Jökull Hjaltason 23/06/05

sunnudagur, júlí 24, 2005

Eins mánaðar gamall

Þá er Jökull orðinn eins mánaðar gamall. Okkur finnst hann líka vera orðinn ansi fullorðinn. Hann er aðeins farinn að brosa til okkar en gerir það nú ekki eftir pöntunum. En okkur finnst hann vera orðinn voða stór en hjúkrunarfræðingurinn sem kom á föstudaginn mældi hann 4450gr. Svo verður spennandi að sjá í 6 vikna skoðuninni hversu langur hann er orðinn.

Það er búið að vera svo gott veður að undanförnu að við höfum farið í marga göngutúra. Reyndar ekki langa enda Vala ennþá mjög blóðlítil. Hjúkrunarfræðingurinn mældi hana 89 í járni en maður á að vera 120. Þannig að nú er bara að bryðja járn og forðast auka álag (það að eiga barn reiknast ekki sem aukaálag).

Við fórum í tvö afmæli í gær. Fyrst til Heimis frænda Hjalta sem varð 13 ára. Þar fór Jökull í sitt fyrsta garðpartý enda ekki annað hægt en að sitja úti í veðurblíðunni. Svo var haldið í 25 ára afmæli Hlyns og Bjarkar. Hittum Guðna og Ásdísi, Bendt og svo náttúrulega Björk, Hlyn og fjölskyldu. Jökull svaf nú bara í gegnum það. Afmælisbörnin voru nú ekki þau einu sem fengu pakka því Jökull fékk pakka frá fjölskyldunni í Steinaselinu enda átti hann nú eiginlega afmæli líka, var orðinn mánaðar gamall.

Eftir svona viðburðaríkan dag í gær verður Vala að hvíla sig en við ætlum nú samt í matarboð í Fannafoldina í kvöld. Komnar fullt af nýjum myndum í vikunni.

sunnudagur, júlí 17, 2005

DAGARNIR LÍÐA.

Já dagarnir líða og okkur finnst Jökull bara stækka og stækka og verða fullorðinslegri með hverjum deginum. Hjúkrunarfræðingurinn vigtaði piltinn á þriðjudaginn og þá var hann orðinn 4050gr, sem eru um 16 merkur. Okkur finnst það frekar furðulegt að mörg börn fæðist í þessari stærð, þar sem það var alveg nóg að koma honum í heiminn þó hann væri bara 13,5 merkur. Annars er hann alveg að fara að læra að brosa, hann hefur sent okkur svona nokkur hálf bros og sjálfsagt ekki langt þar til hann fatti þetta allt saman. Hann er líka orðinn voða duglegur að halda höfði, hann svona sperrir sig aftur en svo kemur fyrir að hann missi stjórnina og þá skellur hann alltaf beint á nefið greyið.

Marianne, Ludvik og Agathe fóru heim til Noregs á fimmtudaginn var. Það var hörkustuð í Agathe, enda er hún tveggja ára orkubolti. Hún var mjög spennt fyrir Jökli, en þorði ekki að kássast mikið í honum, sem var mikill léttir fyrir nýbakaða foreldra:)

Ég fór ein í gönguferð með Jökul í vagninum um daginn. Ég labbaði heiman frá okkur og alla leið í Fannafold til mömmu og pabba (það er svona 5 mín. gangur). Ég var gjörsamlega búin á því, kófsveitt og nánast búin að gefast upp á leiðinni. En mér tókst þetta og ég verð bara að vera dugleg að æfa upp þolið með fleiri svona gönguferðum.

Hrafnhildur systir hans Hjalta og Maggi maðurinn hennar eru komin til landsins. Þau búa í Svíþjóð og verða hér í tvær vikur. Þau eiga von á barni í byrjun desember og þau eru sko aldeilis búin að máta Jökul. Við höfum að sjálfsögðu tekið margar myndir af því og fleiru og sett inn.

mánudagur, júlí 11, 2005

Fyrsta AkureyrarferðinJæja þá hefur Jökull farið í sína fyrstu Akureyrarferð og sína fyrstu jarðaför. Amma Sigga (amma hennar Völu) dó föstudaginn 1. júlí og í dag var jarðaförin frá Akureyrarkirkju. Við flugum í gærdag kl. 14 og þrátt fyrir smá sviftivinda gekk allt mjög vel og Jökull bara svaf og tottaði snuðið sitt.

Við fórum svo í Byggðaveg þar sem afi Mundi gekk úr rúmi fyrir okkur litlu fjölskylduna. Það var nú þvílíkur lúxus þar sem að hann á rafmagnsrúm og brjóstagjafirnar voru því mjög tæknivæddar. Annars áttum við yndislega tvo daga á Akureyri, hittum marga góða ættingja. Jarðaförin var mjög falleg og sérstaklega fallegt var þegar Eydíst frænka söng einsöng. Jökull svaf í bílstólnum sínum alla athöfnina og vaknaði ekki fyrr en langt var liðið á erfidrykkjuna.

