
Til hamingju Sigrún, Grétar og Viktor. Aðfaranótt fimmtudagsins eða þann 8. september eignaðist Sigrún vinkona litla stelpu (sem er á myndinni hér fyrir ofan). Hún var nú reyndar ekkert lítil miðað við hann Jökul því hún fæddist 16 merkur. Fyrir eiga þau Sigrún og Grétar Viktor sem er orðinn 6 ára skólastrákur. Við hlökkum mikið til að hitta þessa nýju snúllu.
Við fjölskyldan höfum nú bara tekið því rólega upp á síðkastið. Hjalti er alltaf af og til að vinna sem forfallakennari í Salaskóla og er líka byrjaður í master-kúrsum í háskólanum. Við Jökull dúllum okkur bara hérna heima á meðan og förum oft hringinn í kringum voginn, Hjalti fær að koma með ef hann er heima. Á laugardaginn fórum við á Selfoss í afmælið hennar Kolbrúnar Védísar (frænku hans Hjalta) sem varð 5 ára þann 11. september. Þar hittum við margt frændfólk Hjalta og meira að segja nokkra sem Jökull hafði ekki enn hitt. Þar á meðal var Stefán og kærastan hans hún Hilda, en þau eiga akkúrat von á barni í apríl.
Við Hjalti höfum verið hálf tuskuleg hérna um helgina, rennandi hor og hnerrandi þegar við erum ekki að drepast úr stíflu og hausverk. Við héldum okkur bara inni í gær og Hjalti fór ekki í vinnuna. Við sendum hinsvegar Jökul bara út á svalir að sofa þar sem að hann er stálhraustur og lætur þessa kvefpest ekkert á sig fá. En Hjalti fór í vinnuna í dag og þetta virðist bara vera búið hjá okkur báðum.
Jökull er náttúrulega algjört yndi og er alltaf að stækka, fitna og þroskast. Hann er mjög mikið með á nótunum og vill láta hafa ofan af fyrir sér. Honum finnst mjög gaman að liggja á bakinu á leikteppinu sínu og reynir eins og hann getur að snúa sér yfir á magann. Það hefur ekki tekist hingað til en það er ekki langt í það. Hann elskar dýrin sem eru á leikteppinu, nema fílinn Finn því það er svo erfitt að ná taki á honum og því er stundum öskrað hátt og snjallt í áttina að honum. Ari api er hinsvegar ágætur því Jökull nær honum og getur stungið honum upp í sig. Goggi gíraffi og Palli páfagaukur eru ekki alveg nógu spennandi ennþá. Hann er farinn að sprikla all rosalega þegar við reynum að skipta á honum og við eigum fullt í fangi með að halda honum á skiptiborðinu. Honum finnst voða gaman að láta syngja fyrir sig og hlustar af athyggli ef hann tekur ekki bara undir, hann kann nú reyndar bara að segja ,,aghú" með ýmsum útfærslum. Honum finnst mjög gaman að láta kjá framan í sig og kúldrast með sig. En lang, lang skemmtilegast finnst honum að fylgjast með Kötlu sinni. Horfa á svipbrigðin hjá henni og hlusta á hana syngja og leika.
Við erum komin með einhverskonar svefnrútínu yfir sólarhringinn. Hann sofnar svona um 22 leitið á kvöldin og svo vaknar hann aftur um klukkan 02 og reynir að fanga athyggli móður sinnar. En hún er ekki mjög tilkippileg um þetta leytið og stingur bara upp í hann snuðinu og neitar að gefa honum brjóst. Þá sofnar hann aftur, en klukkan 03:30 spítir hann út úr sér snuðinu og heimtar brjóst. Hann sefur svo til 06:30 og er þá vaknaður og vill kjafta við foreldra sína. Hann dottar svo vanalega aftur í um hálftíma/klukkutíma. Um 10-11 leitið fer hann svo í vagninn og sefur til svona 14-15 en eftir það sofnar hann bar smá lúra í 20-40 mín í senn þar til hann sofnar um kvöldið. Hann getur því verið ansi pirraður um eftirmiðdaginn og það er nú alveg spurning að prófa að skella honum aftur í vagninn og gá hvort hann sofi ekki fastar þá.