Jökull Hjaltason 23/06/05

þriðjudagur, desember 05, 2006

Bloggsins

Jæja, nú eru ár og dagar síðan við skrifuðum síðast á þetta blessaða blogg hans Jökuls. Það má nú að stórum hluta kenna netleysi um það, en einnig bloggleti okkar. Síðan síðast höfum við farið tvisvar í sumarbústað og einu sinni til Akureyrar yfir helgi. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með Jökli í kringum afa hennar Völu. Honum fannst langafi sinn mjög spennandi og var alltaf að tékka á honum, hvort hann væri ekki örugglega á sínum stað, sýndi honum hluti og gerði trix til að vekja á sér athygli.

Ísak átti eins árs afmæli þann 28. nóvember. Við fórum að sjálfsögðu í afmælisveislu þar sem var heilmikið um eggjalausar kræsingar. Það þarf nú samt að elta Jökul út um allt því þrátt fyrir að hann sé ekki að troða í sig eggjum þá prílar hann upp á allt, reynir að toga í skottið á Skrámi eða stunda önnur áhættuatriði.

Mamma og pabbi Völu voru að koma heim frá Ástralíu á föstudaginn eftir að hafa verið þar í 80 daga nákvæmlega (Katla taldi). Jökull tók þeim fagnandi og var ekkert feiminn eða hissa enda er hann búinn að vera fylgjast með þeim í gegnum wecamið allan tímann.

Nú erum við í öða önn að plana jólavertíðina, hvar við eigum að vera hvenær o.s.frv. þannig að ef þið viljið hitta okkur eitthvað og taka ólsen eða dást að skreytingunum okkar þá pantiði bara tíma. Að lokum mynd af Jökli að pósa með afmælisdrengnum...

laugardagur, október 28, 2006

Tveir jaxlar

Nú er Ísak í pössun hjá okkur á meðan foreldrar hans eru í brúðkaupi. Hann kom kl. 3 í dag og þeir frændur eru búnir að hafa það sprellfjörugt. Ísak eltir Jökul og hlær og svo öfugt. Svo detta þeir í að dunda sér hlið við hlið inn á milli. Alveg ótrúlega létt að vera með þá tvo því þeir skemmta hvor öðrum. Það er hins vegar alveg heilt fyrirtæki að koma þeim út úr dyrunum. Við Vala vorum alveg sveitt að tína allt til sem þurfti að fara með, skipta á og klæða þá. Þeir voru alveg í stuði og ekkert á því að fara í föt eða vesenast eitthvað. Algerir kálormar. Við fórum nefnilega í mat í Fannafoldina áðan, en Magna móðursystir Völu eldaði ofan í fjölmennt lið nánustu ættingja. Ísak var þarna að hitta fullt af nýju fólki en hélt sinni stóísku ró allan tíman og skipti ekki skapi. Þeir hámuðu í sig dýrindis fisk og ávexti í eftirmat. Núna eru þeir svo sofnaðir í sínu hvoru herberginu og vonandi pípa þeir ekkert í nótt.

Ísak er annars byrjaður hjá Kristjönu, sömu dagmömmu og Jökull er hjá. Það verður glæsilegt að hafa þá saman þar og örugglega skemmtilegt fyrir Ísak að hafa einhvern sem hann þekkir á meðan hann er að venjast nýjum stað. Jökull var voða góður við Ísak þegar hann kom í fyrsta skipti, klappaði honum mikið og gaf honum dót. Þegar hann svo kom í næsta skipti varð hann hins vegar aðeins að sýna að hann hefði nú komið þarna fyrst og ætti svæðið. Vildi ekkert að Kristjana sýndi Ísak of mikla athygli. Verður spennandi að fylgjast með þessum gaurum þarna saman.

Annars er það að frétta af Jökli að hann er að fá tvo jaxla. Fólk var farið að hafa orð á þvi að hann hlyti að vera fá fleiri tennur því hann slefaði svo mikið en við héldum nú ekki enda hefur hann slefað á við fjóra frá fæðingu. En svo þegar okkur datt loksins í hug að kíkja upp í hann til að vera alveg viss voru bara tveir gaurar að gægjast niður. Hann hefur ekkert kvartað undan þessu þannig að við vorum bara alveg grandalaus.

