Jökull Hjaltason 23/06/05

fimmtudagur, september 29, 2005

Ég og Jökull hittum hjúkrunarfræðinginn og lækninn í gær þegar Jökull fór í 3. mánaða skoðun. Þar reyndist hann vera orðinn 63 cm og 6455 gr. sem þýðir að hann heldur bara sinni kúrfu. Hann fékk líka sprautu en grét ekkert yfir því.

Annars kann hann sko alveg að gráta og það lítur allt út fyrir að hann sé með frekar lítið hjarta. Um daginn voru nefninlega Eirný og Katla að skipta á piltinum og voru að kjá eitthvað framan í hann og skemmta honum eins og frænkur eiga að gera. En allt í einu fannst honum nóg um og fór bara að háorga. Hann huggaðist ekki við að koma til mín eða Hjalta og snuðið hjálpaði heldur ekki neitt. Það var ekki fyrr en hann fékk brjóst að hann tók gleði sína á ný. Þetta gerðist svo aftur hjá mér í gær. Nema að þá vorum við á leiðinni út í göngutúr og hann fékk óvart vind framan í sig og hann náði ekki andanum í smástund. Hann varð svona voðalega hræddur og grét og grét. Ég varð takk fyrir að taka hann upp, fara aftur inn og átti þar fullt í fangi með að hugga hann. En að lokum sofnaði hann í fanginu hjá mér.

Við fórum svo á foreldramorgun í kirkjunni (reyndar var ekki einn einasti pabbi) og þar voru rosalega margar konur, nánast of margar. Það var nú ekki mikið gert annað en spjallað og börnin borin saman, en planið er víst að fá einhverskonar fræðslu og skemmtilegheit.

föstudagur, september 23, 2005


Jökull öfugsnúni.

Í hægra horninu við höfuðgaflinn á rúminu hans Jökuls hangir spiladós. Í nótt um þrjú leytið vaknaði ég við einhver hljóð frá þessari spiladós, svona einn og einn tónn. Þegar ég loksins náði að opna augun sá ég að Jökull var búinn að snúa sér í rúminu og var að sparka í spiladósina. Þetta er sem sagt nýjasta sportið, þegar hann vaknar þá er hann ekkert að hafa fyrir því að vekja mig, heldur dundar sér bara við það að snúa sér. Hann stingur fótunum á milli rimlanna og spyrnir í, svo fer hann með fæturnar á næstu rimla og spyrnir aftur. Svona getur hann haldið áfram þar til hann er búinn að snúa sér í hálf hring og kominn með fæturnar þar sem hausinn á að vera, voða sport!

Ég ætlaði í langan göngutúr með Jökul áðan en þegar ég kom út snérist mér hugur. Það er nefninlega glampandi sól, hávaða rok, ískalt og snjókoma. Fáránlegt. Göngutúrinn varð því bara stuttur í þetta sinn.

Annars eru loksins komnar nýjar myndir í albúmið "3. mánuðurinn". Okkur tókst nú reyndar ekki að laga það sem var að en við fundum leið fram hjá vandanum.

Jæja nú sefur Jökull úti á svölum og ég ætla að nota tímann og ráða sudoku þrautir þar til Hjalti kemur heim af bókhlöðunni.

mánudagur, september 19, 2005


Veltingur

Jájá, það held ég nú. Jökull velti sér loksins í dag, frá maganum yfir á bakið. Þetta gerði hann einn og óstuddur, án allra hjálpartækja. Meira að segja oft!!! Við erum rosa stolt af drengnum og megi þetta vera hið fyrsta af mörgum partítrixum.

Reyndar fann hann upp á einu trixi fyrir stuttu. Það er að stinga báðum höndum upp í sig, slefa ca. hálfum lítra og öskra. Við höldum að gómurinn sé semsagt farinn að pirra hann. Það er nú ekki á alvarlegu stigi ennþá, nema hann getur orðið ansi pirraður seinni partinn. Þá er bara gengið um gólf og gómurinn nuddaður, hann má víst ekki fá deyfigel þar sem hann er of lítill. Það þarf nú ekki að vera að tennurnar séu að koma en allavega er einhver erting í gómnum.

