hans frændsystkini mjög leiðinleg við Guðrúnu Ernu þegar hún var lítil og saug puttan. Þau eltu hana á röndum og klöguðu hana svo ef þau sáu hana stinga puttanum upp í sig. Hún var farin að fela sig undir borði á tímabili til að geta sogið puttan óáreitt.

Annars borðar Jökull alltaf graut núna fyrir háttinn og finnst það ekki leiðinlegt. En kúkurinn stendur nú eitthvað á sér og þess vegna blöndum við smá malt extrakt út í brjóstamjólk og gefum honum með skeið. Honum finnst það svo rosalega gott að hann fer hreinlega að skæla þegar það er búið.

Það eru komnar nokkrar nýjar myndir í nýtt albúm, "5. mánuðurinn".

sunnudagur, október 23, 2005

4. mánaða piltur

Jökull er búinn að vera að breyta rútínunni upp á síðkastið. Hann tók upp á því eina nóttina að sofa alltaf í eina klukkustund og vaka svo næstu klukkustund. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þar sem að hann vaknar yfirleitt bara einu sinni á nóttu til að drekka. Við hringdum því í hjúkrunarfæðing daginn eftir til að fá ráðleggingar. Hún sagði okkur að nú væri hann orðinn svo stór að hann þyrfti ekki að sofa svona mikið á daginn. Við reynum því að halda honum vakandi á morgnanna, svo fær hann að sofna milli 12 og 13 og fær þá ekki að sofa lengur enn 4 tíma. Svo höldum við honum vakandi í sirka 5 klukkustundir og þá ætti hann að sofa nokkuð vel yfir nóttina. Hjúkkan sagði einnig að við mættum byrja að gefa honum graut á kvöldin. Það gerðum við í gærkvöldi, gáfum honum tvær teskeiðar. Honum fannst það ótrúlega gott og vildi helst bara mata sig sjálfur. Hann svaf svo frekar vel í nótt, sofnaði klukkan 21, vældi aðeins um miðnætti en sofnaði svo aftur til 04, svo til 07 og svo til 10. Vonandi fer þetta að komast í svona góða rútínu.

Annars hafa þeir strákarnir verið ansi mikið einir núna um helgina. Á föstudaginn fór ég aðeins upp í Stoð til að kíkja á liðið þar. Fór svo beint til Karenar og við fórum í nudd í baðhúsinu og slöppuðum af í heitapottinum. Hjalti og Jökull voru í Fiskakvísl á meðan og Jökull svaf langalúrinn þar. Þegar hann vaknaði hjálpaði mamma hans Hjalta við pelagjöfina, enda mikill snillingur í þeim málum (var með sín börn á pela). Svo í gærkvöld fór ég í útskrift til Guðbjargar vinkonu sem var að útskrifast með BS í verkfræði. Skemmtilegt frá því að segja að Guðbjörg er ólétt og á að eiga um páskana, Hún er reyndar í framhaldsnámi í Kaupmannahöfn og mun eiga barnið þar. Við vinkonurnar stefnum að því að drífa okkur til Kaupmannahafnar næsta vor til að skoða barnið. Ég var bara í veislunni í marga klukkutíma, Jökull vaknaði nú reyndar og grenjaði eitthvað á pabba sinn en sofnaði svo aftur að lokum, akkúrat þegar ég kom heim, mjög hentugt.

Jökull sefur núna langalúrinn sinn og við ætlum í Mosgerði þegar hann vaknar því þar ætlum við nokkur frændsystkinin að hittast (Eirný er reyndar farin til Bandaríkjanna) og Agla Eir ætlar að baka köku. Dísa, Halldór og Daði ætla svo að koma og borða með okkur í kvöld.

Nokkrar nýjar myndir komnar í albúmið "4. mánuðurinn".

sunnudagur, október 16, 2005


Útsofin fjölskylda

Jökull vaknaði klukkan sjö í morgun og við vorum svo þreytt að við gátum varla haldið augunum opnum. Jökull var hinsvegar í mjög góðu skapi og er svo sætur svona á morgnanna, liggur bara hjá okkur og hjalar og brosir. Hann sofnaði svo aftur um átta leytið og svaf til tíu. Við sváfum að sjálfsögðu líka og erum barasta alveg útsofin, eða eins útsofin og foreldrar þriggja mánaða gamals drengs geta verið. Þetta hefur verið svona upp á síðkastið, hann sefur svona tvo tíma fyrir hádegi og fjóra eftir hádegi. Nema í dag svaf hann meira að segja í fimm tíma í vagninum! En ég ætla ekki að hæla honum of mikið því þá er hann vís með að snúa þessu öllu við. Hann er reyndar farinn að láta okkur hafa fyrir sér á kvöldin. Við reynum að leggja hann alltaf klukkan hálf tíu. Hér áður fyrr var það ekkert mál, hann sofnaði alltaf strax, en núna er hann farinn að grenja á okkur. Við neitum hinsvegar að taka hann upp og förum bara inn til hans inn á milli og stingum upp í hann snuðinu og knúsum hann svolítið. Þetta gerum við í svona hálftíma og hann sofnar svo alltaf á endanum.

