KLUKKAÐUR
Jökull var víst klukkaður af Daníel Mána. Fyrir þá sem ekki vita hvað það þýðir þá á ég að lista upp 5 atriði um piltinn.
1. Hann lét móður sína hafa mikið fyrir sér á meðgöngunni og þar með þurfti faðir hans að ganga í gegnum ýmislegt. En hann launaði okkur svo með því að gráta ekki fyrstu tvo mánuðina, fá ekkert í magann og vera bara alltaf eins og hugur manns.
2. Hann er mikill rútínu maður og vill hafa allt eins og það var í gær. Hann getur til dæmis varla sofið á daginn ef hann fær ekki að fara í vagninn sinn.
3. Hann lætur ekki bjóða sér hvað sem er og vill ekki sjá graut sem ekki inniheldur brjóstamjólk. Frussar bara og kúgast og spýtir honum út úr sér svo það fari nú ekki á milli mála hvað honum finnst.
4. Hann er selskapssjúkur. Hann vill helst vera í fanginu á okkur og finnst fúlt ef hann er skilinn eftir niðri á gólfi.
5. Hann er mjög hávær. Hann getur öskrað hástöfum bara svona í staðinn fyrir að hjala, ekkert óánægður, bara að tjá sig. Svo reynir hann að fanga athyggli manns með því að hósta þurrum hósta.
Það er barasta búið að klukka flest alla í kringum okkur og við getum ekkert annað gert en að vonast til að þeir Nói Pétur og Kolbeinn Hrafn hafi ekki enn verið klukkaðir. Þá eru þeir klukkaðir hér með.
Jökull er annars úti í vagni annan daginn í röð og er búinn að sofa í um þrjá tíma. Hann fór ekkert út í heila viku og svaf þá voðalega slitrótt á daginn. Klukkutíma hér og hálftíma þar. En um leið og hann fór aftur í vagninn þá steinsvaf hann alveg hreint. Ég held að það sé vegna þess að hann er svo dúðaður hjá mér að hann hreinlega getur sig hvergi hreift og þá er bara eins gott að sofa. En þegar hann svaf svona lítið á daginn þá svaf hann alltaf í tíu til tólf tíma á nóttunni og rétt rumskaði tvisvar til að drekka. En í nótt varð strax breyting á, hann sofnaði hálf tíu og vaknaði klukkan tvö og svo aftur klukkan sjö og vildi þá vaka í klukkutíma og svaf svo til tíu. Það er ekki bæði sleppt og haldið en þetta er alls ekki slæm rútína svo ég kvarta nú ekkert.
Ég er annars eiginlega komin með hnút í magann því það er farið að líða að því að ég fari að vinna. Við erum komin með frábæra dagmömmu svo ég kvíði því ekki að setja hann frá mér og ég hlakka bara til að byrja að vinna. En það sem er að fara með mig er að ég veit ekki hvernig ég á að undirbúa okkur undir þetta svona brjóstamjólkurlega séð. Málið er að hann verður að venja sig á að fá eitthvað annað en brjóstamjólk á meðan hann er hjá dagmömmunni. En þetta verður að gerast eitthvað hægt og rólega og ég bara veit ekki hvernig, svei mér þá. Þegar hann fer til dagmömmunnar þá verður hann sex mánaða og má borða nánast hvað sem er. En þangað til ætti hann helst bara að fá brjóstamjólk ef það er mögulegt og ég mjólka bar mjög vel og finnst synd að venja hann af brjóstinu og yfir á pela eða eitthvað. Hvernig gerðuð þið þetta margrabarnamömmurnar Guðrún Elísabet og Bryndís?
Við töluðum við nýbökuðu móðurina í gær. Hún var að sjálfsögðu í sjöunda himni yfir þessum fallega dreng. En hún lenti samt í því að fara illa í grindinni rétt eftir fæðinguna og er frekar kvalin út af því. En hún staulast nú um spítalann með göngugrind og verkjalyf, greyið. Maggi sendi okkur videó af drengnum og hann var algjört æði, opnaði meira að segja örlítið augun.