Við höfum sko verið dugleg í fjölskyldusamveru þessa helgina. Við byrjuðum föstudaginn á vikulegu matarboði í Fiskakvísl. Þangað buðum við Kötlu með okkur því hún gisti hjá okkur um nóttina. Við vorum komin í Fiskakvísl á undan Kötlu og það var mjög fyndið að fylgjast með Jökli bíða eftir henni. Í hvert sinn sem dyrabjallan hringdi þá öskraði hann af spenningi og hljóp til dyra kallandi nafnið hennar. Svo þegar þetta var ekki hún þá varð hann fyrir smá vonbrigðum.
Klukkan hálf sjö á laugardagsmorguninn skreið svo Katla upp í til okkar frekar spennt yfir því hvort Jökull færi ekki að vakna. Hann rumskaði svo klukkan sjö og þegar hann rak augun í hana þá var ekki aftur snúið og alveg eins gott að drattast bara öll á fætur. Við vorum því búin að borða morgunmat, klæða okkur og komin út klukkan 08:15. Við fórum því í grasagarðinn að gefa öndunum brauð og svo líka niður á tjörn. Jökull var pínu smeykur við ágenga fuglana en ekkert í líkingu við það hvað Hjalti og Katla voru hrædd. Ég var búin að bjóðast til þess að fara bara með Kötlu í fiðlutíma á laugardagsmorguninn svo Eirný og Gæi gætu aldeilis sofið út. En ég var búin að gleyma því að þetta er body pump tíminn minn og Hrafnhildar og Hjalti þarf að passa Ísak svo að Hrafnhildur komist. Þetta endaði því á því að Eirný og Gæi mættu frekar mygluð klukkan tíu og fóru með Kötlu í fiðlutíma og tóku Jökul með sér. Hjalti passaði svo Ísak og ég og Hrafnhildur þorðum að lyfta aðeins meira en síðast, samt miklu minna en allir aðrir.
Ég og Eirný kláruðum svo að gera rifsberjahlaup úr berjunum frá ömmu. 14 stórar krukkur takk fyrir, við erum mjög ánægðar með okkur, jafnvel þó að hlaupið hafi ekki alveg hlaupið. Þetta verður þá bara þykkur rifsberjasafi. Eftir allt rifsberjaerfiðið tókum við lítinn göngutúr um Hamrahverfið. Við rákumst á lítinn kjölturakka sem hafði greinilega verið hleypt einum út til að gera þarfir sínar. Ég var ekki lengi á mér, var akkúrat með poka með mér sem ég notaði til að veiða upp kúkinn. Við eltum svo hundinn heim til sín og ég tók kúkinn úr pokanum og setti hann pent á útidyratröppurnar. Ég er mjög ánægð með þetta framtak mitt. Við enduðum svo daginn á því að fara út að borða. Eða mér og Hjalta leið allavegana eins og að við værum alveg úti að borða þó að þetta hafi bara verið skyndibitastaðurinn Culliacan.
Í dag áttum við svo von á Bryndísi og fjölskyldu og Hrafnhildi og fjölskyldu í heimsókn. Við fórum að því tilefni í bakaríið Bakarameistarinn í Húsgagnahöllinni. Við ætluðum að kaupa brauð en urðum auðvitað að biðja um innihaldslýsingu út af bráðaofnæminu hans Jökuls. Hann má ekki fá brauð sem innihalda egg eða jurtaolíu/fitu. Við fengum ekki fallegar móttökur. Ein afgreiðslustúlkan hvæsti á okkur að það væri mjólk í öllum brauðunum þeirra. Ég sagði að mér væri alveg sama um mjólk, ég væri að spyrja um egg og jurtaolíu. Þá fletti hún möppunni með innhaldslýsingunni mjög fúl á svipinn. Við fundum loks eitt brauð sem við gátum keypt. En okkur fannst það ekki nóg svo við voguðum okkur að spyrja aðra stelpu um rúnnstykkin. Sú var alveg til í að hjálpa okkur en þegar hin sá að hún var að fletta möppunni fyrir okkur þá hvæsti hún á okkur að það væru egg í öllum rúnnstykkjunum. Þá fengum við nóg og sögðum bara að við færum eitthvað annað. En það var ekki svo auðvelt. Bakaríin í Hverafold og Miðgarði voru bæði lokuð vegna manneklu. Bakaríið Kornið í Spönginni var svo loks opið en við fengum engin brauð sem Jökull mátti borða en við keyptum þau samt. Heimsóknin tókst svo ljómandi vel. Jökull var alveg dolfallinn yfir Ísaki Þorra frænda sínum sem er alveg fjögra ára gamall.
Við drifum okkur svo beint í heimsókn til Rannveigar seinnipartinn þar sem Eirný, Katla, Gæi og Eydís voru líka. Það var nú eins og fermingarveisla. Kökur, vöfflur og ég veit ekki hvað og hvað. Við erum sem sagt ekki mjög svöng eftir helgina.
Jökull lærði í gær að segja Eirný, eða honum finnst hann allavegana vera að segja Eirný þegar hann segir ,,Annei". Svo í dag sagði hann nokkrum sinnum ,,Gæ" fyrir Gæi.