Hiti, eyrnabólga og útbrot.
Það er ekki að spyrja að því, það hefur gengið á ýmsu hér hjá okkur í Vegghömrum. Jökull vaknaði með hita á miðvikudagsmorguninn og þeir feðgarnir voru barasta heima miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Þegar hitinn var ennþá yfir 39° á laugardeginum þá fórum við með hann til læknis. Þar kom í ljós að Jökull var með hálsbólgu og eyrnabólgu. Hann var því settur á sex daga pennsilínkúr. Við höfðum nú alls ekki tekið eftir því að hann væri með eyrnabólgu, hann kvartaði ekkert ef hann lá út af og var bara voðalega glaður og góður. En hann var reyndar farinn að væla pínu þegar hann var að borða, greinilega eitthvað vont að kyngja. Svo á sunnudeginum var hann bara alveg hitalaus og allt leit voðalega vel út. En þá dúkkuðu allt í einu upp einhver útbrot. Okkur grunaði nú að þetta væri mislinga-bróðir sem kemur oft í kjölfar hita í nokkra daga. En þegar við hringdum á læknavaktina þá var okkur nú ráðlagt að láta lækni kíkja á þetta þar sem að þetta gæti verið viðbrögð við pensilíninu. Læknirinn var sammála okkur og við eigum alveg að halda áfram að gefa honum lyfið. Í dag er svo Jökull voðalega pirraður, svaf mjög illa í nótt greyið og er greinilega eitthvað illt í maganum út af lyfjunum og sjálfsagt bara orðinn pirraður á því að fá ekki að hitta krakkana hjá dagmömmunni. En þetta er nú allt í rétta átt hjá okkur. Jökull er nú samt heima í dag, við Hjalti skiptum deginum á milli okkar. Ég var komin í vinnuna rúmlega sjö og var til níu og svo fór Hjalti í tíma klukkan tíu og kemur aftur heim um tvö, þá fer ég í vinnuna og verð eitthvað fram eftir.
Svo gerðist það á miðvikudaginn að við fundum tvær tennur. Svéi mér þá, þvílík gleði og hamingja. Samstundis hætti Jökull að troða öllu tiltæku beint í munninn og er nánast hættur að ráðast á kinnarnar á manni og naga þar til að stór sér á manni. Það virðist sem sagt hafa slegið eitthvað á kláðann sem hefur verið að hrjá piltinn seinustu fjóra og hálfan mánuðinn. Þetta eru tvö stykki framtennur í neðri góm, takk fyrir og erum við öll að springa úr stolti.
Hjalti er að fara að kenna valáfanga í sögu í Salaskóla þessa önnina, sagan sögð í gegnum kvikmyndir. Þeir í Salaskóla báðu hann um að kenna þetta fag þar sem að Hjalti stakk upp á því að þetta yrði kennt. Svo þegar hann komst að því að hann getur fengið þetta metið í masternum þá var þetta bara engin spurning. Ég er hægt og rólega að komast á skrið í vinnunni og finnst þetta bara skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem ég kemst betur inn í þetta.
Svo er það nýjasta að frétta af Skodajeppanum okkar að þegar við hringdum til að spyrja að því hvað viðgerðin myndi kosta þá sagði bifvélavirkinn að hann ætlaði að láta líða nokkrar vikur áður en hann myndi rukka okkur. Hann vill vera búinn að gleyma því hvað þetta var mikil vinna því annars myndi hann sjálfsagt bara fara að gráta þegar hann setti verð á þetta. Við svitnum alveg við tilhugsunina og þorum ekki að hringja í hann til að segja honum að alternatorljósið í mælaborðinu er farið að loga. Við keyrum bara bílinn og reynum að útiloka þetta skærrauða ljós. Eigum kannski stundum í smá erfiðleikum með að koma honum í gang, en það tekst að lokum.