Þá er okkar maður orðinn 9 vikna og var í skoðun í gær. Hann er orðinn rúm 5,5 kg og 61 cm sem er bara mjög fínt.
Við getum því miður ekki montað okkur lengur af því að drengurinn grenji aldrei á okkur. Hann er orðinn mun ákveðnari og er búinn að fatta að ef hann grenjar þá komum við hlaupandi og troðum upp í hann snuði eða brjósti. Stundum kvartar hann jafnvel þó hann sé úthvíldur og saddur, svo þegar við birtumst þá skælbrosir hann. Hann ætlar sem sagt að verða eins og mamma sín sem nennir heldur ekki að hanga ein. hann er orðinn voða duglegur að skoða hendurnar á sér og verður kolrangeygður við að fylgjast með þeim, svo finnst honum mjög gaman að sjúga puttana. Hann ýtir alltaf snuðinu út úr sér og setur hendurnar í munninn, en hann hefur ekki nógu góða stjórn á höndunum til að halda þeim upp í sér. Þá er illt í efni, ekkert snuð og hendurnar láta ekki að stjórn, hvað gerir maður þá annað en að öskra hátt og snjallt og bíða þar til þjónarnir mæta og stinga snuðinu aftur upp í mann. Mamma mín og pabbi voru í Kína um daginn (það fer að verða auðveldara að telja upp þá staði sem þau hafa ekki komið til frekar en hitt) og þar keyptu þau rosa flottan ömmustól handa Jökli. Jökull unir sér mjög vel í honum, en best þykir honum þegar við kveikjum á titringnum, þá tekur hann sig vanalega til og kúkar hressilega. Jökull hefur tekið upp á því síðustu daga að sofa rosalega mikið einn daginn en vera svo bara vakandi allan næsta dag. Hann er mjög úrillur þegar hann sefur svona lítið og þeim mun glaðari þegar hann sefur mikið. Ég er því að reyna að vinna í því að láta hann sofa mikið alla daga og reynist vagninn góður í þeim málum. Annars voru mamma og pabbi að gefa okkur hjónarúmið sitt því þau fengu nýtt. Það er ekkert smá frábært þar sem gamla rúmið okkar var 120 cm breitt og nýja er 180 cm. Ég skil nú ekki hvernig við komumst þarna öll þrjú þegar Jökull var í maganum. Kannski eins gott að ég byrjaði meðgönguna á því að léttast svona mikið. En sem sagt í nótt var fyrsta nóttin í þessu nýja rúmi og við Hjalti hittumst bara ekkert í alla nótt. Svo í morgun leyfðum við okkur þann lúxus að ná í Jökul og þá sváfum við öll hálftíma lengur.
Hjalti er byrjaður sem forfallakennari í Salaskóla og er búinn að vera að leysa af þessa vikuna. Það gengur mjög vel hjá okkur Jökli að vera tvö saman, en ég verð nú að segja að ég dáist að einstæðum mæðrum, þetta er ekki alltaf bara létt. Við erum sem sagt mjög ánægð með að geta verið öll saman í sumar og við erum nú dyggir stuðningsmenn feðraorlofs.