MIKIÐ GEGNIÐ Á!
Já það má nú segja að það hafi mikið gengið á hjá okkur seinustu daga. Eftir langt og gott páskafrí snérum við bara aftur í vinnu, skóla og dagvistun og létum okkur hlakka til göngutúra og sundferðar á sumardaginn fyrsta. En það fór nú eitthvað á annan veg. Málið var að aðfaranótt miðvikudagsins vaknaði ég með mikla magaverki en var nú ekkert að stressast mikið, hélt bara að þetta myndi líða hjá. Ég held alltaf langar ræður um hvað ég þoli ekki fólk sem fari ekki til læknis þó að það sé við dauðans dyr og segir bara að þetta líði hjá af sjálfu sér. En svo þegar að Hjalti reyndi að tala mig inn á að fá næturlækni þá hélt ég nú ekki. Ég ætlaði ekki að fá einhvern næturlækni heim til að segja mér að ég væri með loft í maganum og ætti bara að reyna að prumpa. Þannig að ég þráaðist við og reyndi bara að hreyfa mig ekkert það sem eftir var nætur. Um morguninn gat ég nú staulast fram úr og klætt mig (eða Hjalti klæddi mig reyndar). Ég sá nú að ég kæmist ekki í vinnuna, enda kominn með dúndrandi hausverk í ofanálag, og hringdi mig inn veika. Jökull átti að fara í tíu mánaða skoðun og ég fór með þeim og grenjaði í góðu hjúkkunni okkar henni Hrönn sem bað lækni að líta á mig. Sú sagði mér nú að það gæti verið vont að vera með loft í maganum en ekki svona vont og hún hringdi á Landspítalann og sagði að ég væri á leiðinni. Jökull fór nú í skoðun á meðan á þessu stóð og allt leit vel út þar. Hann er orðinn 75 cm 9450 gröm og heldur því kúrfunni sinni. Hann er reyndar með vökva í eyrunum ennþá og við hittum lækninn aftur eftir viku og metum áframhaldið þá. En við keyrðum svo Jökul til dagmömmunar og ég sat í framsætinu og bað Hjalta að keyra hratt og varlega á meðan ég ældi. Ég fékk svo bara rúm á bráðamóttökunni og þá hófst biðin. Við biðum og biðum og biðum og biðum. En fengum samt rosalega góða þjónustu og okkur var alltaf sagt eftir hverju við vorum að bíða. Það var haldið að þetta væri botnlanginn en samt var ekki alveg nógu margir punktar sem studdu þá kenningu. Ég til dæmis var alveg til í að borða (en var samt látin fasta) en maður á víst að vera lystarlaus ef maður er með botnlangabólgu. Svo var verkurinn ekki á bara einum stað. Við létum alla snúast í kringum okkur. Eirný sótti Jökul og Hjördís sem er hjá okkur í eina viku núna (sem betur fer) gat passað hann um kvöldið. Um sjö leytið var svo ákveðið að gera bara botnlangaaðgerð. Þegar þarna var komið sögu var ég með þvílíkt samviskubit yfir því að eiga að fara í aðgerð því það er svo týpísk ég að botnlanginn væri ekki bólginn, ég reyndi því að telja læknunum trú um að þetta væri bara loft, en þau létu sér ekki segjast. Þegar ég svo kom úr aðgerðinni var ég nú frekar vönkuð uppi á vöknun og babblaði heilan helling sem ég man ekkert eftir. Nema að ég man eftir að það var einhver karl við hliðina á mér sem hraut svo mikið og ég sagði að skurðlæknarnir hefði nú átt að taka úr honum nefkirtlana í leiðinni. Ég var samt sú eina sem hló að þessu. En botnlanginn hafði nú ekki verið bólginn eins og mig grunaði. En ég var með bólgur á móðurlífinu og var látin vera á spítalanum til föstudags og fékk þá hrossaskammt af sýklalyfjum í æð. Þetta fór sem sagt allt voða vel og mér líður bara ljómandi. Hjalti, Jökull, Hjördís, Eirný, Gæi, Katla. Halldór, Dísa, Hrafnhildur og Daði komu öll að heimsækja mig (mamma og pabbi eru á Spáni og koma heim um helgina) og ég í raun náði ekki einu sinni að láta mér leiðast þarna á þessum stutta tíma. Nú erum við því bara öll heima og Hjördís snýst í kringum okkur. Mér líður bara mjög vel og má fara í vinnuna á mánudaginn en bara taka því aðeins rólega.
En Jökull er bara rosa flottur gaur þessa dagana, fjórða tönnin alveg að verða komin niður og hann reynir eins og hann getur að bíta mann. Hann vill bara standa og standa og standa, nær að standa upp við hvað sem er og heldur sér bara með annari hendinni og reynir jafnvel að príla. En það sem okkur finnst allra besta trixið þessa dagana er að hann er búinn að læra að sjúga slefið aftur inn í munninn þegar það byrjar að streyma. Ótrúlegur kostur. Hann er svo farinn að segja aftur mamma. Hann var á mótþróaskeiði í heilan mánuð og þegar að ég sagði mamma þá sagði hann babba. En nú segir hann bara mamma við mig.