Það nýjasta er síðan að syngja. Jökli finnst voða gaman að syngja og dansa þessa dagana (ekki lengi fyrir Suzukinámið að hafa áhrif) og dregur "bambam" bókina oft fram og vill að maður syngi með honum. Hann kallar hana þetta því lagið bimbirimbirimbamm er í henni og það er uppáhalds ásamt höfuð, herðar, hné og tær. Hann kann að gera höfuð og tær en sleppir herðum og hnjám. Hann kann síðan andlitshreyfingar allar en kemst yfirleitt ekki lengra en augu því hann potar svo fast í þau að það er sárt!

Bless í bili, tvö ný orð eru "beia" og "ba" (bleyja og bað).

sunnudagur, október 22, 2006

Aðgerð og Zuzuki

Aðgerðin á fimmtudaginn var bara ekkert mál að mati foreldra. Jökull var svæfður og við fengum að vera hjá honum þá, svo fórum við út og biðum á biðstofunni í tíu mínútur. Svo var allt búið. Jökull tók þessu öllu mjög vel. Var alveg eins og hann átti að sér að vera klukkutíma eftir aðgerðina. Upphaflega átti hann að fá rör, en læknirinn ákvað að stinga bara á og taka nefkirtilinn og lét það nægja. Við erum voða ánægð með að sleppa við rörin. Ég var svo heima með Jökul á föstudeginum samkvæmt ráðleggingum frá lækninum. Hann var nú svo hress að það var nánast algjör óþarfi, en við nutum þess bæði alveg í tætlur.

Jökull lærði tvö ný orð í gær. Hann segir ,,gamma" fyrir ,,gaman" og ,,attilæi" fyrir ,, allt í lagi". Voða sætt í fyrstu fimmtíu skiptin.

Helgin hefur svo verið voða notaleg hjá okkur, ég er í raun búin að vera heima í fjóra daga og gæti alveg gert það oftar. Á föstudaginn fórum við í fjölskyldukvöldverðinn í Fiskakvísl eins og alla föstudaga. Á laugardaginn fórum við svo með Hrafnhildi og Ísak í Nauthólsvík í sólinni og svo elduðum við öll saman. Í dag fórum við svo í göngutúr og reyndum að vekja Fanneyju en tókst ekki. Svo komu Karen, Einar, Daníel Máni, Steina, Tóti og Ísold í kaffi til okkar. Það var voða fjör. Nema Jökull varð svolítið skotinn í Ísold og sýndi það með því að rífa allt dótið af henni sem hún var að leika sér með.

Jökull (og Hajlti) er byrjaður í Zuzuki tónlistarkennslu. Vanalega geta börn ekki byrjað fyrr en þau eru orðin 4 ára og Katla byrjaði í fyrra að læra á fiðlu. Eirný sendi okkur svo auglýsingu um Zuzuki nám fyrir börn 0-3 ára. Þannig að við skráðum bara piltinn. Þetta er akkúrat klukkan þrjú á miðvikudögum þegar Hjalti er hvort eð er búinn að sækja hann og er bara að finna upp á einhverju skemmtilegu fyrir þá að gera. Það er farið í alls konar tónlistarleiki og það var meira að segja leikið með bolta. Aumingja Jökull átti erfitt með að einbeita sér að einhverju öðru eftir að hann sá boltann. Hann fór meira að segja í smá fílu þegar hann fékk ekki að leika einn með hann.

Mamma og pabbi hafa það voða gott í Ástralíu og við tölum oft við þau gegnum msn með web cam. Við tölum við þau að morgni hér og þá er komið kvöld hjá þeim, eða að við tölum við þau að kvöldi hér og þá er kominn morgunn næsta dag hjá þeim. Jökull elskar að tala við þau og nú eru allar tölvur ,,amma".

Þá ætla ég bara að skella inn nýjum myndum.

þriðjudagur, október 10, 2006

Kaupmannahöfn og Jökull í pössun.