Annars er lítið að frétta. Jökull bara stækkar og stækkar og senn fer að líða að 3. mánaða skoðun og þá verður spennandi að sjá lengd og þyngd. Það er í lok mánaðarins.

Því miður er myndadótið eitthvað bilað þannig að við getum ekki sett inn nýjar myndir. Það lagast vonandi fljótlega. Lofum þó engu þar sem við þurfum að laga það sjálf og höfum ekki verið rómuð fyrir mikla tölvukunnáttu hingað til.

þriðjudagur, september 13, 2005


Til hamingju Sigrún, Grétar og Viktor. Aðfaranótt fimmtudagsins eða þann 8. september eignaðist Sigrún vinkona litla stelpu (sem er á myndinni hér fyrir ofan). Hún var nú reyndar ekkert lítil miðað við hann Jökul því hún fæddist 16 merkur. Fyrir eiga þau Sigrún og Grétar Viktor sem er orðinn 6 ára skólastrákur. Við hlökkum mikið til að hitta þessa nýju snúllu.

Við fjölskyldan höfum nú bara tekið því rólega upp á síðkastið. Hjalti er alltaf af og til að vinna sem forfallakennari í Salaskóla og er líka byrjaður í master-kúrsum í háskólanum. Við Jökull dúllum okkur bara hérna heima á meðan og förum oft hringinn í kringum voginn, Hjalti fær að koma með ef hann er heima. Á laugardaginn fórum við á Selfoss í afmælið hennar Kolbrúnar Védísar (frænku hans Hjalta) sem varð 5 ára þann 11. september. Þar hittum við margt frændfólk Hjalta og meira að segja nokkra sem Jökull hafði ekki enn hitt. Þar á meðal var Stefán og kærastan hans hún Hilda, en þau eiga akkúrat von á barni í apríl.

Við Hjalti höfum verið hálf tuskuleg hérna um helgina, rennandi hor og hnerrandi þegar við erum ekki að drepast úr stíflu og hausverk. Við héldum okkur bara inni í gær og Hjalti fór ekki í vinnuna. Við sendum hinsvegar Jökul bara út á svalir að sofa þar sem að hann er stálhraustur og lætur þessa kvefpest ekkert á sig fá. En Hjalti fór í vinnuna í dag og þetta virðist bara vera búið hjá okkur báðum.

Jökull er náttúrulega algjört yndi og er alltaf að stækka, fitna og þroskast. Hann er mjög mikið með á nótunum og vill láta hafa ofan af fyrir sér. Honum finnst mjög gaman að liggja á bakinu á leikteppinu sínu og reynir eins og hann getur að snúa sér yfir á magann. Það hefur ekki tekist hingað til en það er ekki langt í það. Hann elskar dýrin sem eru á leikteppinu, nema fílinn Finn því það er svo erfitt að ná taki á honum og því er stundum öskrað hátt og snjallt í áttina að honum. Ari api er hinsvegar ágætur því Jökull nær honum og getur stungið honum upp í sig. Goggi gíraffi og Palli páfagaukur eru ekki alveg nógu spennandi ennþá. Hann er farinn að sprikla all rosalega þegar við reynum að skipta á honum og við eigum fullt í fangi með að halda honum á skiptiborðinu. Honum finnst voða gaman að láta syngja fyrir sig og hlustar af athyggli ef hann tekur ekki bara undir, hann kann nú reyndar bara að segja ,,aghú" með ýmsum útfærslum. Honum finnst mjög gaman að láta kjá framan í sig og kúldrast með sig. En lang, lang skemmtilegast finnst honum að fylgjast með Kötlu sinni. Horfa á svipbrigðin hjá henni og hlusta á hana syngja og leika.

