Jökull Hjaltason 23/06/05

miðvikudagur, júní 29, 2005

Það er ljóst hver ræður!!!Það er víst hann Jökull Hjaltason. Hann er ekki mikið fyrir það að vera einn í vöggunni sinni. Þrátt fyrir að vera saddur og sæll verður hann alltaf hálf pirraður þegar við setjum hann í vögguna sína og ætlumst til þess að hann sofi þar. Því varð úr í nótt að ég svæfi í sófanum inn í stofu og mæðginin voru saman í svefnherberginu. Hjónarúmið er nefnilega ekki það stærsta og þrátt fyrir að Jökull sé nú ekki mjög stór þá tekur hann sitt pláss.

Við förum mikið í heimsókn til ömmu Dísu í Fiskakvíslinni þar sem hún er nú í sumarfríi. Við höfum reynt að koma því að hjá henni að ömmur séu síbakandi til að eiga eitthvað gott handa foreldrunum. Gummi frændi Völu og Guðrún Ása kærastan hans komu svo í heimsókn um kvöldið og Jökull gerði sér lítið fyrir og kúkaði á frænda sinn. Það kveikti nú aldeilis í Gvendi.

Í dag fór Jökull í sex daga skoðun og stóðst hana með prýði. Er orðinn 3480gr en var fæddur 3378gr. Til að kóróna góða frammistöðu pissaði hann fyrst á móður sína og svo lækninn. Nú ætlum við að hvíla okkur og Katla stóra frænka og Eirný og Gæi kíkja svo í heimsókn eftir vinnu.

Komnar nýjar myndir í albúmið "Fyrstu dagarnir."

mánudagur, júní 27, 2005

Viðburðaríkur dagur í lífi Jökuls!

Í gær kom Elín ljósmóðir í heimsókn og stakk upp á því að við myndum skella okkur í bíltúr. Okkur fannst það ekki léleg hugmynd og brunuðum niður í Barmahlíð til Eirnýjar, Gæja og Kötlu stóru frænku. Jökull sór sig í móðurættina og sofnaði í bílnum og svaf nánast alla þessa stuttu heimssókn. Katla fékk þó aðeins að halda á honum og ljómaði af kæti. (Sjá nýjar myndir.)

Síðan komu afi Halldór og amma Dísa og Daði frændi færandi hendi í Vegghamrana með læri og tilheyrandi. Það var nú heldur betur veisla. Jökull var hrókur alls fagnaðar og svaf eftir að hafa fengið sína mjólkurveislu.

Elín kom svo aftur í dag að fara í gegnum baðkennslu með okkur og tékka á gulunni. Hún sá á okkur hvað okkur finnst gaman að fara í bíltúr og fannst það sniðugt að við létum mæla guluna niður á hreiðri. Það reyndist vera allt í góðu eins og hún bjóst reyndar alveg við.

Á heimleiðinni fórum við síðan í heimsókn í Fiskakvíslina til afa og ömmu og svo komu Solla Valla, Kolbrún Védís og Jóna Björk líka til að kíkja á Jökul. Hann lék við hvern sinn fingur og kúkaði í þokkabót. Var það mikill kúkur og blautur og lyktin eftir því. Telja gárungar að hestar hafi fælst, kýrnar misst nitina og fuglar hrapað til jarðar í öllum Elliðarárdalnum. Við hins vegar fögnuðum þessum fyrsta alvöru kúk með high five.

Nú erum við komin í Vegghamra og Eirný, Gæi og Katla á leiðinni og við ætlum að borða saman.

sunnudagur, júní 26, 2005

Jæja þá er litla fjölskyldan komin heim í Vegghamra 7 og öllum líður vel. Þetta hafa nú verið frekar viðburðaríkir dagar að okkar mati og við erum alveg hissa á því að heimurinn skuli bara halda áfram sinn vanagang þrátt fyrir að við höfum komið honum Jökli litla í heiminn.

Hann Jökull Hjaltason fæddist 23. júní klukkan 05:00.
Hann var 3378 grömm og 52 cm.


Ef við byrjum bara á byrjuninni þá gerðist þetta allt svona:

Á miðvikudaginn fórum við í mat til mömmu og pabba í Fannafold þar sem pabbi grillaði killer hamborgara fyrir okkur. Þá var hann Jökull pollrólegur inn í maganum á mömmu sinni og ekki leit út fyrir að nokkuð myndi gerast í bráð.

Hins vegar um hálf eitt leytið byrjaði ég að finna smá seiðing í bakinu og var þá vongóð um að kannski myndi ég fá hríðir daginn eftir eða svo. Þannig að við fórum bara að sofa. Rétt fyrir tvö vakna ég hins vegar með hríðir og það var í mesta lagi ein mínúta á milli þeirra. Við Hjalti panikkuðum dálítið hér heima þar sem að við vorum ekki búin að pakka niður í töskur. Við höfðum séð fyrir okkur langa bið hér heima í hríðunum og þá ætluðum við að pakka. En Hjalti þeystist um alla íbúð og henti fötum ofaní tösku á meðan ég grét af sársauka og bað hann að flýta sér.

Rétt upp úr þrjú vorum við svo komin upp á Hreiður þar sem hún Bobba ljósmóðir tók á móti okkur. Við fórum bara beint inn á fæðingarstofuna þar sem Bobba tilkynnti okkur að þetta myndi ekki taka langan tíma þar sem að ég var komin með níu í útvíkkun. Þá tók við tími þar sem að Hjalti og Bobba héldu í hendurnar á mér og sögðu mér að anda eðlilega og hætta þessum öskrum. Svo rúmlega fjögur byrjaði ég að remba krakkanum út og klukkan fimm skaust hann í heiminn. Alveg ótrúlegt skal ég segja ykkur.

Legvatnið var grænt þar sem að Jökli hafði tekist að kúka í það, þá var búið að kalla til barnalækni sem að saug upp úr lungunum á honum strax og hann kom í heiminn. Þá héldum við að allt væri búið en þá byrjaði mér að blæða og Bobba setti allt í gang. Á augabragði voru komnir fullt af læknum sem að redduðu málunum. Alveg ótrúlega fljót viðbrögð og okkur Hjalta leið allan tíman eins og að hlutirnir væru í öruggum höndum.

Í öllum þessum hamagangi var aumingja Jökull settur dálítið til hliðar og honum varð pínku kalt. Barnalæknirinn ákvað því að setja hann upp á vökudeild í hitakassa í ca. klukkutíma. Hjalti fékk að fylgja honum þangað og fylgjast með honum. Svo kom hann bara stálhraustur til baka.

Við komum svo öll saman heim á föstudags eftirmiðdeginum og hefur bara liðið rosalega vel síðan. Þar sem að ég missti svona mikið blóð var okkur sagt að taka því svolítið rólega svona fyrstu dagana, og það höfum við gert. Nánasta fjölskylda hefur kíkt reglulega á okkur og henni Kötlu þykir nú ekki leiðinlegt að vera orðin stóra frænka.