Á miðvikudaginn lagði ég eldsnemma af stað til Kaupmannahafnar á norrænu stoðtækjafræðingaráðstefnuna. Aðfaranótt þriðjudagsins varð Jökull veikur, Fékk hita og varð að vera heima. Þar sem ég var að fara út á miðvikudeginum var svo mikið að gera hjá mér að það var ekki séns að ég væri heima með hann. En Hjalti var því heima þriðjudag og miðvikudag. Á fimmtudaginn fór Jökull svo í pössun til Eirnýjar, Gæja og Kötlu. Hjalti fór svo bara einn heim og var aleinn í kotinu það kvöld. Hann fór svo með vélinni eldsnemma á fösudagsmorgun og var kominn til Köben um hádegi. Ég kláraði á ráðstefnunni um þrjú og þá fórum við að sjálfsögðu í búðir. Þrátt fyrir að ég hafði nú misst mig aðeins í HogM á miðvikudeginum. Við nutum svo bara helgarinnar út í ystu æsar. Fórum fínt út að borða, versluðum, röltum um og slöppuðum af. Á laugardeginum var svo árshátíð Stoðar. Show og matur. Rosalega gaman. Við fórum svo aftur heim á sunnudagskvöldinu. Við lentum hér rétt eftir miðnætti og því var það ekki í stöðunni að ná í Jökulinn okkar. Morguninn eftir var heldur engin miskun. Við drifum okkur bara í skóla og vinnu og Eirný fór með hann til dagmömmunar. Við sáum hann svo ekkert fyrr en klukkan hálf tvö þegar að við fórum með hann til háls- nef- og eyrnalæknis. Það voru miklir fagnaðarfundir. Jökull vissi ekki hvort hann ætti að faðma mig eða Hjalta, svo hann faðmaði okkur bara bæði. Svo kúrði hann bara í fanginu mínu og vinkaði dagmömmunni. Hann hefur svo verið svolítið skrýtinn síðan við komum, er greinilega enn svolítið óöruggur. Er svolítið óþekkur við okkur og vill fá mikla athygli. Hann fór að hágráta þegar hann fór í útifötin í morgun. Ég fer aldrei með hann til dagmömmunnar og hann vildi því bara vera hjá mér í von um að ég færi ekkert með hann, yrði bara heima að leika. En það jafnaði sig fljótt þegar hann var kominn á staðinn.

Hann var samt rosa ánægður í pössuninni. Var hjá Eirnýju og þeim fyrst. Svo sóttu Hrafnhildur og Maggi hann á föstudeginum og voru með hann fram að kvöldmat. Þá sótti Gæi hann (Eirný var í vinnuskemmtiferð) svo var hann bara í Barmahlíðinni fram á mánudag. Núna segir hann bara ,,katla, katla, katla" Svo ef ég spyr hann hvar Eirný sé þá segir hann bara ,,Gæi". Hann harðneitar ennþá að segja Hrafnhildur, Maggi eða Ísak. Þetta kemur allt saman. Hrafnhildur talmeinafræðingurinn fylgist vel með honum og segir okkur að hann sé alveg á réttu róli hvað málþroska varðar. Það er mjög heppilegt að hafa hana með þessa menntun því hjá lækninum kom í ljós að hann þarf að fara í röraaðgerð og láta taka nefkirtilinn. Hann hefur verið með vökva í eyrunum mjög lengi núna og Baldur heimilislæknir hefur fylgst mjög vel með þessu og nú var svo komið að hann vildi að e-ð yrði gert. HNE-læknirinn var alveg sammála og Jökull fer í aðgerðina á fimmtudaginn í næstu viku. Við erum smá kvíðin en erum samt alveg sátt við þetta. Hrafnhildur vildi meina að þetta væri nauðsynlegt til að hefta ekki málþroskann.

sunnudagur, október 01, 2006

Sunnudagur

Alltof langt síðan við höfum skrifað síðast. Á maður ekki alltaf að byrja blogg svona? Við sitjum inni í skjóli frá sólinni núna og bíðum eftir að Jökull vakni. Hann er greinilega eftir sig eftir húsdýragarðsferðina í morgun því hann er búinn að sofa í tvo tíma sem er óvenju langt. Við fórum semsagt í húsdýragarðinn í morgun og það er skemmtilegasta ferðin þangað hingað til. Jökull sýndi dýrum og mönnum mikinn áhuga og sérstaklega hænsfuglunum, föður sínum til mikils ama. Hann skríkti á þær og gaggaði og að lokum gerði ein hænan sig líklega til að hlaupa hann niður en Jökull bara hló að henni. Hann hefur semsagt ekki erft fuglahræðslu mína sem er gott. Við sáum líka þegar selunum var gefið, klöppuðum svínunum og lékum við hreindýrin og Jökli fannst þetta allt jafn gaman.