Í gær fór ég í hvorki meira né minna en skírn og brúðkaup. Sigrún vinkona og Grétar skírðu litlu stelpuna sína sem fékk nafnið Karen Birta og giftu sig í leiðinni. Athöfnin var mjög látlaus og falleg. Svo fórum við í veislu heim til mömmu hennar Sigrúnar á eftir. Hjalti var heima með Jökul sem steinsvaf á meðan. Hann sofnaði klukkan eitt og svaf til hálf sex. Ég kom svo heim klukkan kortér í sex. Hjalti hafði þá gefið honum í fyrsta skipti þurrmjólk. Jökli fannst það allt í lagi en var ekkert voða æstur í þessa mjólk. Hann fékk svo strax að drekka brjóst þegar ég kom heim og honum fannst það ekkert verra. Ég hinsvegar fann það á lyktinni langar leiðir að hann hafði verið að drekka eitthvað annað en mína mjólk. Eirný, Gæi og Katla komu svo í kvöldmat og gáfu Jökli naghring sem hægt er að kæla í ísskáp. Drengurinn hefur sjaldan verið jafn einbeittur yfir nokkrum hlut.

Ég, Eirný og Katla lentum svo í rosalegu ævintýri. Við ætluðum rétt að skreppa á videoleiguna og svo ætlaði ég að gefa Jökli þegar við kæmum tilbaka. Þegar við erum að koma að gatnamótunum við Hallsveg og Strandveg sjáum við hvar Dominos bíll beygir í veg fyrir leigubíl. Þetta var mjög harður árekstur og okkur dauðbrá. Fyrstu viðbrögð Eirnýjar voru að hemla og halda okkur sem lengst frá hættunni en ég öskraði á hana að fara nær til að við gætum athugað með fólkið. Ég hljóp fyrst að Dominos bílnum og var frekar smeyk við að opna hurðina þar sem það rauk úr bílnum og húddið var horfið. Þar inni var ungur strákur sem gat strax sagt mér að hann væri ómeiddur og þá hljóp ég að leigubílnum og komst að því að þar var bílstjórinn líka ómeiddur. Þeir voru nú samt báðir frekar vankaðir. Við þrjár biðum eftir að sjúkrabíllinn væri komin og vorum svo beðnar að hinkra eftir löggunni sem tók skýrslu. En þetta fór nú betur en við þorðum að vona og við vorum fegnar að hafa ekki farið hálfri mínútu fyrr út úr húsi.

Við fórum síðan út á vídeóleigu og tókum verstu mynd sem gerð hefur verið á íslensku, Í takt við tímann með Stuðmönnum. Seinustu 80 mínúturnar (myndin er 90 mín) var maður bara að bíða eftir því að hún væri búin.

Við fórum svo í mat í Fannafold í kvöld og fengum þar mjög gott lambalæri og meðlæti. Þegar við komum heim þá fórum ég og Jökull í bað. Hann hefur nú nokkrum sinnum farið í bað áður en það var samt eins og að hann væri að uppgötva vatnið núna. Hann tók kippi og spriklaði rosalega og var svo frekar hissa . Honum virtist finnast þetta gaman en hann var mjög alvarlegur allan tímann, en samt ekki óánægður. Hann var svo sofnaður áður en við náðum að leggja hann í rúmið. Hjúkk. Við þurfum sem sagt ekki að hlusta á hann grenja í kvöld.

mánudagur, október 10, 2005


SUMARBÚSTAÐARFERÐ

Við fjölskyldan settum land undir hjól á laugardaginn og keyrðum í Borgarfjörðinni í sumarbústaðinn Skógarkot til að hitta Eirnýju, Gæa og Kötlu. Þar voru einnig Bryndís og Hilmar með dóttur sína Herdísi (þau fóru reyndar heim á laugardeginum) og Ágústa og Óli Jón með son sinn Tómas. Það var að sjálfsögðu mikið fjör með svona mörgum krökkum. Þetta var frábær bústaður og við nutum helgarinnar vel, fórum í göngutúra, borðuðum góðan mat og fórum í pottinn á meðan Jökull svaf í vagninum. Jökull var að fíla sig vel í sveitinni og datt ekki úr neinni rútínu þökk sé skipulagshæfileikum foreldra sinna. Við lögðum nefninlega af stað eldsnemma um morguninn svo að hann myndi sofa stutta morgunlúrinn á leiðinni. Svo á sunnudeginum létum við hann sofa 3 tíma af langa lúrnum, vöktum hann svo og létum hann sofa seinasta klukkutímann í bílnum á leiðinni heim. Þvílík snilld.