Við erum komin með einhverskonar svefnrútínu yfir sólarhringinn. Hann sofnar svona um 22 leitið á kvöldin og svo vaknar hann aftur um klukkan 02 og reynir að fanga athyggli móður sinnar. En hún er ekki mjög tilkippileg um þetta leytið og stingur bara upp í hann snuðinu og neitar að gefa honum brjóst. Þá sofnar hann aftur, en klukkan 03:30 spítir hann út úr sér snuðinu og heimtar brjóst. Hann sefur svo til 06:30 og er þá vaknaður og vill kjafta við foreldra sína. Hann dottar svo vanalega aftur í um hálftíma/klukkutíma. Um 10-11 leitið fer hann svo í vagninn og sefur til svona 14-15 en eftir það sofnar hann bar smá lúra í 20-40 mín í senn þar til hann sofnar um kvöldið. Hann getur því verið ansi pirraður um eftirmiðdaginn og það er nú alveg spurning að prófa að skella honum aftur í vagninn og gá hvort hann sofi ekki fastar þá.

þriðjudagur, september 06, 2005

Ferðasaga

Við lögðum land undir fót og fórum á Mývatn og til Akureyrar í síðustu viku. Byrjuðum á Mývatni frá miðvikudegi til föstudags og svo á Akureyri frá föstudegi til sunnudags. Ferðin norður gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Við vorum ekki komin nema upp í Mosfellsbæ þegar ég þurfti að stoppa til að taka símtal. Vala ákvað þá að gefa Jökli í leiðinni inn í bíl og ekki vildi betur til en svo að hún rak hausinn á honum uppundir í þak bílsins. Jökli brá nú aðallega en Völu brá nú samt meira. En allt fór nú vel og það var allt í lagi með þakið á bílnum. Sem er annað en hægt er að segja um vatnskerfi hans sem upp úr sauð á Mývatnsheiði, nánar tiltekið við Másvatn. Urðum við að bíða í dágóaða stund og bæta á vatni áður en við gátum haldið áfram. Þarfnast bíllinn sennilega viðgerðar þó hann hafi verið til friðs það sem eftir var ferðar.

Við skemmtum okkur auðvitað vel í Vogum hjá ömmu minni Jónu. Við fórum í göngutúr upp í hraun á fimmtudeginum, borðuðum köku í fjósakaffihúsinu og grilluðum svo í rigningunni sem kom um kvöldið. Fram að því hafði verið yndislegt veður (og allt of mikið af mýflugum, innskot Völu) og bara einstaka fluga á stangli.

Á föstudeginum fórum við síðan í Dimmuborgir og gengum þar allar mögulegar gönguleiðir í rúmlega tvær klukkustundir (Vala er semsagt orðin mun hressari þessa dagana). Við borðuðum svo kvöldmat í Vogum en keyrðum svo til Akureyrar.

Þar gistum við hjá Mögnu, móðursystur Völu en Eirný, Gæi og Katla keyrðu frá Reykjavík og gistu hjá afa hennar Völu. Við fórum í Kjarnaskóg á laugardeginum og vorum búin að búa okkur undir mikinn kulda á norðurlandinu og vorum því kappklædd en enduðum síðan nánast ber að ofan. Við prófuðum öll leiktækin í Kjarnaskógi og skemmtum okkur konunglega og mynduðum í bak og fyrir. Jökull svaf á sínu græna eyra á meðan á þessum látum stóð. Síðan borðaði öll fjölskyldan saman hjá Mögnu um kvöldið.

Eyddum fyrripartinum af sunnudeginum hjá afa hennar Völu en keyrðum svo snemma heim í Vegghamra. Vorum lengi á leiðinni og stoppuðum oft. Góð ferð í alla staði enda er Jökull voðalega ljúfur og góður, sefur bara og drekkur og er ekki með nein læti. Voða ljúft að fara með hann í ferðalag þar sem hann getur ómögulega haldið sér vakandi þegar bíllinn er á ferð.