Í gær eyddum við deginum í Fiskakvísl, fórum í gönguferð um Elliðaárdalinn og Jökull lék við ömmu sína. Hann er alltaf að verða meiri og meiri dundari, getur gleymt sér í einhverjum spennandi leikjum sem hann finnur upp. Það gerist samt reglulega að hann lítur upp úr leiknum og kallar "Kat-la?" Í gær var þetta búið að gerast svo oft að við neyddumst til þess að bjóða Kötlu og Gæa, ásamt Eydísi, í mat. Eirný er í London og var því ekki boðið. Jökull var að sjálfsögðu mjög ánægður með það og var eiginlega í stanslausu hláturskasti frá því Katla kom og þar til hún fór. Þau fóru m.a. í bað saman og leiddist það ekki.

Jökli leiðist heldur ekki að vera með Ísak þessa dagana enda enginn sem hlær jafn innilega að stórkostlegum bröndurum hans. Vala var með þá báða hérna heima á föstudagskvöldið og það er nú eiginlega léttara en að vera með annan þeirra því þeir eru farnir að leika sér svo mikið saman. Þarf bara að passa að Jökull setjist ekki á Ísak í einu af væntumþykjuköstunum. Ísak skemmti sér konunglega í pössuninni, stóð og stóð og stóð og sýndi hvað hann var stór á meðan hann stóð, Völu til mikillar armæðu þar sem hún vildi að hann héldi sér í.

Þetta var nú helgin afturábak hjá okkur. Þangað til næst, veriði bless.

fimmtudagur, september 28, 2006

Myrkvun

Við sitjum nú í myrkrinu. Við sjáum nú ekki alveg yfir borgina en nóg samt til að sjá myrkrið. Mér tókst meira að segja að slökkva útiljósin í stigaganginum til að hafa þetta nú sem rómantískast. Jökull bara steinsefur inni í rúmi og fattar ekkert.

Við fórum með Jökul til læknis um daginn því hann hefur alltaf verið með smá vökva í eyrunum sem búið er verið að fylgjast með. Hann er enn með vökvann þrátt fyrir að við verðum lítið vör við það. Hann á því að fara til háls-, nef- og eyrnalæknis. Heimilislæknirinn heldur að hann sé kannski með of stóra nefkirtla. Það gæti nú alveg passað því hann hefur hrotið alveg frá fyrsta degi.

Jökull er að taka út mikinn þroska þessa dagna. Hann hermir mikið eftir manni og er búinn að læra að syngja með. Ef maður syngur ,,afi minn og...." þá segir hann ,,ammana" . Svo segir hann ,,gó" fyrir ,,skó" og ef maður spyr hvort við eigum að fara út þá hleypur hann inn í forstofu og sækir skóna sína. Hann og Ísak eru líka á fullu að uppgötva hvorn annann. Þeir eiga það til að skríða báðir undir borð og sitja þar og hlægja til skiptist. Annars er öskurleikurinn uppáhalds leikurinn þeirra. Þá sitja þeir á gólfinu og öskra eins hátt og þeir geta til skiptist. Strákapörin eru bara rétt að byrja.

Annars er hún Katla alltaf í uppáhaldi og ef Jökull bara vissi og skildi að hann fer alveg að fara í pössun í Barmahlíðina þá væri hann ekkert ósáttur við það. Nánast á hverjum morgni vaknar hann og kúldrast svolítið á milli okkar, svo er eins og hann muni allt í einu eftir Kötlu og byrjar að segja nafnið hennar. Hann prófar stundum jafnvel að kalla á hana, bara svona til að athuga hvort hún hafi nokkuð komið á meðan hann svaf.

sunnudagur, september 17, 2006

Við höfum sko verið dugleg í fjölskyldusamveru þessa helgina. Við byrjuðum föstudaginn á vikulegu matarboði í Fiskakvísl. Þangað buðum við Kötlu með okkur því hún gisti hjá okkur um nóttina. Við vorum komin í Fiskakvísl á undan Kötlu og það var mjög fyndið að fylgjast með Jökli bíða eftir henni. Í hvert sinn sem dyrabjallan hringdi þá öskraði hann af spenningi og hljóp til dyra kallandi nafnið hennar. Svo þegar þetta var ekki hún þá varð hann fyrir smá vonbrigðum.