Á fimmtudaginn var fóru ég og Jökull aftur á mömmumorgunn í kirkjunni. Jökull er nú ekki alveg að meika þetta svona svefnlega séð. Hann vaknar um hálf tíu og því verð ég að fara með hann vakandi í bílnum (hann tekur það ekki í mál að fara í vagninn nema að hann sé þreyttur). Svo verður hann svo þreyttur á meðan á mömmumorgninum stendur og verður bara pirraður. Ég er hinsvegar ekki að meika þetta svona trúarlega séð. Það eina sem er gert er að biðja bænir, syngja Jesúlög og lesið upp úr biblíunni. Ég myndi nú láta mig hafa það ef það væri gaman að öðru leyti, en það eru svo rosalega margar konur þarna að maður kynnist engum (þær tvær sem ég talaði við í fyrsta skiptið mættu ekki seinast). Ég sat því nánast bara úti í horni og var að rembast við að halda Jökli góðum. Ég gafst svo bara upp á þessu eftir klukkutíma og fór til Karenar og Daníels Mána. Þau greyin sátu náttúrulega uppi með okkur í marga klukkutíma. Við vorum komin til þeirra hálf tólf og svo sofnaði Jökull úti í vagni klukkan hálf eitt og svaf til hálf fimm, þá þurfti ég náttúrulega að gefa honum áður en við yfirgáfum mæðginin. En það vill svo til að Karen er nú líka í fæðingarorlofi og Einar að vinna þannig að ég held að henni hafi ekkert fundist þetta alslæmt.

Seinnipartinn í dag fórum við í Kringluna og keyptum nokkrar jólagjafir (dáldið sein í þessu í ár) og slefsmekki handa Jökli. Slefsmekkir eru algjör snilld því Jökull slefar um hálfum lítra á kvöldi og nú loks verður hann ekki allur rennandi blautur og kaldur. Jökull svaf vært á meðan við vorum í Kringlunni. Hann var svo orðinn rosalega þreyttur um átta leytið í kvöld og við ákváðum að skella honum í bað, gefa honum að drekka og svæfa hann. Þegar það kom svo að því að gefa honum þá stóð mjólkin eitthvað á sér. Hann var samt mjög svangur og varð ótrúlega pirraður yfir þessu. Þá var bara að gefast ekki upp og láta hann sjúga áfram því það byrjar að framleiðast mjólk á endanum. En minn maður skildi ekkert í þessu og bara grét og grét. En þetta tókst á endanum og eftir að hann hafði fengið nægju sína var bara eins og hann hefði fengið auka orku og hann hætti alveg við að vera þreyttur. Að lokum sofnaði hann ekki heldur hreinlega gafst upp á því að vera vakandi. Því er við hæfi að við foreldrarnir drífum okkur nú líka í háttinn.

Góða nótt.

miðvikudagur, október 05, 2005

Jökull bara stækkar og dafnar og verður að foreldranna mati bara sætari og skemmtilegri með hverjum deginum. Hann er kominn á eitthvað hávært skeið (hann var nú frekar hávær fyrir) og getur legið á teppinu eða setið í ömmustólnum og bara öskrað. Hann er ekkert óánægður þegar hann gerir þetta, bara svona að prófa röddina. Hann klæjar ennþá svakalega í góminn og reynir að troða báðum höndunum upp í sig í einu. Hann hefur ekki alveg fullkomna stjórn á þessu og treður puttunum stundum svo langt inn að hann kúgast. Þá skilur hann ekki neitt í neinu og fattar alls ekki að kippa höndunum aftur út, hann heldur því bara áfram að kúgast þar til við fjarlægjum hendurnar úr munninum. Þá er hann vanalega voðalega hissa á svipinn í smá stund en treður svo bara puttunum aftur upp í sig.

