Jökull Hjaltason 23/06/05

föstudagur, ágúst 26, 2005

Þá er okkar maður orðinn 9 vikna og var í skoðun í gær. Hann er orðinn rúm 5,5 kg og 61 cm sem er bara mjög fínt.

Við getum því miður ekki montað okkur lengur af því að drengurinn grenji aldrei á okkur. Hann er orðinn mun ákveðnari og er búinn að fatta að ef hann grenjar þá komum við hlaupandi og troðum upp í hann snuði eða brjósti. Stundum kvartar hann jafnvel þó hann sé úthvíldur og saddur, svo þegar við birtumst þá skælbrosir hann. Hann ætlar sem sagt að verða eins og mamma sín sem nennir heldur ekki að hanga ein. hann er orðinn voða duglegur að skoða hendurnar á sér og verður kolrangeygður við að fylgjast með þeim, svo finnst honum mjög gaman að sjúga puttana. Hann ýtir alltaf snuðinu út úr sér og setur hendurnar í munninn, en hann hefur ekki nógu góða stjórn á höndunum til að halda þeim upp í sér. Þá er illt í efni, ekkert snuð og hendurnar láta ekki að stjórn, hvað gerir maður þá annað en að öskra hátt og snjallt og bíða þar til þjónarnir mæta og stinga snuðinu aftur upp í mann. Mamma mín og pabbi voru í Kína um daginn (það fer að verða auðveldara að telja upp þá staði sem þau hafa ekki komið til frekar en hitt) og þar keyptu þau rosa flottan ömmustól handa Jökli. Jökull unir sér mjög vel í honum, en best þykir honum þegar við kveikjum á titringnum, þá tekur hann sig vanalega til og kúkar hressilega. Jökull hefur tekið upp á því síðustu daga að sofa rosalega mikið einn daginn en vera svo bara vakandi allan næsta dag. Hann er mjög úrillur þegar hann sefur svona lítið og þeim mun glaðari þegar hann sefur mikið. Ég er því að reyna að vinna í því að láta hann sofa mikið alla daga og reynist vagninn góður í þeim málum. Annars voru mamma og pabbi að gefa okkur hjónarúmið sitt því þau fengu nýtt. Það er ekkert smá frábært þar sem gamla rúmið okkar var 120 cm breitt og nýja er 180 cm. Ég skil nú ekki hvernig við komumst þarna öll þrjú þegar Jökull var í maganum. Kannski eins gott að ég byrjaði meðgönguna á því að léttast svona mikið. En sem sagt í nótt var fyrsta nóttin í þessu nýja rúmi og við Hjalti hittumst bara ekkert í alla nótt. Svo í morgun leyfðum við okkur þann lúxus að ná í Jökul og þá sváfum við öll hálftíma lengur.

Hjalti er byrjaður sem forfallakennari í Salaskóla og er búinn að vera að leysa af þessa vikuna. Það gengur mjög vel hjá okkur Jökli að vera tvö saman, en ég verð nú að segja að ég dáist að einstæðum mæðrum, þetta er ekki alltaf bara létt. Við erum sem sagt mjög ánægð með að geta verið öll saman í sumar og við erum nú dyggir stuðningsmenn feðraorlofs.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Brúðkaup og fleira

Á laugardaginn síðastliðin fórum við öll í brúðkaup Karenar og Einars og um leið í skírn Daníels Mána. Við byrjuðum nú á því að setja Jökul í pössun hjá Kötlu og fjölskyldu á meðan við fórum í kirkjuna. Þetta var í fyrsta skiptið sem Jökull fór í pössun og það gekk bara svona ljómandi vel. Eftir athöfnina, þar sem allir sögðu já á réttum stöðum, sóttum við Jökul og drifum okkur í veisluna. Þetta var nú heldur betur skemmtileg barnaveisla því fyrir utan Jökul og Daníel Mána voru Tómas sem er rúmlega þriggja mánaða, Ísold eins árs, Jakob þriggja og María fimm ára. Þetta var skemmtileg veisla og stóð í marga klukkutíma þar til brjúhjónin ásamt skírnarbarninu drifu sig í sumarbústað.Jökull fór í sex vikna skoðun á þriðjudaginn. Þar kom í ljós að hann er orðinn 5kg, 60cm og lítur vel út að öllu leyti. Vala fór í 25 ára skoðun um leið og er ekki að gera góða hluti. Þarf að vera dugleg að hvíla sig og ná upp járninu og þar með þrekinu. Það tekur bara sinn tíma og ekkert annað við því að gera en að taka járntöflur.

Síðan höfum við bara verið að reyna að taka því rólega í vikunni. Í dag komu Rannveig, Agla og Inga Björk í heimsókn og Jökull gerði sér lítið fyrir og kúkaði tveggja daga birgðum á Rannveigu frænku sína. Það var eins gott að þær voru hérna því það veitti ekki af liðsaukanum að skipta á honum.

Jökull er farinn að taka upp á því að vera meira eða minna vakandi allan daginn. Tekur sér bara stutta lúra inn á milli. Vill vera með í fjörinu. En hann virðist vita muninn á degi og nóttu og vaknar svona ca. einu sinni-tvisvar á nóttu til að drekka en sofnar svo strax aftur. Gott mál.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Verslunarmannahelgin

Síðasta vika hefur nú aldeilis verið viðburðarík. Á þriðjudaginn fóru Vala og Jökull í grillpartí til Þyríar. Þar var borðað, spjallað og kúkað. Svo gerðist hinn merki viðburður á fimmtudaginn að Vala fór frá stráknum sínum í fyrsta skipti. Þannig var að verið var að gæsa Karen vinkonu Völu sem er að fara að gifta sig núna á laugardaginn. Farið var í keilu og út að borða og henni bara gefið gjafabréf í nudd þar sem hún á nú einn lítinn strák sjálf (samt miklu stærri en Jökul) og gat ekki verið burtu frá honum allan daginn. Vala sleppti nú keilunni þar sem hún treysti sér hvorki líkamlega né andlega. Hún stútfyllti Jökul bara rétt fyrir klukkan átta af mjólk og kom síðan ekki heim fyrr en klukkan hálf tólf og bjóst við að heyra Jökul gráta í fyrsta skipti af mjólk- og mömmuleysi en pilturinn hafði bara ákveðið að leggja sig aðeins. Þannig að Vala þurfti að vekja hann til að láta hann drekka eitthvað af allri þessari mjólk sem hún var með.

Á föstudaginn voru við síðan ekki búin að fá nóg af partístandi og ákváðum að skella okkur öll saman í afmæli Fanneyjar sem varð 25 ára 30. júlí. Jökli þótti mjög gott að sofa bara í gegnum kliðinn og tónlistina og fílaði sig greinilega vel í partíi. Við fórum nú samt áður en partíið náði hámarki.Á laugardaginn vorum við ekki ennþá komin með nóg af partíum og Vala og Jökull skelltu sér í afmælið hans Gríms Þórs sem varð sextán ára. Á meðan þreif Hjalti Viðjugerðið sem við erum þá loksins búin að skila af okkur.

Annars voru nú bara sunnudagurinn og mánudagurinn af helginni rólegir þar sem Hrafnhildur og Maggi eru farin til Svíþjóðar aftur og mamma og pabbi fóru með þeim en Daði er heima. Foreldrar Völu voru í bústað og á Akureyri og Eirný, Gæi og Katla voru á Krít.