Þvílíkt og annað eins

Í gær ákváðum við Karen að hittast í hádeginu í dag. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar fer mjög stórt batterí í gang. Þetta er ekkert eins og áður fyrr þegar maður bara tannburstaði sig, greiddi sér, stökk í skóna og þeystist út. Ó nei, allt svona þarfnast mikillar skipulagningar. Maður þarf að gera bleyjutöskuna klára, er nóg af bleyjum? Hvað með undirlög? Er ég með einhverjar taubleyjur? Auka alklæðnað ef Jökull skildi kúka upp á bak, o.s.frv. Svo þarf að muna eftir útigallanum og fara með vagninn út í bíl, oft gott að gera það kvöldið áður svo að það gleymist ekki. Það er nefninlega mjög hvim leitt ef að ég þarf bæði að drösla vagninum, Jökli í barnabílstólnum og bleyjutöskunni út í bíl. En þegar ég var sem sagt búin að fara yfir þennan gátlista í gærkvöldi ákvað ég að það væri nú góð hugmynd að baka bananabrauð til að fara með. Þessi hugmynd var nú reyndar sprottin af óslökkvandi löngun minni í súkkulaði, en ég og Hjalti erum hér með komin i nammibindindi. Þetta reyndist vera mjög góð hugmynd. Það tók nefninlega svo langan tíma að baka brauðið að þegar það var loksins tilbúið var klukkan orðin svo margt að ég hafði mestan áhuga á því að fara að sofa, ekki að setjast að snæðingi. Í morgun hélt svo skipulagningin áfram. Planið var að leggja af stað um ellefuleytið og þá má Jökull ekki vera of svangur og alls ekki of þreyttur svo hann sofni ekki á leiðinni og rugli langa lúrnum. Klukkan kortér í ellefu leit allt saman mjög vel út, drengurinn ný búinn að drekka og í góðu stuði, ekkert of þreyttur. Ég pakkaði honum því í bílstólinn, tók bleyjutöskuna og bananabrauðið og fór út í bíl (Hjalti setti vagninn út í bíl í gærkvöldi, hjúkk). Það var ógeðslega kalt og miðstöðin var eitthvað lengi að hitna. Þegar við vorum svo komin að ljósunum þar sem maður beygir inn á Ártúnsbrekkuna þá, mér til mikils hryllings, drap bíllinn á sér og harðneitaði að fara aftur í gang, ohmægod!!! Við vorum föst á ljósunum, ógeðslega kalt og allir í bílunum sem komu á eftir okkur héldu að mér þætti þetta rosalega gaman og að ég væri bara að þessu svo að þau myndu mæta of seint í vinnuna eða hvert sem þau voru að fara. Það var sem sagt flautað þó nokkrum sinnum á mig og mér gefið illt auga. Það sem verra var að bíllinn var svo rafmagnslaus að hann gat ekki einu sinni blikkað viðvörunarljósunum. Ég hringdi strax í pabba sem var sem betur fer á skrifstofunni sinni (en ekki í miðri kennslustund) og hann kom að bjarga okkur. Á meðan við biðum eftir honum klæddi ég Jökul svona 37 sinnum í vettlinginn (honum tókst alltaf að fara aftur úr honum) og þess á milli reyndi ég að senda afsökunarsvipbrigði á bílana fyrir aftan mig. Þá virtist fólk skilja mig betur og sendi mér vorkunnarsvipbrigði tilbaka, en það var samt enginn sem bauðst til að hjálpa mér. Pabbi kom svo og gat gefið mér start. Hann keyrði svo á eftir okkur heim og hjálpaði mér inn með vagninn. Á meðan tókst Jökli að sofna, allur ískaldur greyið. En hann vaknaði þegar við komum heim og hann fékk bara fullt að drekka og ég vafði hann inn í sængina sína á meðan. Ég klæddi hann svo í tvennar samfellur, sokkabuxur, ullarsokka, ullarftottésokkabuxur, -peysu, húfu, vettlinga og flísgallan, setti hann svo í dúnpokann og flísteppi yfir og oní vagninn. Hann virtist alveg vera til í þetta og steinsefur núna úti í vagni, kannski örlítið kalt á kinnunum. Nú er planið að Karen og Daníel Máni komi bara í heimsókn til okkar á morgun eða hinn.
Annars er bara allt rosa gott af okkur að frétta. Jökull er búinn að læra að frussa og er nú eins og versti töffari sem skyrpir á gólfið allan liðlangan daginn. Svo tók hann upp á því fyrir svona mánuði síðan að sjúga á sér þumalputtan ef hann finnur ekki snuðið í svefnrofunum. Eins og ég held að það sé leiðinlegt þegar eldri börn sjúga fingurinn þá er þetta bara sætt hjá ungabörnum. Allavegana voru Hjalti og hans frændsystkini mjög leiðinleg við Guðrúnu Ernu þegar hún var lítil og saug puttan. Þau eltu hana á röndum og klöguðu hana svo ef þau sáu hana stinga puttanum upp í sig. Hún var farin að fela sig undir borði á tímabili til að geta sogið puttan óáreitt.
Annars borðar Jökull alltaf graut núna fyrir háttinn og finnst það ekki leiðinlegt. En kúkurinn stendur nú eitthvað á sér og þess vegna blöndum við smá malt extrakt út í brjóstamjólk og gefum honum með skeið. Honum finnst það svo rosalega gott að hann fer hreinlega að skæla þegar það er búið.
Það eru komnar nokkrar nýjar myndir í nýtt albúm, "5. mánuðurinn".