AFMÆLI
Gaman að eiga afmæli þrjá daga í röð, það fannst Jökli allavega. Hann átti afmæli föstudaginn 23. júní og átti bara góðan dag með okkur í sumarfríi. Við bökuðum tvær kökur og vorum svo bara alveg róleg í afmælisundirbúningi fyrir helgina. Öll fjölskyldan eins og hún leggur sig var nefnilega svo frábær að baka alveg heilan helling fyrir okkur. Við klæddum Jökul nú bara í ný föt sem við keyptum á hann og létum það nægja sem afmælisgjöf. Við fórum svo í mat í Fiskakvísl því Halldór var að útskrifast.
Á laugardeginum var svo afmælisboð fyrir ættingja. Voðalega gaman. Rannveig og fjölskylda voru reyndar heiðursgestir þar sem að þau voru einu gestirnir sem ekki þurftu að mæta með köku með sér. Jökull fékk fullt af frábærum gjöfum auðvitað. Föt, þroskaleikföng, harðspjaldabækur sem hann getur lesið samhliða því að éta þær. Hann fékk líka sparkbíl og bóndabíl og vörubíl og hluti sem gefa frá sér hljóð og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar Stine, Atle og Daniel voru hér í heimsókn skildu þau eftir afmælisgjöf fyrir Jökul sem við geymdum fram að afmælisdeginum. Gjöfin reyndist vera inniróla. Við fengum því pabba í heimsókn á laugardagsmorgninum og hann hjálpaði okkur að hengja upp róluna inni í barnaherberginu. Rosalegt stuð. Eftir afmælið fórum við svo með Jökul í næturpössun til Eirnýjar, Gæja og Kötlu og fórum fyrst í útskriftarveislu til Freyju og Höskuldar og svo í útskriftarveislu til Hildar Rakelar. Jökull greyið var nú reyndar með hita en var samt alls ekkert leiður yfir því að fá að gista í Barmahlíðinni.
Á sunnudeginum náðum við svo í Jökul rétt í tæka tíð fyrir þriðja afmælisdaginn. MH vinkonurnar, Grafarvogsstelpurnar og börn mættu í þetta skiptið og það var mjög gaman. Allt öðruvísi veisla en daginn áður því nú voru svo mörg börn og allir fengu að sjálfsögðu að prófa róluna. Aftur fékk Jökull fullt af frábærum gjöfum. Um kvöldið vorum við svo boðin í enn aðra veislu. Guðni var að vígjast til prests um daginn og hélt boð um kvöldið. Dísa og Halldór sátu hjá Jökli á meðan.
Á mánudeginum átti svo að vera fyrsti dagmömmudagurinn eftir sumarfrí en þar sem að Jökull var enn með hita þá frestaðist það um einn dag. En Jökli leiddist nú ekki að hanga heima með allt nýja dótið sitt. Á þriðjudeginum fór hann svo loks til dagmömmunar og þar fékk hann enn eina afmælisgjöfina. Hann var rosalega glaður að hitta aftur krakkana og leit varla við Hjalta þegar hann kom að sækja hann.