Klukkan hálf sjö á laugardagsmorguninn skreið svo Katla upp í til okkar frekar spennt yfir því hvort Jökull færi ekki að vakna. Hann rumskaði svo klukkan sjö og þegar hann rak augun í hana þá var ekki aftur snúið og alveg eins gott að drattast bara öll á fætur. Við vorum því búin að borða morgunmat, klæða okkur og komin út klukkan 08:15. Við fórum því í grasagarðinn að gefa öndunum brauð og svo líka niður á tjörn. Jökull var pínu smeykur við ágenga fuglana en ekkert í líkingu við það hvað Hjalti og Katla voru hrædd. Ég var búin að bjóðast til þess að fara bara með Kötlu í fiðlutíma á laugardagsmorguninn svo Eirný og Gæi gætu aldeilis sofið út. En ég var búin að gleyma því að þetta er body pump tíminn minn og Hrafnhildar og Hjalti þarf að passa Ísak svo að Hrafnhildur komist. Þetta endaði því á því að Eirný og Gæi mættu frekar mygluð klukkan tíu og fóru með Kötlu í fiðlutíma og tóku Jökul með sér. Hjalti passaði svo Ísak og ég og Hrafnhildur þorðum að lyfta aðeins meira en síðast, samt miklu minna en allir aðrir.

Ég og Eirný kláruðum svo að gera rifsberjahlaup úr berjunum frá ömmu. 14 stórar krukkur takk fyrir, við erum mjög ánægðar með okkur, jafnvel þó að hlaupið hafi ekki alveg hlaupið. Þetta verður þá bara þykkur rifsberjasafi. Eftir allt rifsberjaerfiðið tókum við lítinn göngutúr um Hamrahverfið. Við rákumst á lítinn kjölturakka sem hafði greinilega verið hleypt einum út til að gera þarfir sínar. Ég var ekki lengi á mér, var akkúrat með poka með mér sem ég notaði til að veiða upp kúkinn. Við eltum svo hundinn heim til sín og ég tók kúkinn úr pokanum og setti hann pent á útidyratröppurnar. Ég er mjög ánægð með þetta framtak mitt. Við enduðum svo daginn á því að fara út að borða. Eða mér og Hjalta leið allavegana eins og að við værum alveg úti að borða þó að þetta hafi bara verið skyndibitastaðurinn Culliacan.

Í dag áttum við svo von á Bryndísi og fjölskyldu og Hrafnhildi og fjölskyldu í heimsókn. Við fórum að því tilefni í bakaríið Bakarameistarinn í Húsgagnahöllinni. Við ætluðum að kaupa brauð en urðum auðvitað að biðja um innihaldslýsingu út af bráðaofnæminu hans Jökuls. Hann má ekki fá brauð sem innihalda egg eða jurtaolíu/fitu. Við fengum ekki fallegar móttökur. Ein afgreiðslustúlkan hvæsti á okkur að það væri mjólk í öllum brauðunum þeirra. Ég sagði að mér væri alveg sama um mjólk, ég væri að spyrja um egg og jurtaolíu. Þá fletti hún möppunni með innhaldslýsingunni mjög fúl á svipinn. Við fundum loks eitt brauð sem við gátum keypt. En okkur fannst það ekki nóg svo við voguðum okkur að spyrja aðra stelpu um rúnnstykkin. Sú var alveg til í að hjálpa okkur en þegar hin sá að hún var að fletta möppunni fyrir okkur þá hvæsti hún á okkur að það væru egg í öllum rúnnstykkjunum. Þá fengum við nóg og sögðum bara að við færum eitthvað annað. En það var ekki svo auðvelt. Bakaríin í Hverafold og Miðgarði voru bæði lokuð vegna manneklu. Bakaríið Kornið í Spönginni var svo loks opið en við fengum engin brauð sem Jökull mátti borða en við keyptum þau samt. Heimsóknin tókst svo ljómandi vel. Jökull var alveg dolfallinn yfir Ísaki Þorra frænda sínum sem er alveg fjögra ára gamall.

Við drifum okkur svo beint í heimsókn til Rannveigar seinnipartinn þar sem Eirný, Katla, Gæi og Eydís voru líka. Það var nú eins og fermingarveisla. Kökur, vöfflur og ég veit ekki hvað og hvað. Við erum sem sagt ekki mjög svöng eftir helgina.

Jökull lærði í gær að segja Eirný, eða honum finnst hann allavegana vera að segja Eirný þegar hann segir ,,Annei". Svo í dag sagði hann nokkrum sinnum ,,Gæ" fyrir Gæi.