Jæja þá erum við nánast búin að borða á okkur gat, en þannig er það nú alltaf um jólin. Við höfum aldeilis haft það gott fjölskyldan þessi fyrstu jól okkar. Við byrjuðum á því að fara í skötuboð í Fannafoldina á Þorláksmessu. Um kvöldið lögðum við svo lokahönd á að þrífa íbúðina. Ef Jökull hefði verið eldri þá hefðum við haldið að hann hefði verið spenntur fyrir jólunum því hann átti mjög erfitt með svefn. Hann vaknaði um tólf og var vakandi til hálf þrjú, úff. Það var svo frekar erfitt að vekja hann klukkan hálf tólf á aðfangadag. Við erum núna að reyna að vekja hann fyrr á morgnanna til að hagræða svefninum eitthvað.
Á aðfangadag fórum við í Langholtskirkju klukkan sex og svo í Fiskakvísl. Þar vorum við, Halldór, Dísa, Daði, Hrafnhildur, Maggi og Ísak. Þar var boðið upp á rjúpur og hamborgarhrygg og ís og ávexti í eftirrétt. Strákarnir stóðu sig nú bara vel um kvöldið. Jökull var rosa glaður og ánægður og fylgdist grannt með því þegar pakkarnir voru teknir upp og þess á milli japplaði hann á bindinu hans Halldórs. Ísak fékk pínu í magann til að byrja með en var annars bara vær og góður. Pakkaflóðið var gífurlegt og við þurftum að hafa okkur öll við að ná að opna alla pakkana fyrir klukkan ellefu, því þá þurfti Maggi að fara að spila í miðnæturmessu. Við fengum að sjálfsögðu öll fullt af góðum gjöfum og þurftum barasta að endurskipuleggja hérna heima til að koma öllu fyrir. Jökull lagði sig í um hálftíma um kvöldið og sofnaði svo klukkan hálftvö þegar við vorum komin heim og svaf til hálf tólf. Á jóladag fórum við svo í morgunmat/hádegismat í Fiskakvísl og svo í hangikjöt og uppstúf í Fannafoldina. Á annan í jólum var amma mín svo með jólaboð í Fannafoldinni og bauð að sjálfsögðu upp á hangikjöt og uppstúf. Þriðja í jólum fórum við svo í afganga hjá Eirnýju og Gæja í hádeginu og þar var að sjálfsögðu hangikjöt og uppstúfur. Þaðan fórum við svo í Fannafoldina og þar átum við enn meiri afganga sem voru náttúrulega hangikjöt og uppstúfur. Þannig að við erum komin með hangikjöts-og-uppstúfs-eitrun. Liggjum afvelta upp í sófa og stynjum, enda erum við bara í jólafríi og njótum lífsins. Við verðum svo með mömmu, pabba, Eirnýju, Garðari og Kötlu á gamlárskvöld og borðum á okkur enn stærra gat.