Jökull er að ná nýjum hæðum í svefninum. Í gær t.d. vaknaði hann um átta og kom þá bara upp í til mín og hló og skríkti í klukkutíma þar til hann sofnaði aftur (og ég líka). Við sváfum þá í einn og hálfan tíma í viðbót, mjög þægilegt skal ég segja ykkur. Klukkan tólf sofnaði hann svo aftur og svaf þá til hálf fimm. Við héldum honum þá vakandi til klukkan átta (það var mjög erfitt, hann var alveg stjarfur af þreytu) og þá svaf hann í einum dúr til hálf fjögur. Hann sofnaði svo fljótt aftur og svaf til hálf átta í morgun. hann er líklegast að stækka svona mikið og verður þar af leiðandi að sofa mikið. En þar sem hann sefur svona mikið er hann gjörsamlega búinn að gleyma því hvernig á að velta sér. Hann gerði þetta í nokkra daga og svo bara einn daginn hafði hann enga löngun til að fara af maganum yfir á bakið. Enda búinn að sýna okkur að hann getur þetta og þá er engin ástæða að vera alltaf að sýna einhverjar kúnstir eins og hundur.

Talandi um hunda, einhvernveginn tekst mér alltaf að fara með vinstra framhjólið á vagninum hans Jökuls beint í hundaskít, óþolandi. Í gær sá ég svo einhverja pempíu gelluna hleypa svona litlum skratta út til að skíta í annra manna görðum. Það sem kemur hinsvegar á óvart er að þetta er sko alls ekki skítur úr hundunum í blokkinni hér við hliðiná. Þar eru nefninlega fimm íbúðir og þar búa fimm hundar. Tveir svona risa stórir sem líta meira út eins og hestar, held að það séu rottweiler. Svo er einn sem er bara á stærð við meðal stóran kálf og ég held að sé bulldoser og svo einhver minni útgáfa af honum og svo að lokum einn svona venjulegur með krullað skott sem er samt lang háværastur. Eigendur þessara hunda eru allir 100 kílóa vaxtarræktartröll og maður gæti alveg ímyndað sér að þeim væri sama hvar hundarnir gerðu sitt. En nei, alls ekki, hundarnir eru alltaf í mjög stuttum ólum hjá þeim og þeir fara með þá tvisvar sinnum á dag út á lóð þar sem eru engin hús og plokka svo kúkinn upp með poka sem þeir svo henda í ruslið. Ég er ánægð með þessa gaura en frekar pirruð út í pempíuna.

laugardagur, október 01, 2005


Ég, Hjalti, Karen og Einar skelltum okkur á Bítl og svo á kaffihús í gærkvöldi og settum strákana í pössun á meðan. Við skemmtum okkur bara mjög vel og Jökull skemmti sér einnig mjög vel í pössun hjá ömmu og afa í Fiskakvísl. Hann svaf til að byrja með, vaknaði svo og drakk brjóstamjólk af pela og sofnaði svo sæll og glaður í afa fangi.

Eitthvað tókst okkur Hjalta að klúðra langa lúrnum hans Jökuls í dag. Við fórum í golfverslun og Hjalti keypti sér golfpoka (nú vantar hann bara allt annað sem viðkemur golfi). Á leiðinni heim sofnaði Jökull óvart og vaknaði svo þegar við komum heim. Hann var þá frekar pirraður og þreyttur en neitaði alveg að fara að sofa. Hann sofnaði ekki fyrr en Eirný og Katla komu í heimsókn og við fórum með Jökul (sem stóð á orginu) út í vagn. Katla labbaði við hliðiná vagninum og hélt snuðinu uppí honum og þá gafst hann loks upp. Hann fékk nú reyndar ekki að sofa eins lengi og hann vildi því ég vakti hann eftir um 2 og 1/2 tíma svefn og fór með hann í Reykjadalshitting hjá Eyrúnu. Hann var ekki par hrifin af mömmu sinni þá, en hann sofnaði í bílnum og svaf mest allan tímann í boðinu.

Við lentum nú reyndar í góðu kúka ævintýri í golfbúðinni. Þannig er mál með vexti að drengurinn kúkar bara á svona fjögurra daga fresti og í dag voru akkúrat liðnir fjórir dagar. Þegar ég svo held á honum inni í þessari rándýru og fínu golfbúð finn ég mér til mikils hryllings að Jökull kúkar svona líka hressilega. Þetta var það mikið að það var ekki forsvaranlegt að keyra alla leið heim með kúkinn í buxunum. Afgreiðslumaðurinn sýndi okkur klósettið en þar var ekki hægt að athafna sig, við spurðum hann þá hvort við mættum mögulega skipta á honum inni í búð. Stráknum fannst það nú ekki mikið mál og við fundum okkur gott horn með gervigrasi og fórum í aðgerðina þar. Þetta var nú reyndar út um allt og í fötin en við gátum reddað þessu.

Nokkra nýjar myndir eru komnar í albúmið "4. mánuðurinn".