Allt gott af okkur að frétta. Gaman frá því að segja að ég er að fara í sumarfrí eftir nákvæmlega eina viku og verð í þrjár vikur, svo fer ég í tvær vikur í lok júlí. NÆS. Jökull er kominn í sumarfrí og Hjalti er með hann á daginn. Þar sem ég er að fara í sumarfrí þá sé ég þá nánast ekki neitt, því ég vinn frá sjö á morgnanna til sex eða sjö á kvöldin. Ég er svona að reyna að ganga frá öllum lausum endum áður en ég fer í frí. Við reiknum nú með því að fara til afa á Akureyri en annað erum við ekki búin að plana, ætlum bara að slappa af og njóta lífsins, fara í sund og göngutúra. Það er að segja ef að veturinn verður búinn í júní.
Stine, Atle og stjúpstrákurinn þeirra Daníel eru farin frá okkur. Jökull var mjög hrifin af Daníel og Daníel virtist alveg skilja að Jökull væri minni og að hann þyrfti að vera góður við hann. Við ætluðum öll saman í húsdýragarðinn á laugardeginum en Jökull greyið fékk bullandi hita og var heima hjá Hjalta á meðan við fórum og Eirný og Katla komu með okkur. Þetta var gaman en ógeðslega, viðbjóðslega kalt. Sem betur fer vorum við með heitt kakó á brúsa. Þau voru rosalega ánægð með ferðina þrátt fyrir að Atle hafi lent í smá óhappi. Við keyrðum Krýsuvíkurleiðina og kíktum á hverina. Svo á leiðinni heim sáum við fiskitrönur sem Atle langaði svo að taka myndir af. Þar var allt í drasli og honum tókst að stíga á ryðgaðan nagla sem fór á bólakaf í fótinn. Við fórum því til mömmu hans Hjalta (Hjalti og Jökull voru þar) og gátum sótthreinsað sárið og búið um það. En Atle neitaði að eyða seinasta deginum á Íslandi á læknavaktinni til að fá stífkrampasprautu og kaus heldur að haltra um miðbæ Reykjavíkur. En hann lofaði að fá sprautuna þegar hann kæmi heim.
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn í Vegghömrum 7 ber nafnið Asko og er hágæða norsk uppþvottavél. Við erum mjög hamingjusöm og hér með eru þið öll boðin í kaffi og mat og þið þurfið ekkert að vaska upp eftir ykkur. Eirný og Gæi greyin kunna aldrei við annað en að vaska upp eftir sig. En þar sem að Eirný reddaði okkur þessari vél á spottprís þá þarf hún aldrei meir að ganga frá eftir sig. Við látum bara Gæja ganga frá eftir hana. Hehe.
Katla fékk að gista hjá okkur í nótt. Eirný og Gæi voru að fara í vinnupartý með hippa þema. Þau litu agalega út, þau fengu saumavélina lánaða til að gera buxurnar hans Gæja útvíðar. En Jökli fannst það frekar mikið sport að hafa Kötluna sína hjá sér, eða ka, kall eins og hann kallar hana. Hann talar voðalega mikið þó við skiljum hann minnst lítið. Hann segir alltaf kalli-kalli, svo segir hann mamma og pabba og svo segir hann í sífelli gamm (skamm). Við erum nú ekki akkúrat ánægð með það, hljómar eins og að við séum alltaf að skamma hann. En við svo sem skömmum hann ansi mikið, en hann var fljótur að tileinka sér tæknina inn-um-eitt-eyrað-út-um-hitt. En við segjum frekar óó, má ekki. Hann er orðinn ansi mikil frekja og á það til að kasta sér aftur þegar maður heldur á honum til að sýna óánægju sína og grenja eins og stunginn grís til að undirstrika það. En annars er hann kominn með sex stykki tennur og vill bara borða sama mat og við, fyrir utan grænmetið að sjálfsögðu. Hann stingur sko ekki hverju sem er upp í sig og við höfum voða litlar áhyggjur af því að hann tíni e-ð upp úr gólfinu og éti það. Reyndar erum við svona pínu stressaðari yfir hlutum á gólfinu af hræðslu við að það sé matvæli sem innihaldi egg eða hnetur. Nú lesum við aftan á alla pakka áður en þeir lenda í innkaupakörfunni. En þetta er nú samt ekkert erfitt, egg eru svo dýrt hráefni að það er nánast alltaf reynt að komast hjá því að nota egg.