Hvaða vitleysa er í gangi hjá okkur?!!?
Þetta sagði Katla á laugardagskvöldið þegar mikið hafði gengið á hjá okkur þann daginn. Hér kemur sagan af þessari vitleysu:
Við byrjuðum daginn uppi í Stoð þar sem að ég ætlaði að yfirdekkja nýju-notuðu borðstofustólana okkar. Þegar við vorum komin upp í Stoð föttuðum við að við höfðum gleymt sjálfum stólunum. Ekkert við því að gera en að ná bara í þá. Svo fórum við heim og Jökull svaf smá lúr. Þá fórum við í heimsókn til Bryndísar frænku hans Hjalta. Þar voru að sjálfsögðu börnin hennar Freyja og Ísak Þorri. Svo voru Hrafnhildur og Maggi með Ísak þarna líka. Freyja er fimm dögum yngri en Jökull en miklu þyngri. Ég ákvað að lyfta þessari snúllu og átti svo innilega ekki von á öllum þessum þyngslum að ég hreinlega prumpaði af áreynslunni. Við fórum svo beint til Eirnýjar, Gæja og Kötlu og elduðum með þeim pizzu. Jökli tókst að detta fram fyrir sig á hillu og fékk eina rönd af marblett þvert yfir ennið. Rosa smart en þetta var nú alls ekkert alvarlegt. Okkur tókst að gefa honum smá graut að borða en hann var búinn að vera lystarlaus og með niðurgang síðan á fimmtudaginn. Svo þegar pizzan var loksins tilbúin og við öll búin að koma okkur fyrir upp í nýja fína sófanum hennar Eirnýjar þá tók Jökull sig til og ældi eins og hann væri að leika í hryllingsmynd. Það stóð bara strókurinn út úr honum. Greyið litla sem sagt kominn með ælupesti. En þar sem að hann hafði skollið á höfuðið stuttu áður þá hringdum við á 1770, bara svona til að láta sannfæra okkur að þetta væri nú ekkert tengt. En þar var okkur nú reyndar ráðlagt að fara með hann á slysó. Við hlýddum því þó við værum nú ekkert áhyggjufull um að þetta væri heilahristingur. Læknirinn sem hitti okkur var alveg sammála því og gat tjáð okkur það að hann væri bara með veirusýkingu í maganum sem gæti varað mjög lengi hjá ungabörnum. En svona til að vera alveg örugg þá áttum við ekki að leyfa honum að fara alveg strax að sofa. Við ákváðum því bara að drífa okkur aðeins aftur til Eirnýjar og borða e-ð af þessari pizzu sem við svo skyndilega mistum lystina á fyrr um kvöldið. Þegar við komum þangað fór ég að hita vatn í blísturstekatlinum þeirra, þá að sjálfsögðu kúkaði pilturinn. Í miðri bleyjuskiptingu fór svo þessi blessaði blístursketill að blístra, ég vissi ekki hvað var að gerast og hélt að það væri skollið á óveður. Ég stökk því á fætur til að kíkja út um gluggan og tókst ekki betur en svo að ég hoppaði beint í kúkableyjuna. Ég var því öll í ælu á buxunum og með kúk á sokkunum. Við veltumst öll um af hlátri og Katla hrópaði upp yfir sig í hláturskasti ,,hvaða vitleysa er í gangi hjá okkur!". Við kláruðum svo pizzuna og Jökull steinsofnaði yfir myndinni Herbie.
En nú er tæp vika síðan Jökull fékk niðurganginn og þetta virðist vera á réttri leið. Hann ældi reyndar í gærkvöldi en hefur verið mun duglegri að borða í dag en hina dagana. Við búumst nú við því að senda hann til dagmömmunar á morgun. Reyndar er ég e-ð hálf slöpp í dag, óglatt og kalt. En ég er búin að ákveða að það líði hjá eftir sirka klukkutíma eða svo.
Nýjar myndir í albúmið ,,10. mánuðurinn", fyrir áhugasama.