Til hamingju með afmælið Eirný!!! Hún Eirný móðursystir Jökuls er orðin háöldruð í dag eða 32 ára. Svei mér þá. Hún fékk engan pakka frá okkur í dag þar sem við vorum á Akureyri og pakkinn allt of stór til að flytja á milli. Hún verður bara að koma fljótt í heimsókn til okkar og fá hann.

Við tókum svo flug aftur til baka í kvöld kl. 21 og amma Dísa og afi Halldór sóttu okkur. Það var voða gott að komast aftur heim í Vegghamra. Þar tóku á móti okkur Marianne og Ludvik sem eru nú í heimsókn á Íslandi. Marianne var með Völu í námi í Oslo. Hún og kærastinn hennar, Ludvik og dóttir þeirra Agathe sem er tæplega 2 ára komu til landsins á þriðjudaginn var ásamt foreldrum Marianne og móður Ludvik. Þau bjuggu öll saman í Viðjugerði (sem við leigjum áfram út júlí), þar til foreldrarnir fóru aftur til Noregs í gær, þá fluttu Marianne, Ludvik og Agathe til okkar í Vegghamra.

Á morgun kemur hjúkrunarfræðingurinn og mælir Jökul í bak og fyrir. Það verður spennandi að sjá hvort hann hafi þyngst, hann er svo spengilegur drengurinn. Annars er planið bara að taka því rólega, Marianne og co. fara sjálfsagt í Fjölskyldu og húsdýragarðinn en við bíðum þangað til Jökull verður eitthvað eldri með það.

föstudagur, júlí 08, 2005

6 klukkutímar!


Það ber hæst um þessar mundir hjá fjölskyldunni að Jökull svaf í heilar 6 klukkustundir samfleytt í nótt. Hann hefði sjálfsagt sofið lengur ef Vala hefði verið þolinmóðari og ekki vakið hann. En allavega persónulegt met.

Á þriðjudaginn kom hjúkrunarfræðingurinn af heilsugæslustöðinni að skoða Jökul. Hann reyndist hafa þyngst um heil 200gr og er núna 3700 sem eru tæpar 15 merkur.

Eftir skoðunina fórum við í fyrsta skipti í göngutúr í nýja vagninum. Það var mjög stuttur göngutúr þar sem Vala var farin að kvarta eftir tvær húsalengdir og við urðum að snúa strax við aftur. Greinilegt að blóðleysið hefur eitthvað að segja ennþá. Gengur bara betur næst, ef það hættir þá einhvern tíman að rigna.Við höldum áfram að fá góða gesti og t.d. komu Guðni, Ásdís og Bendt ásamt Bjarka og Guðrúnu Evu á miðvikudagskvöldið. Afasysturnar í föðurætt komu svo í heimsókn í gærkveldi klyfjaðar gjöfum. Þar á meðal var líka þessi frábæri poki í vagninn. Að launum fengu þær allar að prófa að halda á Jökli sem var vakandi frá klukkan 8 til 12. Ekki furða að hann hafi sofið í 6 tíma. Svo kom Hildur Aðalbjörg í dag og Jökull sýndi sínar bestu hliðar og var vakandi nánast allan tíman og brosti næstum því til hennar.

Við erum að sjálfsögðu búin að setja inn myndir af þessu öllu saman.

mánudagur, júlí 04, 2005

Kúkur og piss

Nú er tíminn fljótur að líða. Þar sem Jökull er nú bara 12 daga gamall þá er nú ekki komin nein rútína hjá okkur, hann bara borðar og sefur þegar honum hentar. Sem betur fer hefur honum ekki orðið meint af kvefpest föður síns heldur er stálhraustur. Við reynum að brjóta dagana upp með því að fara í heimsóknir og fáum líka góða gesti nánast á hverjum degi. Einstaka sinnum fáum við slæma gesti:-) Allir fá að heyra skemmtilegar sögur um kúkableiur og pissustand og fá jafnvel sýnikennslu.

Í gær komu Grafarvogsstelpurnar færandi hendi með leikteppi og bleiutösku og föt sem hann passar í núna, þetta litla kríli.Nú er aftur komin sól og blíða eftir rigningartíð undanfarið þannig að vonandi gefst okkur tími til að prófa nýja vagninn frá ömmu og afa í Fannafold bráðum og fara aðeins í göngutúr. Svo ætlum við litla fjölskyldan að fara til Akureyrar næsta sunnudag og þá fer Jökull í sína fyrstu flugferð. Svo er von á góðum gestum frá Noregi í vikunni og svo styttist auðvitað í Hrafnhildi og Magga frá Svíþjóð.

Fleiru er eiginlega ekki að segja frá í bili. Endilega kíkið í heimsókn þeir sem hafa enn ekki orðið þeirra ánægju auðið að sjá fallegasta barn í geimi. Við setjum reglulega inn myndir af gestum og gangandi, sjá krækju hér á kantinum.

Hjalti, Vala & Jökull, out.