Vinkar bless og segir datt
Jökull er nú sko búinn að læra að segja datt, datt, datt og aftur datt. Hann sagði meira að segja datt þegar ég missti veskið mitt í gólfið í búðinni. Svo finnst honum eins og gefur að skilja mjög sniðugt að henda dótinu í gólfið með miklu afli og segja svo voðalega hissa ,,datt!". Svo lærði hann að vinka og segja dædæ. Hann er orðinn svo öflugur í því að hann byrjar að vinka um leið og einhver nær í úlpuna sína. Hann segir líka oft hátt og snjalt og voðalega karlalega ,,HA!". Svo er hann ekkert búinn að gleyma mamma og dada, en sönglar nú mest mamamama. Hann rembist og rembist við að læra að skríða. Hann getur tosað sig áfram á maganum og kann að fara upp á fjórar fætur, en bara í eitt augnablik og svo dettur hann aftur á magann.
Við fórum með Jökul í skoðun til hjúkkunnar um daginn. Þar var nú allt bara flott og fínt eins og áður. Hann er nú eitthvað farinn að hægja á vextinum eins og eðlilegt er. Hann er nú orðinn 8720 gr. og 72,5 cm. hann fékk líka sprautu og fór að hágrenja um leið og hjúkkan sprautaði. Þá hugsaði ég með mér að kannski væri loksins komið að því að ég fengi að hugga hann. En það var nú ekki svo gott, um leið og sprautan var búin þá var honum alveg sama og tók gleði sína á ný. Læknirinn kíkti aðeins í eyrun á honum og gat sagt okkur að þar væri enn vökvi en engar bólgur. Það er ekkert við þessu að gera annað en að láta skoða þetta bara í tíu mánaða skoðuninni. Við verðum voðalega lítið vör við þetta, en læknirinn sagði að við ættum bara að gefa honum stíl ef hann er eitthvað órólegur. Svo er hann reyndar stundum voðalega óánægður þegar hann er að borða, grætur en vill samt borða, það gæti þýtt að það sé vont fyrir hann að kyngja.
Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur seinustu daga, ég hef verið að vinna lengi á daginn og stefni að því að hætta í 80% og fara bara yfir í 100% um mánaðarmótin. Við höfum því átt eitthvað erfitt með að uppfæra síðuna seinustu daga og það verður sjálfsagt engin breyting þar á á næstunni.
Í dag erum við svo með útskriftarveislu fyrir Hjalta. Nánustu ættingjar koma á milli fimm og sjö og svo nokkrir vinir um kvöldið. Jökull ætlar í næturpössun til mömmu og pabba, en ég veit ekki alveg hvort ég eigi að gera þeim það því hann er svolítið erfiður sumar nætur, vaknar um fjögur leytið og á það til að vera vakandi í einn til tvo tíma. En við sjáum bara hvernig hann verður stemmdur í kvöld.
Ég setti svo að sjálfsögðu nokkrar nýjar myndir í albúmið ,,8. mánuðurinn"